16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

74. mál, þingsköp Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því máli sem hér er til umr. Ég held að það væri ástæða til fyrir Alþingi og löggjafann, fjárveitingavaldið, og þó fyrr hefði verið að reyna með einhverjum hætti, eins og ég held að hæstv. forseti vor hafi oft orðað það, að ná vopnum sínum í viðskiptum við embættismenn í kerfinu. Ég hygg að hugmyndir séu uppi um það m. a. í þessu frv.

Við horfum upp á það árlega og oft á ári, að hvað sem líður ákvörðunum Alþingis og fjárveitingavaldsins um fjárveitingar til hinna ýmsu framkvæmda, þá ráðsmennskast embættismennirnir í kerfinu, forstjórarnir í ráðuneytunum og ríkisstofnunum með þessar fjárveitingar að eigin geðþótta og stór hluti af þeim fer ekki til þess sem fjárveitingavald og Alþingi hefur ákvarðað sjálft að það eigi að fara í. Það er ekki síst þessi þáttur sem ég tel nauðsynlegt að Alþingi fari að átta sig á, en auðvitað eru þeir fleiri, þættirnir sem löggjafinn þarf að ná í sínar hendur aftur frá embættismönnum í ríkiskerfinu.

Það er líka full ástæða til að veita hæstv. ráðherrum meira aðhald en gert hefur verið í sambandi við ákvarðanir og framkvæmdir í einstökum tilfellum. Við höfum ótal dæmi þess, að ráðherrar ákvarða að eigin geðþótta, burt séð frá því, hvort þessir tilteknu einstaklingar, hæstv. ráðherrar, hafa til þess lagastoð að ráðsmennskast á þann hátt sem þeir gera. (Félmrh.: Kæra þá fyrir landsdómi.) Hæstv. félmrh. segir: Kæra þá fyrir landsdómi. Það er miklu betra að koma í veg fyrir að lögbrotin séu framin en að láta menn fremja þau og kæra þá svo. Það er algild regla og ætti að vera í heiðri höfð, a. m. k. af löggæsluaðila, að koma í veg fyrir að brotið sé framið heldur en að láta menn fremja það og kæra þá og dæma svo. (Gripið fram í: Það má kæra þá á eftir.) Það má kæra þá á eftir, jú, en ekki er það æskilegri þróunin. Ég held því að hér sé hreyft mjög merku máli. Frá hvaða sjónarhóli sem menn líta þetta er brýn nauðsyn á því að löggjafarvaldið fari að taka í taumana og gera embættismönnunum í kerfinu og þeim, sem ráðskast með þessi mál, fulla grein fyrir því, að ætlast er til þess að farið sé eftir ákvörðunum Alþingis, en ekki eftir einhverjum uppdiktuðum ákvörðunum, hvar sem þær koma upp í ríkiskerfinu.

Ég veit að hæstv. forseti verður sammála mér í þessum efnum, því að hann hefur hvað oftast látið í það skina og látið í veðri vaka að löggjafinn hafi látið embættismönnunum í té allt of mikil völd af þeim sem löggjafarþingið á að hafa. Ég tek undir orð hæstv. forseta og flm. sem hér mælti fyrir þessu frv. Það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að áframhald verði á þessari þróun. Það þarf miklu fremur að snúa henni við og að löggjafinn nái vopnum sínum aftur gagnvart kerfinu.