16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið hjá hv. ræðumönnum, að hér er ekki bara um mikið nauðsynjamál, heldur réttlætismál að ræða. En það má vekja á því athygli, að eins og þetta er orðað í frvgr. — og það er sennilega ekki hægt að orða það öðruvísi — þar sem talað er um að sveitarstjórn sé skylt að lækka eða fella niður fasteignaskatt, þá felur það væntanlega í sér að það kallar á reglugerð frá ráðh. nái þessi lög fram að ganga. Þetta verður því tilraunastarfsemi fyrst í stað. En eins og hv. flm. gat um áðan er meginhugsunin í þessu auðvitað alveg ljós.

Ég vil svo bæta því við, að hér í Reykjavík er alþekkt að þetta hefur víða orðið til hinna ótrúlegustu vandræða, ekki síst í miðborginni og í nokkrum radíus þar í kring. Í gömlum húsum, sem eru mjög hátt metin, býr gjarnan fullorðið fólk, tvennt eða jafnvel eitt, og hefur fengið firnaháa skatta, jafnvel svo að fólkið hefur verið hrakið úr húsunum. Eru til af þessu hinar dapurlegustu sögur. Það eru ekki síst mál af þessu tagi sem gera það að meiri háttar mannréttindamáli, ekki síst til handa þessu aldraða fólki. að frv. sem þetta nái fram að ganga og að framkvæmdin á því verði með þeim hætti og jafnframt reglugerðarsmíði, að það leysi vanda þessa fólks. En ég fullyrði að þetta á við um býsna marga hér í Reykjavík, einkum á þessum takmörkuðu svæðum í margar áttir út frá hinum gamla miðbæ.