17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig ekki undrandi á því, þótt hér á hinu háa Alþingi heyrist raddir um að það eigi að þvinga ritstjóra blaðanna til að matreiða skrif sín til Ríkisútvarpsins eftir því sem fréttastjórum Ríkisútvarpsins, menntmrh., útvarpsráði eða einhverjum slíkum aðilum sýnist. Til allrar hamingju búum við í nokkurn veginn lýðfrjálsu landi ennþá og fullkomlega eðlilegt að ritstjórar blaða ráði því sjálfir, hversu langar forustugreinar þeirra séu og hversu efnismiklar. Er algjörlega út í hött að halda því fram, að Ríkisútvarpið eigi að hafa þar nokkuð um að segja. Ég get að vísu ekki skilið að það sé dagsverk að stytta leiðara dagblaðanna. Það má náttúrlega vinna það með þumalfingrunum, en ekki er það mikill vinnuhraði.

Ég vil annars aðeins segja það, að auðvitað er mjög hæpið að hið opinbera ríkisútvarp sé að stytta forustugreinar dagblaða, sem oft veldur því, að merking skekkist, áhersluatriði verða önnur. Því miður hefur það stundum brunnið við, að leiðurum hefur hreinlega verið sleppt eða þá jafnvel að merking þeirra hefur orðið önnur en rétt er. Það er þess vegna ekki alveg einfalt mál að hið opinbera hafi með þessum hætti forgöngu um að stytta pólitískar greinar ritstjóra. Auðvitað á það að vera blöðum í sjálfsvald sett hvernig þau haga sínum málum. Ef hæstv. menntmrh. finnst þetta of dýrt á hann að láta hætta þessu. Ég hef ekki hitt þá menn sem þykir þetta skemmtileg lesning, satt að segja, eins og útdrátturinn er oft og tíðum úr samhengi og snubbóttur og gefur ekki rétta mynd af því sem skrifað er.