17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

48. mál, umfjöllun þingnefnda varðandi reglugerðir

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég fagna mjög þeirri umr., sem hér hefur farið fram, og þakka hv. þm. Helga Seljan fyrir þessa till. til þál. þó að ég sé sammála því, að þarna sé kannske nokkuð málum blandað. Við deildum nokkuð um það í okkar þingflokki hvernig þetta skyldi orðað. En að mínu viti ætti slík umr. að fara fram í upphafi hvers einasta þings. Það er nú svo, að fullyrðingar manna um, að Alþingi sé nokkuð að tapa virðingu sinni, eru kannske ekki síst sprottnar af því, að héðan fara allt of mörg illa gerð lög.

Menn hafa talað hér mikið um mun á lögum og reglugerðum. Ég vil taka undir flest það sem síðasti hv. ræðumaður sagði. Ég held að það sé ákaflega varasamt að rugla þessu tvennu saman. Svarið við því er auðvitað að lög séu hæfilega vönduð.

Ég vil aðeins minna hér á annað „dókument“ ekki ómerkara, sem er stjórnarskrá landsins. Ég held að það væri ekki úr vegi að athuga stundum hvort þau lög, sem við erum að setja hér, brjóti ekki beinlínis í bága við anda stjórnarskrárinnar. Ég vil taka hér dæmi. Ég benti hinu háa Alþingi á þetta í fyrra. Hér var verið að tala um frv. til laga um biskupskjör, þar sem lýðræðislega kjörin stofnun tók sér að boði biskups eða öllu heldur skipaði Alþingi Íslendinga að fela sér meira vald en hún var til kjörin. Ég flutti hér ákvæði til bráðabirgða þar sem ég fór fram á að lögin tækju ekki gildi fyrr en nýtt kirkjuþing hefði verið kjörið, að mig minnir á árinu 1982. Svar hæstv. kirkjumálaráðherra var að það lægi á að afgreiða lögin vegna þess að biskupskjör færi fram árið 1981. Ég spurði mér reyndari þm. hvort slík lagasetning bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Menn sinntu þessu engu og ákvæði mitt til bráðabirgða fékk tvö atkvæði hér í hv. Nd.

Ég held þess vegna að það, sem okkur vantar umfram allt hér á hinu háa Alþingi, séu starfsmenn sem fara yfir þau lagafrv. sem við sendum frá okkur. Ég hef oftlega tekið undir þá gagnrýni, m. a. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, að stjfrv. eru nær öll samin af embættismönnum rn., sem siðar eru kallaðir á nefndarfundi til að verja eigin frv.

Önnur tegund frv. ryðst hér yfir á hverju ári. Það er orðið mikið sjónarspil fyrir fjölmiðla að fylgjast með störfum þm. Menn fá einkunn fyrir hvað mörg mál þeir flytja, og er ekki endir á hvað mönnum dettur í hug að flytja til þess að hljóta titilinn „duglegasti þingmaðurinn“. Maður sér mörg dæmi um þetta og má sitja undir því, að alls kyns sérvitringar úti um bæ, sem eru nógu duglegir að skrifa í blöðin um eitthvert mál, setjast svo að einhverjum þm. með tilbúið frv. í höndunum. Þetta er svo blygðunarlaust flutt hér á hinu háa Alþingi. Síðan er sami sérvitringur kallaður á nefndarfund, af því að fyrir einhverja undarlega tilviljun dettur mönnum hann í hug. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem okkur eru ekki á nokkurn hátt sæmandi. Menn mættu miklu frekar huga að því að vanda lagasetningu en að flytja sem allra flest mál. Mig undrar satt að segja það sem átti sér stað hér í dag í Sþ.,hv. forseti Sþ. skuli taka hér á dagskrá fsp. um það af hverju hafi ekki verið skipuð nefnd sem búið er að skipa og fyrirspyrjandi situr í nefndinni. Hvers konar hegðun er þetta? Til hvers erum við að sitja undir svona vitleysu? Og hver ætlast svo til þess, að við njótum einhverrar sérstakrar virðingar úti í þjóðfélaginu?

Alþingi á að vera gagnrýnið á þau mál sem lögð eru fram. Það á að gerast hér, að mál séu stöðvuð séu þau ekki tæk. Þann stutta tíma, sem ég hef verið hér, hafa verið lögð fram mál sem eru ekki samboðin hinu háa Alþingi. Hér á að vera starfsmaður sem stöðvar slík mál. Fyrir nú utan það undirstöðuatriði að hér er lýðræðislega kjörið Alþingi Íslendinga. Það er engin menntunarkrafa fyrir þá sem hér sitja og á ekki að vera. Hins vegar á hvaða þm. sem er að geta haft starfsmann hér á sjálfu Alþingi til þess að undirbúa fyrir sig frv. Hugmyndin kemur frá þm. sjálfum, eða hvar sem hann verður sér úti um hana, en þeir þm., sem t. d. treysta sér ekki til að útbúa frv. — sem eru eflaust til og þeir eiga að vera til — í hvaða hús hafa þeir að venda? Jú, þeir flýja venjulega á náðir embættismanna rn. Og þetta er auðvitað orðið vafasamt lýðræði, svo ekki sé meira sagt.

Það er algjörlega óviðunandi hér á hinu háa Alþingi þar sem vinna 60 þm., að hér skuli varla vera hægt að fá nema á hlaupum, í einni eða tveimur setningum, aðstoð við að ganga frá málum, eða að farið sé yfir mál til þess hreinlega að athuga hvort þau uppfylla öll skilyrði sem Alþingi Íslendinga getur verið þekkt fyrir að sýna. Þessi þjónusta er ekki til hér. Sama þjónustuleysi er auðvitað í sambandi við bókasafnið hér á hinu háa Alþingi. Þó að starfsfólk þar sé allra góðra gjalda vert hefur það enga aðstöðu til þess að leita uppi það sem skrifað hefur verið um ákveðið mál sem þm. er að hugsa um.

Ég held að það sé með merkari umr., sem ég hef heyrt lengi hér á þinginu, að menn fari að velta fyrir sér hvort þingið vinni eins og því ber.

Varðandi það mál, sem hér er á dagskrá, svo að ég taki nú ekki of mikinn tíma, herra forseti, tek ég undir það sjónarmið, en mér finnst ákaflega erfitt að kyngja því, að þegar hv. þm. eru búnir að setja lög á hinu háa Alþingi og búið er að samþykkja þau, þá sé það okkar hlutverk að sjá um að reglugerðir séu sómasamlegar. Það hlýtur að vera verkefni viðkomandi ráðh. og hans starfsmanna. Ég get hins vegar horfst í augu við það, að þetta kunni að vera nauðsynlegt. Mér er alveg ljóst að reglugerðir eru búnar til á undarlegasta máta. Ég veit það úr störfum mínum í framkvæmdaþætti þjóðfélagsins, að oftlega eru starfsmenn viðkomandi stofnunar, sem lögin varða, fengnir til þess að búa til reglugerð. Og ég tek það fram, að það er oft ekki versta aðferðin. Oftlega hafa starfsmenn rn. því miður allt of lítið samband við þá stofnun sem á að framkvæma lögin, og þess vegna eru reglugerðirnar oft slæmar. Ég held þess vegna að sama vandamálið mundi verða uppi þó að þingnefndir ættu að fara yfir reglugerðir. Það þarf töluvert nána þekkingu á viðkomandi máli, á smáatriðum framkvæmdanna, til þess raunverulega að sjá hvort reglugerð er góð eða vond, hvort hún tekur af þau vafaatriði sem lögin kunna að hafa. Hins vegar má segja að þingnefnd geti séð hvort þeirri einföldu reglu er hlýtt, að reglugerð hafi stoð í lögum yfirleitt, og hvorki víkki né þrengi það sem í þeim stendur. En ég dreg í efa að mikið gagn væri að því að þingnefnd færi yfir reglugerðir, nema þá að í sjálfu Alþingi væri mjög vel lögfróður maður sem yrði til aðstoðar við slíka yfirferð.

Um þetta mætti margt segja. Ég get vel skilið af hverju þessi till. til þál. er fram komin. Okkur er öllum ljóst að við höfum lítið sem ekkert yfirlit yfir það, hvað gefið er út í reglugerðum sem eiga að hafa stoð í þeim lögum sem við erum að setja hér. En því verður ekki neitað, að gagnrýnar raddir hafa heyrst, t. d. frá lagadeild, um tilbúning mála hér og ég vil taka ákveðið undir þær. Ég tók jafnframt undir gagnrýni sem kom fram hér í fyrra, þegar dómarar — hæstaréttardómarar — eru kallaði á nefndarfundi til þess að ræða frv. sem þeir sjálfir hafa samið og eiga síðan kannske að dæma eftir. Þetta er auðvitað orðinn undarlegur ruglingur milli þeirrar þrískiptingar sem við höfum hingað til reynt að halda okkur í: löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds, og ég held að Alþingi ætti að kanna þessi mál mjög vel. Ég beini þessu til viðkomandi nefndar. Líklega fer málið til hv. allshn., svo að ég fæ tækifæri til að ræða málið þar. Þetta er mál sem er vel þess virði að vera rætt ítarlega í þeirri hv. nefnd.