17.11.1981
Sameinað þing: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

88. mál, kalrannsóknir

Egill Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að þakka 1. flm. þessarar till. frumkvæði hans í þessu máli, og það er vissulega ástæða til að vekja athygli á því, að þeir, sem flytja þetta mál, eru engan veginn einir um þessa skoðun, því að á því árabili, sem er nú kennt við kalár, voru þrásinnis gerðar um það ályktanir á Búnaðarþingi, að til þessa embættis einmitt norður í Eyjafirði skyldi stofnað. Þessi till. hefur því fyrir fram fengið meðmæli þeirra aðila sem gefa jafnan umsagnir um mál af þessu tagi.

Þetta er líka að því leyti einkar geðfellt mál fyrir mig að styðja, að það fellur að þeirri skoðun minni, að við eigum ekki að hnýta landbúnaðarrannsóknir almennt séð of mikið í einn bagga, sem er þá staðsettur bráðum inni í miðri höfuðborginni, hér uppi á Keldnaholti. Það er sannarlega sannfæring mín og skoðun, að landbúnaðarrannsóknir eigi að fella miklu meira að hinu almenna leiðbeiningastarfi og það eigi einmitt að leggja sérstaka áherslu á að styrkja þær greinar landbúnaðarvísinda sem eru stundaðar úti um land. Við eigum ekki að hafa þær í því formi, að þær séu með litla fætur en stórt höfuð. M. a. af þeirri ástæðu fellur mér þessi tillöguflutningur einkar vel, eins og náttúrlega sést á því, að ég er meðflm. till.

Það er svo annað mál, sem hér hefur borið á góma, að alþm. eiga sannarlega kost á því að styrkja mál sem þetta eða af líkum toga spunnið og þá ekki síst stjórnarþm. bæði úr Alþb. og Framsfl. Þarf væntanlega ekki að bíða lengur en til afgreiðslu næstu fjárlaga eftir því. Má sannarlega minna á það, að þegar fjárlög voru síðast til afgreiðslu voru hér bornar fram tillögur sem voru smáar í sniðum en ákaflega brýnar fyrir landbúnaðinn og hans starfsemi, en þá sameinuðust þeir menn, sem styðja núv. ríkisstj. um að fella þessar till. Það er því að sjálfsögðu alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að það er með ýmsum hætti hægt að styðja mál sem stefna í svipaða eða jafnvel sömu átt og gert er með þessum tillöguflutningi.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég vil hins vegar leggja áherslu á það, að þessi till. fái greiðan gang hér í gegnum Alþingi og hún verði samþykki héðan sem slík. Þá gildir einu fyrir mig úr hvaða flokki 1. flm. till. er. Ég held að hún komi nefnilega íslenskum landbúnaði alveg að jafngóðu gagni án tillits til þess hver flytur málið.