19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

321. mál, húsnæðismál

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þetta hafa verið mjög undarlegar umr. á marga lund. Auðvitað liggur það fyrir í barnaverndarlögum að allar kvikmyndir eigi að skoða áður en börn hafa tækifæri til að sjá þær. Þar er náttúrlega átt við, að ef verslað er með kvikmyndir á að sjálfsögðu að gera það. Ég held að það sé alveg skýrt í 58. gr. þeirra, að ef um sölu á myndsegulbandstækjum á að vera að ræða hér verður að óbreyttum lögum að koma einhverju eftirliti við varðandi það myndefni.

Annars stóð ég aðallega upp til að ítreka það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að auðvitað er algerlega óþolandi að einstakir ráðh. lýsi því hér yfir í þingsölum, að þeim sé kunnugt um að lög hafi verið brotin, sem liggur jafnvel varðhald við, — það eru ekki aðeins sektir, það er varðhald við brotum á þessum lögum, — og þá skuli vera látið duga að setja nefnd í málið. Það dugir auðvitað ekki. Úr því að þetta mál er komið eins langt og það er komið nú verður ekki hjá því komist að Rannsóknarlögregla ríkisins taki það til meðferðar. Ég vænti þess, að óþarfi eigi að vera að þm. snúi sér til forseta Sþ. og biðji hann að hafa afskipti af málinu beint til þess að nauðsynleg rannsókn geti farið fram. Það ætti að vera tryggt án þess. Um leið og orð hafa fallið í þessum ræðustól, eins og hér hefur verið, er það auðvitað krafa, ekki aðeins einstakra þm., þingsins sem stofnunar, heldur borgaranna allra, að gangskör verði gerð að því að athuga af réttum aðilum, hvort um lögbrot sé að ræða, og síðan höfðuð mál eins og lög segja til um. Það er ekki geðþóttaákvörðun ráðh. að skipa nefnd í málum. Það hefur enginn gefið þeim slíkt vald. Það hefur enginn beðið þá að dæma dóma. Þeir eiga að reyna að framfylgja lögum. Þeirra umboð tekur ekki til þess að ráða lögum eða ákveða hvernig þeim sé framfylgt, heldur að fylgjast með því og hafa eftirlit með því, að opinberar stofnanir og borgararnir fari að lögum.