19.11.1981
Sameinað þing: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

344. mál, endurskoðun á lögum um fasteignasölu

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. greinargóð svör hans og fagna því, að hreyfing er á þessu máli og við megum vænta þess, að fyrir þetta þing verði lögð fram endurskoðuð löggjöf um fasteignasölu. Ég tel mjög mikla nauðsyn á að slík endurskoðun fari fram á þessari löggjöf þar sem betur væri tryggð en nú er gert réttarstaða kaupanda og seljanda til að koma á bættum viðskiptaháttum í fasteignasölu, en reynslan sýnir að full ástæða er til að tryggja betur með lagasetningu en nú er gert slík viðskipti í fasteignasölu til að fyrirbyggja óþarfaágreining og koma í veg fyrir fjárhagslegt tjón sem af slíkum viðskiptum getur skapast. Það segir sig sjálft, að um er að ræða gífurlega fjármuni í slíkum viðskiptum og oftast aleigu fólks, þannig að mikilvægi fullkominnar og nákvæmrar lagasetningar um slík viðskipti hlýtur að vera ótvíræð, enda hagsmunir margra í húfi að vel sé frá slíku gengið.

Ég ítreka þakklæti mitt til ráðh. fyrir greinargóð svör.