19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

98. mál, almannavarnir

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær umr., sem hér hafa orðið, og sér í lagi góðar undirtektir undir efni till. Það kemur sjálfsagt ekki á óvart þó ekki séu allir alveg 100% ánægðir með þann texta sem í ályktunartillögunum er. Og auðvitað er sjálfsagt að sú nefnd, sem fær hana til meðferðar, íhugi vel hvort ekki beri að breyta þeim texta.

Ég stend aðallega upp aftur til þess að fjalla um þær ábendingar sem komu fram í umr. um svokallaðar björgunarsveitir. Mér fannst vera gefið í skyn í umr. að með þessum tillöguflutningi væri verið að gera lítið úr starfi þeirra. Hafi það komið fram í ræðu minni, þá er það mér að kenna. Ég hef ekki verið nægilega skýr, sem ugglaust stafar af því að ég átti ekki von á að þetta mál, sem er 46. dagskrármálið í dag, kæmi hér fyrir. Vona ég að menn virði mér það til vorkunnar.

Sannleikurinn er sá, að ég er gamall sveitarforingi Hjálparsveitar skáta í Reykjavík og þekki líklega manna best hvernig slíkar björgunarsveitir starfa og hvað þær þurfa að leggja á sig. Það er síður en svo að verið sé að gera lítið úr störfum björgunarsveitanna, því að enginn maður ætti síður að gera lítið úr því en sá sem hér stendur. En það breytir ekki því, að Almannavarnir ríkisins verða að vera til og samfélagið verður að hafa til þá starfsemi sem þar er gert ráð fyrir.

Hitt er svo annað mál, að ég hef kynnt mér nokkuð rækilega hvernig hægt er að koma til móts við starfsemi björgunarsveitanna, sem eru fyrst og fremst björgunarsveitir Slysavarnafélags Íslands, flugbjörgunarsveitirnar og hjálparsveitir skáta, auk þess sem kannske má segja að Rauði kross Íslands hafi með svipuð málefni að gera. Í því sambandi hef ég boðað á minn fund fulltrúa þessara sveita og í samráði við stjórn Almannavarna varpað fram þeirri hugmynd, hvort ekki sé kominn tími til að þessar sveitir fái sérstakan styrk til fræðslu- og þjálfunarstarfsemi. Slíkur styrkur gæti komið frá Viðlagatryggingu Íslands.

Viðlagatrygging Íslands starfar samkv. lögum frá 1. sept. I975. Þar er fyrst og fremst gert ráð fyrir að tryggingin taki til brunatryggðra verðmæta, en í 19, gr. þessara laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn stofnunarinnar er heimilt að veita fé til að styrkja framkvæmdir sem ætlað er að varna tjóni af völdum náttúruhamfara.“

Mér finnst ekki óeðlilegt — og hef rætt það við suma þm. — að þarna verði sett til viðbótar ákvæði sem veiti heimild til þess, að björgunarsveitirnar fái greiddan þjálfunarkostnað að nokkru leyti, því að ljóst er að til þeirra er kallað þegar mannvirki eru í hættu, þ. á m. þau mannvirki sem þessi tiltekinn lög ná til. Þær vinnustundir eru ómældar og það vinnuframlag sem björgunarsveitirnar hafa lagt á sig til þess að bjarga slíkum verðmætum án þess að fá nokkuð í staðinn. Hafi það því komið upp í hug einhvers þm., að með þessari tillögugerð um Almannavarnir sé verið að kasta rýrð á björgunarsveitirnar, þá er það hinn mesti misskilningur. Sannleikurinn er sá, að að því verkefni þarf að vinna og að því verkefni er unnið. Nú hafa björgunarsveitarforingjarnir komið sér saman um að reyna að vinna að þessu verkefni, og ég held að það sé einstætt fyrirbrigði, vegna þess að þeir, sem þekkja til þessara mála, vita að sjálfstæði sveitanna er mjög mikið. Ég vil að sjálfsögðu halda því sjálfstæði og þeirri samkeppni sem á sér stað á milli björgunarsveitanna. Ég tel það vera hollt og gott. En það verður auðvitað að reyna að fræða og þjálfa sveitirnar með þeim hætti sem krafist er nú á tímum. Þar verður ríkisvaldið að koma á móti, eins og gert er í fjárlögum á hverjum tíma. En til viðbótar finnst mér sjálfsagt að Viðlagatryggingin komi jafnframt inn í þennan leik og taki þátt í kostnaði. Þetta mál er komið á rekspöl og ég vænti þess, að þegar það kemur hér inn í þingið með einum eða öðrum hætti, þá verði viðtækur stuðningur við það. Það, sem ég lagði hins vegar áherslu á í mínu upphafsmáli, var að það er oftsinnis ruglað saman starfsemi Almannavarna ríkisins og þessara björgunarsveita. En það sagði ég síður en svo til að kasta rýrð á björgunarsveitirnar.

Það er hins vegar athyglisvert, að þessi félög, þ. á m. Slysavarnafélag Íslands, eiga í samanburði við ríkisstofnanir æðimikið fjármagn. Ég er ekki að sjá eftir því. Ég skal taka það fram, að ég sé ekki eftir því fjármagni. En í frv. hæstv. ríkisstj. til fjárlaga er gert ráð fyrir að Slysavarnafélag Íslands fái 970 þús. kr. á meðan Almannavarnir ríkisins fái 1234 þús. Slysavarnafélagíð fær því frá ríkinu heilmikla fjármuni. En auk þess byggist starfsemi Slysavarnafélagsins á miklu sjálfboðaliðastarfi, sem ber að virða og þakka og ég skal fyrstur manna gera, enda eiga forráðamenn Slysavarnafélagsins og allir þeir, sem þar taka þátt í störfum. heiður og þökk skilið fyrir starf sitt. Og auðvitað verða almannavarnastörf í framtíðinni að byggjast á slíkum einingum sem starfa um allt land.

En það er athyglisvert, að þegar hæstv. ríkisstj. leggur fram till. um Almannavarnir ríkisins, þá er niðurskurðurinn gífurlegur. Nefna má sem dæmi að rekstrargjöld Almannavarna ríkisins hækka aðeins um 13.9% frá fjárl. til fjárlagafrv., og ég get ekki ímyndað mér að jafnvel bjartsýnustu niðurtalningarmenn álíti að verbólgan eigi eftir að fara niður á þetta stig. Það sama er um viðhald. Það hækkaði á milli ára um 15.6%. Svona get ég haldið áfram að telja. Og sumt af því, sem talið var einna nauðsynlegast, hefur hreinlega verið strikað út, þ. á m. til fyrirtækja vegna Suðurlandsjarðskjálfta, sem Almannavarnir réðu til, en fékk ekki náð fyrir augum hæstv. ríkisstj. Þetta eru auðvitað allt mál sem eru til umr. í hv. fjvn. og ég veit að verða tekin þar upp. En það breytir því ekki, að það þýðir ekkert fyrir okkur að tala um að ekki hafi verið brugðist við sem skyldi þegar vá ber að dyrum. ef við gerum ekki nægilegar fyrirbyggjandi ráðstafanir með því að efla Almannavarnir.

Ég get ekki séð að nokkurs staðar í tillgr. sé minnst á það, að farið sé inn á starfssvið annarra. Almannavarnir eiga auðvitað fyrst og fremst að nýta þá starfsemi sem fyrir er í landinu, opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka. Og varðandi 4. liðinn, þar sem minnst er á uppsetningu viðvörunar- og fjarskiptakerfis Almannavarna ríkisins, þá er það kerfi nánast upp komið og það tengist auðvitað öðrum kerfum sem til eru í landinu, og Almannavarnir ríkisins hafa að sjálfsögðu fullt samstarf við þær stofnanir sem hér hafa verið nefndar í umr., enda eiga forstjórar þeirra stofnana sæti í almannavarnaráði ríkisins, eins og ég veit að hv. þm. þekkja.

Ég vil ítreka það, að ég er ánægður með þessar umr. Ég er sér í lagi ánægður með það, að hér á Alþingi skuli vera menn sem eru mér sammála um að gera þurfi meira fyrir björgunarsveitirnar. Ég er þeim hjartanlega sammála jafnframt um að þær sveitir hafi unnið mikið og gott starf. Fyrir það getum við öll verið þakklát. En ég held að áætlun um eflingu Almannavarna eigi fyrst og fremst að vera af hinu góða. Þar koma inn þættir, sem allar björgunarsveitir og allar stofnanir ríkisins eiga að hafa aðgang að, og ég vona að þessi till., annaðhvort óbreytt eða í breyttu formi, fái náð fyrir augum hv. allshn. og verði samþykkt sem þál. á þessu þingi.