23.11.1981
Neðri deild: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

107. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel að þetta frv. hafi út af fyrir sig fengið góðar undirtektir, og þær ábendingar, sem hér hafa komið fram, eru allar þarfar og nauðsynlegt að hafa í huga þegar nefnd fer að fjalla um mál þetta.

Ég vil fyrst víkja að því sem hv. þm. Magnús H. Magnússon nefndi, að ríkið hefði ekki séð fyrir sínum hluta. Vafalaust má finna mörg dæmi þess, það er ekki nokkur vafi á því. En gjarnan hefur þetta verið svo, að mér hefur fundist, að ríkinu hefur eiginlega verið stillt upp við vegg. Þegar kostnaður hefur orðið til úti í þessum stofnunum á ýmsum stöðum í þjóðfélaginu hefur ríkið fengið reikninginn. Ég held að megintilgangurinn með þessum umr. hér og jafnvel þessu frv. eigi að vera sá, að þeir aðilar, sem hér koma við sögu, þ. e. ríkið og sveitarfélögin og sjálfseignarstofnanir, geti komið við fjármögnunarkerfið þar sem menn eru ekki einlægt í skotgrafahernaði hver gagnvart öðrum í þessum efnum.

Ég hef rekist á dæmi þess að það hefur orðið til kostnaður sem nam verulegum upphæðum á ákveðnum spítölum í landinu, án þess að áður hafi verið samþykkt af ríkinu að stofna til þess kostnaðar, hvorki af fjmrn. né heldur heilbr.- og trmrn. Það er vitaskuld afar slæmt að slíkt skuli gerast, vegna þess að auðvitað á rekstur þessara stofnana að fara eftir þeim forsendum sem fjárveitingavaldið ákveður á hverjum tíma.

Ég er alveg sammála því sem hv. 1. þm. Vestf. gat um áðan, að auðvitað má margt segja jákvætt um fjármögnunarform ríkisspítalanna eins og það hefur verið á undanförnum árum. En það er ekki þar með sagt að þar sé komin hin endanlega lausn á fjármögnunarmálum allra sjúkrahúsa í landinu. Þau búa við mjög mismunandi aðstæður. Hér þarf að mínu mati fyrst og fremst að koma upp traustu aðhaldskerfi sem þó sé sveigjanlegt eftir aðstæðum á hverjum stað og hverjum tíma. Og mér fannst rétt að reyna þessa aðferð, sem höfð hefur verið á ríkisspítölunum, við fleiri spítala áður en lengra er haldið.

Ég er ekki tilbúinn að slá því föstu, að daggjaldakerfið eigi að leggja alveg niður, fyrr en ég veit hvað á að koma í staðinn. Ég held að reynslan frá ríkisspítölunum, þó hún hafi verið góð, nægi ekki alveg til að slá því föstu, að þetta beina fjármögnunarkerfi eigi skilyrðislaust í öllum tilvikum að yfirtaka daggjaldakerfið.

Hér var á það minnst af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að endurskoðun almannatryggingalaganna hefði gengið seint. Það er alveg rétt, hún gengur mjög seint, en hún hlýtur auðvitað að vera stöðugt í gangi. Þetta eru flókin lög og það er nauðsynlegt að vera stöðugt með athugun á þeim í gangi. En spurningin um það, hvort menn eru tilbúnir að gera róttækar breytingar á almannatryggingalögunum, er aftur miklu stærra mál en hér er í rauninni hreyft. Hér er ekki verið að leggja til í sjálfu sér mjög róttæka breytingu á almannatryggingalögunum. Hér er verið að opna fyrir vissa möguleika fyrir Alþingi hverju sinni til að ákveða fjármögnun einstakra sjúkrahúsa, en hér er ekki um það að ræða að verið sé að gera tillögur um mjög róttæka breytingu á almannatryggingalögunum. En það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að þær till., sem komið hafa fram um breytingar á almannatryggingalögunum á Alþingi þann tíma sem ég hef setið hér, hafa allar verið um viðbótarkostnað. Ég hef enga einustu brtt. séð frá nokkrum þm. um sparnað eða tilfærslu í rekstri almannatrygginganna á þeim árum sem ég hef verið hér, sem eru að vísu ekki mörg. Hér erum við auðvitað komin að tilteknu vandamáli sem er nauðsynlegt fyrir okkur að velta fyrir og ræða, en það gerum við auðvitað ekki úr þessum ræðustól, við þurfum að eyða í það miklu meiri tíma en gefst hér.

Athugasemd hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, var um það, hverjir skuli fá ókeypis vist á sjúkrahúsum, hvort það séu þeir einir sem eru á þeim sjúkrahúsum sem eru fjármögnuð eins og 41. gr. gerir ráð fyrir. Hann telur að það fari eitthvað á milli mála. Ég held að það sé ekki. En ef hugsanlegt er að eitthvað fari þar á milli mála, þá verður að laga orðalag, því það verður auðvitað að vera alveg á hreinu, að menn eigi rétt á ókeypis sjúkrahúsvist á hvaða stofnun sem þeir eru og hvernig sem hún er fjármögnuð. Það á ekki að skipta máli í því sambandi.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði að líka þyrfti að koma fram hvaða sjúkrahús það væru sem ættu að fjármagna með þessum hætti, það ætti að koma fram í lögunum ellegar þá í grg. Ég er ekki tilbúinn til þess fyrir mitt leyti á þessu stigi málsins að stinga upp á því, hvaða stofnanir það eru sem ætti að byrja á. Þó held ég að sérstaklega ætti að athuga þær stofnanir sem gerð hefur verið sérstök úttekt á í þessum efnum á vegum heilbrmrn. og fjmrn. og ég nefndi áðan. En það er auðvitað því aðeins hægt að flytja þessar stofnanir yfir á bein fjárlög að ljóst sé að fjmrn. og fjvn. hafi viðurkennt þann rekstrargrundvöll sem nauðsynlegur er fyrir þessar stofnanir. Það er ekki hægt að fara út í þessi beinu fjárlög öðruvísi en að slík viðurkenning liggi fyrir. Ef hún liggur ekki fyrir getur það skapað stórkostleg vandamál í rekstri þessara spítala þegar fram í sækti.

Í sambandi við samræmingu á rekstri spítalanna, sem hv. þm. Alexander Stefánsson nefndi, þá er unnið að því núna að setja reglugerð fyrir sjúkrahúsin í landinu og heilsugæslustöðvarnar. Það er í undirbúningi sem átti að gera samkv. lögunum 1973 og 1978, en hefur lítið þokast. Sú reglugerð er í undirbúningi og þar verður kveðið á um hvaða þjónustu hvert sjúkrahús á að láta í té. Með slíkri reglugerð um faglega þjónustu sjúkrahúsanna á að vera unnt að samræma betur rekstur þeirra en gert hefur verið.

Ég vil aðeins að síðustu út af athugasemd hv. þm. Sighvats Björgvinssonar geta þess, að auðvitað hlyti að koma fram í fjárlögum hverju sinni hvaða einstakir spítalar það yrðu sem hugsanlega yrðu fjármagnaðir með beinum framlögum. Það hlyti að koma fram í fjárlögum hverju sinni, eins og þetta er útbúið hér í þessu frv.

Ég tel, eins og ég sagði hér áðan, að þær athugasemdir, sem fram hafa komið um málið, sýni að menn séu af vilja gerðir til að taka á þessu stóra máli, sem er vissulega stórt í okkar þjóðarbúskap. Í þeim efnum þurfa menn að nálgast málið með opnum huga. Ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á það, að daggjaldakerfið sé það besta eða að bein framlög, eins og þau eru til ríkisspítalanna, séu þau bestu. Ég held að hv. Alþingi eða ríkisstj. megi ekki koma sér upp slíkri afstöðu til málanna. Aðalatriðið er að hér verði um skilvirka og góða þjónustu að ræða og eins ódýra og mögulegt er.

Ég vil nefna það, að á heilbrigðisþingi, sem hv. þm. Matthías Bjarnason gat um áðan, var hreyft þeirri hugmynd að komið yrði upp svokallaðri Sjúkrahúsastofnun ríkisins sem hefði með að gera í raun og veru rekstur á öllum sjúkrahúsum og hælum. Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunarinnar hyrfi þá í rauninni að verulegu leyti, en þessi Sjúkrahúsastofnun ríkisins tæki við rekstrinum og hefði mannafla og fjármuni til að sinna honum. Þessi hugmynd sýnir að menn eru að brjóta heilann um þessi mál, og á heilbrigðisþinginu komu fram margar aðrar hugmyndir. En meðal heilbrigðisstétta og forráðamanna sjúkrahúsa eru ákaflega skiptar skoðanir um þessi mál. Ég held því að ef maður ætlar að nálgast lausn á þessu vandamáli verði að fara í þetta skref af skrefi. Og hér er lagt til að haldið verði áfram á þeirri braut sem ákveðin var með fjármögnun ríkisspítalanna, til þess að unnt sé þá síðar að taka afstöðu til þess, hvernig þessum málum verði best komið fyrir þegar fram í sækti og meiri reynsla lægi fyrir.