24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur ævinlega uppi töluverða dramatíska tilburði þegar hann kemur í þennan ræðustól. Satt best að segja furðar mig á ýmsu því sem hann sagði hér, einkum þó hversu hissa hann þóttist verða á svörum hæstv. utanrrh. og lýsingum hans. Ég hygg að þau svör hafi ekki þurft að koma nokkrum manni hér á óvart.

Hins vegar kom ýmislegt á óvart í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Í fyrsta lagi virðist honum alls ekki ljóst og hann virðist ekki hafa fylgst með því sem gerst hefur á Norðurlöndum undanfarnar vikur, hverja stefnu umræðan um kjarnorkulaus svæði hefur tekið eftir þann atburð þegar sovéskur kafbátur með kjarnorkuvopn strandaði í Svíþjóð. Þetta hefur gjörbreytt allri þessari umræðu. Og það er ekki nóg að tala hér um kjarnorkuvopnalaus svæði, menn verða líka að vita hvað þeir eiga við. Eiga þeir bara við landssvæði, eiga menn þá bara við Norðurlöndin sjálf, eiga menn við hafsvæðið í kringum Norðurlöndin? Hvað eiga menn við? Fälldin, forsætisráðherra Svía, sagði nú fyrir stuttu: „Það er forsenda allrar umræðu í þessum efnum, að Eystrasaltið verði talið með sem kjarnorkuvopnalaust svæði.“ Undir þetta tók Olof Palme. Þetta er auðvitað eitt af meginatriðum málsins. Auðvitað hlýtur víghreiðrið á Kólaskaga, þar sem eru 16 eða 17 flugvellir fyrir sprengjuflugvélar og orrustuþotur, að koma inn í myndina. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að koma í þennan ræðustól og tala eins og allt þetta sé ekki til og þetta séu engin vandamál. Það hafa verið gerðir fjórir alþjóðasamningar um kjarnorkuvopnalaus svæði í veröldinni. Þar af tekur aðeins einn til byggðra bóla. Hann tekur til Suður-Ameríku þar sem aðstæður eru allt, allt, allt aðrar en í Evrópu. Kúba hefur ekki séð sér fært að undirrita þann samning. Ef einhver svona yfirlýsing um áframhaldandi kjarnorkuvopnaleysi á Norðurlöndum kemur til, þá hlýtur hún að eiga að verða til þess að auka öryggi þeirra sem búa á þessum svæðum. Hún hlýtur að verða hluti stærri myndar. Öllu þessu er kosið að horfa fram hjá þegar komið er upp í þennan ræðustól með dramatískum tilburðum og oftast nær talað eins og enginn annar þm. fylgist með þessum málum eða viti yfirleitt um þau nokkurn skapaðan hlut.