24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er óþarfi að hafa mörg fleiri orð um þetta mál en hér hafa fallið. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans skýru svör, sem reyndar hafa legið fyrir í langan tíma, enda er þetta gamalt mál. Það er ljóst að tilgangurinn með fyrirspurnunum er að fá þetta skýrt fram fyrir menn á Norðurlöndum sem hafa ekki trúað því fyrr en nú við þessi svör. Ástæðan er augljóslega sú, sem komið hefur fram í umr. jafnframt, að til eru aðilar á Íslandi sem hafa haft það fyrir sið að sá fræjum efans. Það eru þeir menn sem hafa ljóst og leynt gengið um og sagt: Hér eru kjarnorkuvopn falin og geymd. — Það vita allir hverjir þar hafa gengið fremstir í flokki og kannske helst fyrirspyrjandinn sjálfur.

Ég kem þó hér fyrst og fremst upp til eins. Ég ætla að fagna merkilegustu yfirlýsingunum sem hafa verið gefnar í þessum umr., en það eru yfirlýsingar hv. þm. Stefáns Jónssonar og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um að nauðsyn sé að hafa betri og meiri upplýsingar um varnarþörf og varnarmöguleika hér á landi. Undir þetta vil ég taka, sérstaklega vegna þess að fyrir Sþ. liggur nú till. um að setja á stofn embætti ráðunautar hjá utanríkisþjónustunni um varnir Íslands. Nú gefst Alþb.-mönnum tækifæri til að sýna í verki að þeir standi með slíkri till. Mér þykir leitt, að sá hv. þm. Alþb., sem ég bauð að skrifa undir þessa till., fékkst ekki til þess. En hann er vonandi einn og einangraður í sínum flokki því að þær yfirlýsingar, sem hér hafa fallið, merkilegustu og nýjustu yfirlýsingarnar í þessum málum, eru að Alþb.-menn og helstu talsmenn Alþb. í utanríkismálum, þeir hv. þm. Stefán Jónsson og Ólafur Ragnar Grímsson, ætla sér að standa með okkur öðrum að því að koma hér fyrir ráðunaut sem getur aðstoðað stjórnmálamenn og embættismenn þannig að hér liggi skýrt fyrir upplýsingar á þessum sviðum. Fyrir þennan stuðning við till. vil ég þakka og láta koma skýrt fram í þessum umr., þótt hann verði ekki staðfestur fyrr en með handauppréttingum síðar.