25.11.1981
Neðri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

46. mál, land í þjóðareign

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Mér finnst nokkuð hafa borið á því við umr. um þetta frv. hér í hv. deild um land í þjóðareign, að þm. geti ekki á það fallist vegna fyrri frv. Alþfl. Breytingin felst í því, að með þessu frv. er horfið frá þeim atriðum í fyrri frv. Alþfl. sem voru þess eðlis að réttur bænda var skertur. Því er ekki fyrir að fara í þessu frv. Það gerir einungis ráð fyrir að þau landssvæði skuli teljast þjóðareign sem engar eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast fyrir.

Ég vil undirstrika það, sem ég sagði við upphaf umr. þessa máls hér í hv. deild, að 2.–5. gr. þessa frv. skipta ekki máli við upphaf umræðna þessa máls. Það er 1. gr. frv. sem skiptir máli. Ef meiri hluti væri hér á hv. Alþingi með samþykkt hennar efast ég ekki um að við athugun nefndar, milli umr. væri hægt að ná samkomulagi um framkvæmd þessa máls. Mér sýnist að í 2.–5. gr. mætti sumt öðruvísi vera en lagt er til í frv.

Sjálfsagt er að ganga þannig frá framkvæmd laganna að sú framkvæmd sé jafnan í höndum jafngóðrar stofnunar og fjmrn., sem er nú undir stjórn Ragnars Arnalds svo sem hv. 5. þm Vestf. lýsti hér s. l. mánudag, en ekki stofnunar sem líkleg er til að vera jafnléleg og þetta sama rn. var samkv. lýsingu sama þm. þegar þar réð ríkjum hv. þm. Vestfirðinga Sighvatur Björgvinsson. Mætti hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson muna eftir því að segja frá góðri fjármálastjórn Ragnars Arnalds á fundum Framsóknar og við önnur tækifæri.

Önnur andmæli hv. þingmanna gegn þessu frv. hafa verið af svipuðum toga. Þar má nefna til „litlafingursáhættuna“, sem hv. þm. gerðu nokkuð mikið úr. Ekki efast ég um einlægni hv. þm. og að þeir óttist að þegar ásælnum aðila er réttur litli fingurinn sé hætt við að sá aðili ágirnist höndina alla og síðan handlegginn og áfram. Ekki á þetta síst við í sambandi við viðskipti við erlendar stórþjóðir. Mér finnst að þessi líking eigi ekki við í þessu máli, nema síður sé. Með þessu frv. er ekki verið að rétta litla fingur til ásækins aðila. Frekar mætti segja að hér væri verið að gera tilraun til að afstýra því að upp kæmu vandamál þar sem ásælnir aðilar vildu koma litla fingrinum í smugur eignarákvæða ýmissa landssvæða. Því er brýnt að eignir, sem enginn hefur sannanlega átt fram að þessu, verði lýstar sameign þjóðarinnar allrar.

Hér er ekki á neinn hátt verið að taka rétt af bændum og búaliði. Ef sú hugmynd leynist einhvers staðar í þessu frv. tek ég ekki undir hana. Mín skoðun og stefna Alþb. er sú, að bændur haldi eignarrétti á jörðum sínum, beiti rétti í óbyggðum og öðrum þeim hlunnindum í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum. Þessi réttur bænda verður ekki tryggður nema með því að gera verði hrein skil á því hver sé lögformlegur eignaraðili þeirra landssvæða þar sem viðurkenndur nýtingarréttur bænda er til staðar. Meðan svo er má ekki búast við tilraunum ýmissa ásælinna aðila sem rétta sinn litla fingur fram

Hv. 2. þm. Suðurl. nefndi að uppáskrift yfirdómara Eggerts Briems hefði verið á samningum Gnúpverjahrepps um sölu á vatnsréttindum í Þjórsá. Það er vitað að aðrir höfðu annað álit á þessu máli en yfirdómarinn og samþykktu ekki rétt samningsins. Eitthvað þessu líkt gæti komið fyrir enn. Mér finnst að nauðsynlegt sé að forðast slíkt. Að því er stefnt með 1. gr. þessa frv.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. benti á það í umr. um þetta frv., að gras, sem vex á óræktuðu landi, sé ekki reiknað til verðs við verðákvörðun búvöru, og lét í það skina að samþykki þessa frv. gæti orðið til þess, að bændur yrðu að fara að rækta beitiland og það mundi þá þýða hækkun búvöruverðs. Um kostnaðaraukann í þessu tilfelli deila jafnvel bændur. Það heyrir varla undir þessa umr. að skera úr um það. En að samþykki þessa frv. feli í sér breytta aðstöðu bænda til beitar á óræktuðu landi og afréttum er ekki rétt.

Nýting gagna og gæða landsins, hvort sem það er búfjárbeit, nýting hlunninda eða nýting fiskstofna og miða við strendur landsins, verður vonandi aldrei verðlögð, hvorki í formi búvöruverðs né auðlindaskatts. Hitt verður okkur ljósara með hverju ári sem líður, að eftirlit með þessum auðlindum er nauðsynlegt. Takmörkuð sókn í þessar auðlindir og stjórn á þeirri sókn er nú staðreynd gagnvart fiskstofnum og fiskimiðum. Slík stjórn þarf líka að eiga sér stað í sambandi við nýtingu landsgæða. Trúlegt er að framkvæmd og yfirstjórn slíkra aðgerða þyrfti að vera í höndum opinberrar stofnunar í tengslum við bændur. Vafasamt er að smáhagsmunaeiningar gætu komið slíkri stjórnun á.

Eins og ég sagði áðan finnst mé það nokkuð einkennileg afstaða sumra hv. þm., sem fjallað hafa um þetta frv. sem flutt er af öllum hv. þm. Alþfl. hér í hv. Nd., að málið sé í sjálfu sér vont vegna fyrri frv. Alþfl. um svipað efni. Ég tel að frekar beri að fagna því, að þeir Alþfl.-menn hafa nú sniðið ýmsa annmarka af fyrri frv. Það ber að athuga frv., sem þeir hafa nú lagt fram, málefnalega, hvort ekki sé boðið upp á leið í 1. gr. þessa frv. sem samstaða væri líkleg til að nást um hér á hv. Alþingi í þessu mikilsverða máli. Ég vænti þess, að að loknum umr. verði frv. vísað til nefndar, það athugað rækilega og þm. Sjálfstfl. og Framsfl. athugi það þar málefnalega og láti frv. ekki gjalda þess, að það sé flutt af þeim Alþfl.mönnum.