26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

78. mál, viðaukatillaga við vegáætlun

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. lýsir því yfir, að það sé á borði ríkisstj. að taka ákvörðun um till. hans um umgetnar framkvæmdir við Ó-vegina svonefndu. Ég minnist þess, að hæstv. samgrh. gaf um það yfirlýsingu á síðasta þingi, að fjármagn til þess arna yrði útvegað alveg sérstaklega utan við vegáætlun. Er það ekki alveg ljóst — ég tók ekki eftir að það kæmi fram í máli hans nú — en er það ekki alveg ljóst, að því megi treysta að þar verði um sérstaka fjárútvegun að ræða, en ekki gripið til þess fjár sem ætlað er til hinna almennu vegaframkvæmda?