26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

332. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1982

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Alllangt er nú um liðið síðan umr. fór síðast fram um þá skýrslu sem lögð hefur verið fram í Sþ. og ég fylgdi úr hlaði um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun: Í þessari umr., sem mun hafa verið 5. nóv. s. 1., voru bornar fram til mín nokkrar spurningar sem ég skal svara.

Í fyrsta lagi var fyrirspurn frá hv. 3. þm. Norðurl. e. Hann minntist á, að hæstv. viðskrh. hefði lýst yfir að hann og þm. og ráðh. úr Framsfl. hefðu ákveðna fyrirvara í sambandi við frv. til fjárlaga fyrir 1982, og spurðist fyrir um hvort fleiri hefðu slíka fyrirvara í ríkisstj. Ummæli þau, sem hæstv. viðskrh. hafði um þetta, voru þau, að hann vitnaði til þeirra ummæla, sem hafa komið fram hér á Alþingi, að Framsfl. vildi athuga nokkru nánar skattamál atvinnuveganna. Sérstaklega nefni ég þar til skatta eins og launaskatt, aðstöðugjald og e. t. v. fleiri skatta. Svar mitt við fyrirspurn hv. þm. er á þá leið, að ég held að allir ráðh. í ríkisstj. séu sammála um þetta. Þeir hafa áhuga á að athuga nokkru nánar skattamál atvinnuveganna, hvort hægt sé að létta undir með atvinnuvegunum með því að draga úr einhverju af þeim sköttum sem á þeim hvíla. Þessi mál hafa verið mjög til umræðu í ríkisstj. og allir ráðh. hafa áhuga á að kanna þau sem nánast. Hins vegar er á þessu stigi ógerningur að fullyrða um hvort eða á hvern hátt slíkt er mögulegt.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um annað atriði. Í grg. fjárlagafrv: segir að miðað sé við 33% hækkun verðlags og launa milli áranna 1981 og 1982. Komið mun hafa fram frá einum hæstv. ráðh. að þessi forsenda væri hrein reiknitala, en hjá öðrum að lögð væri áhersla að þrýsta verðbólgunni niður til að ná hlutfallslega svipuðum árangri á næsta ári og í ár. Við þessu er því til að svara, að við samningu hvers fjárlagafrv. verður auðvitað að hafa viðmiðunar- eða reiknitölur og þegar fjárlagafrv. er undirbúið, en sá undirbúningur hefst fyrir mitt ár áður en fjárlögin eiga að taka gildi. Þá verður auðvitað að ákvarða — eða a. m. k. áður en frá fjárlagafrv. er gengið í ágúst eða sept. — einhverja viðmiðunartölu varðandi verð- og launahækkanir. Það er mjög sjaldan sem í slíkri reiknitölu felst spá ríkisstj. um að einmitt sú reiknitala muni verða sú sem sýni um leið þróun verðbólgunnar á því ári. Það er eins um það nú og ég held allajafna, að þessi tala, 33%, er reiknitala um hækkun verðlags milli þessara tveggja ára, en felur ekki í sér spá um verðbólguþróun á næsta ári. Það var ekki unnt á þeim tíma að gera slíka verðbólguspá og er í raun ekki unnt enn þá vegna ýmissa óvissuþátta í þeim málum.

Í þriðja lagi gerði hv. þm. að umtalsefni þar sem segir að fyrirhugað sé að leggja sérstakt gjald á raforkusölu eftir stofnlínum alls 40 millj. kr. Hv. þm. spyr mig hvort það sé samstaða um að leggja þetta gjald á og hvernig það mundi verða. Hér er um að ræða fyrst og fremst kostnað vegna stofnlínanna eða byggðalínanna í landinu. Ríkisstj. hefur gert ráð fyrir að gera tillögur til Alþingis um sérstakan tekjustofn til að standa undir þeim kostnaði. Hvernig það gjald verður, hvernig því verður háttað, er ekki hægt að segja á þessari stundu, en þetta mál er í vinnslu hjá ríkisstj.

Þá spurðist hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, fyrir um nokkur atriði. Að vísu var það ýmist að hann bar fram fsp. eða hann sagðist vilja vekja athygli forsrh. á vissum atriðum. Var ég honum þakklátur fyrir þær ábendingar.

Hann spurðist fyrir um hvort gengisbreyting væri fyrirhuguð. Síðan hann spurðist fyrir um það hefur hann fengið svar í framkvæmd með ákvörðun Seðlabanka Íslands og ríkisstj. um breytingu á genginu nokkrum dögum eftir að hann flutti þessa fyrirspurn.

Þá gerði sami hv. þm. að umtalsefni þjóðhagsáætlun og það sem segir í lögum um hvað í henni skuli vera, m. a. að í þjóðhagsáætlun skuli gerð grein fyrir markmiðum ríkisstj. um efnahagsmál og hagþróun. Hann kvartaði yfir því, að hann fyndi hvergi þessi markmið í þ jóðhagsáætlun. Nú er það svo, að í þjóðhagsáætlun er á 2. síðu efnisyfirlit og I. kafli skýrslunnar fjallar einmitt um markmið. Þau eru talin í fimm liðum í efnisyfirlitinu: atvinnuöryggi, frekari hjöðnun verðbólgu, launa- og kjaramál, jafnvægi í viðskiptum við útlönd, vöxtur framleiðslu — bætt lífskjör. Á bls. 3 er svo nánar farið í hvern einstakan lið þessara markmiða og um það fjallar skýrslan á bls. 3, 4, 5 og 6. Getur hv. þm. lesið sér til þar. Í næsta kaflanum þar á eftir er svo nánar farið út í ýmis atriði sem þessu tengjast, þ. e. stefnu og ráðstafanir, og er það á bls. 6–10 í þessari skýrslu.

Eins og ég gat um í upphafi skýrslu minnar um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er minni þörf á því nú en áður að flytja ítarlegar upplýsingar eða hefja umræður um efnahagsmálin vegna þess að nú eru bæði skýrsla um fjárfestingar- og þjóðhagsáætlun og frv. til lánsfjárlaga lögð fram beint í kjölfar fjárlagafrv. og þessi mál koma því til umr. í sambandi við þau frv. bæði, fjárlögin og frv. til lánsfjárlaga, auk þess sem skammt er síðan stefnuræða var flutt og umr. urðu í sambandi við hana. Á undanförnum árum hefur fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hinsvegar ekki verið tilbúin fyrr en alllöngu eftir áramót eða jafnvel á vordögum. Þá var náttúrlega ástæða til að gefa ítarlegri skýrslu um ástand og horfur í efnahagsmálum vegna þess hve þá var langt um liðið frá hinum almennu umr. um fjárlög og stefnuræðu.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi að fara fleiri orðum um þetta mál. Hér er um að ræða skýrslu, sem ekki eru greidd atkv. um eða fer til nefndar, og læt ég þetta því nægja.