26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

332. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1982

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að svara þeim spurningum sem ég beindi til hans á dögunum. Því miður voru sum svörin ekki mjög glögg.

Ég gerði mér grein fyrir að allir hæstv. ráðh. hafa, sjálfsagt af mannkærleika sínum og stjórnvisku, áhuga á að lækka skatta á atvinnuvegunum. Ég spurði hvort einhverjir hefðu haft fyrirvara í ríkisstj. aðrir en ráðh. Framsfl. um þessi tilteknu atriði, hvort einhverjir aðrir hefðu látið bóka fyrirvara. Það var mín spurning. Ég segi aftur: Að sjálfsögðu var mér alveg ljóst þegar ég spurði þessarar spurningar að allir hefðu áhuga á skattalækkun, en á hinn bóginn ekki hvort þeir hefðu haft svo mikinn áhuga að þeir hefðu látið bóka formlegan fyrirvara, eins og mér skildist á hæstv. viðskrh. að ráðh. Framsfl. hefðu gert.

Í sambandi við það að hæstv. ráðh. gat hér um reiknitölu fjárlagafrv. og lánsfjáráætlunar, þá er hún, eins og hann gat um, 33%. Það er gert ráð fyrir 33% verðbreytingu milli ársins í ár og næsta árs. Það mundi þýða 25% verðlagshækkanir frá ársbyrjun til ársloka á næsta ári. Ég get upplýst hv. þm. um það, að fulltrúar frá Vegagerð ríkisins komu til fjvn. í morgun og lýstu áhyggjum sínum yfir þessari verðlagsforsendu. Þeir töldu sig hafa í höndum áætlanir sem sýndu að það væri helst til mikil bjartsýni að gera ráð fyrir þessari verðlagsforsendu. Þá gátu þeir góðu menn þess, að t. d. 40% verðbreyting milli áranna, sem er sama og 30% frá ársbyrjun til ársloka á næsta ári, mundi skerða þeirra framkvæmdafé um, ef ég man rétt, 1–2 milljarða gkr. Það er þess vegna sem ég hef nokkrar áhyggjur af því, að lánsfjáráætlunin sé byggð upp með þessa reiknitölu úr fjárlagafrv. sem verðlagsgrunn. Það er dálítið annað með fjárlögin sjálf vegna þess að veltuskattarnir hækka, tekjur ríkissjóðs hækka ef verðlagsforsendan verður önnur en gengið er út frá þar. Þá hækka tekjur ríkissjóðs móti hækkandi útgjöldum. Í sambandi við framkvæmdaáætlanir, eins og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er, þar sem gengið er út frá fastri krónutölu, a. m. k. að hluta til, þýða óraunsæjar verðlagsforsendur aftur á móti svo og svo stórfelldan sjálfvirkan niðurskurð framkvæmda.

Ég vil þess vegna vekja athygli á því, að að er ekki aðeins sú spurning, hvort hér sé um efnahagsmarkmið ríkisstj. að ræða. Í fyrra setti ríkisstj. fram efnahagsmarkmið og það kom fram í hennar reiknitölu. Nú hefur hæstv. ríkisstj. gefist upp á því, a. m. k. segir hæstv. fjmrh. það, og setur fram ákveðnar reiknitölur. Hæstv. viðskrh. vildi telja að það væri markmið ríkisstj. Er forvitnilegt út af fyrir sig að vita hvor þeirra hefur lög að mæla fyrir hönd hæstv. ríkisstj. En alvarlegast við þetta atriði er það, að þær áætlanir, sem gerðar eru nú og halda fastri krónutölu út næsta ár og eru aðeins miðaðar við 33% verðbreytingu milli ára, munu stórkostlega rýrna að framkvæmdagildi. ef verðbólga fer fram úr 25% frá ársbyrjun til ársloka á næsta ári.