02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. gefur hér í skyn að það sé margfalt fordæmi fyrir því sem verið er að gera með þessum lögum. Það er ekkert fordæmi fyrir því, að Verðjöfnunarsjóður taki lán eins og hér er gert ráð fyrir að heimila honum með lögum. Það hefur engin slík lagaheimild fundist og það er ekkert fordæmi fyrir því. Það er ekkert fordæmi fyrir því heldur að menn séu í sjónhverfingaleik með prósentur sem eigi að taka upp í gengismun af birgðum á mánaðarfresti, einhverjar smáprósentur. Þetta er náttúrlega komið út í algerar öfgar. Auk þess var greininni heitið því, að svona yrði ekki farið að eftir að upp var tekið að afurðalánin væru miðuð við erlenda mynt.

Hæstv. sjútvrh. er þannig að gefa í skyn það sem er alrangt. Auk þess talar hann um að það sé allt í lagi með upptökuna eða með endurgreiðsluna á gengisuppfærslu af endurkeyptum afurða- og rekstrarlánum vegna þess að það sé verið að taka úr Seðlabankanum. Það hefur ekki nokkur maður verið að tala um það. Hér eru lán sem einstakir aðilar hafa tekið. Það er verið að tala um að breyta skilmálunum á þeim lánum. Það eru skilmálar við einstaka aðila. Þetta eru í rauninni samningar milli Seðlabankans og einstakra framleiðenda úti í bæ. Þessum skilmálum er breytt og það sem gerist er að hæstv. sjútvrh. ætlar að taka með krumlu sinni þann mismun sem er á þessum skilmálum. Hann er ekki að taka það af Seðlabankanum. Hann er að taka það af þessum framleiðsluaðilum úti í bæ. En hann gerir meira en að taka það af hinum einstöku framleiðsluaðilum, sem er eignaupptaka af mjög óvenjulegu tagi og sjálfsagt vafasöm með tilliti til stjórnarskrárinnar. Hann ætlar svo að úthluta í Verðjöfnunarsjóðinn eftir allt, allt öðrum reglum en nokkurn tíma áður hefur verið gert, því að hann ætlar ekki einu sinni að láta þessa sömu framleiðendur njóta þessa síðar í heild, heldur ætlar hann að flytja það á milli vinnslugreina. Það hefar aldrei verið gert áður. Svo stendur hæstv. sjútvrh. hér upp og talar um það með hofmóði, að það séu margföld fordæmi fyrir því sem nú er verið að gera. Það eru ekki nein fordæmi fyrir þessu.

Ég held að hæstv. sjútvrh. farist ekki að tala um augnalit í þessu sambandi. Ég minnist þess ekki, að ég eða aðrir þm. hafi gefið yfirlýsingar um það, að við höfum verið plataðir af aðilum úti í bæ ef við höfum glapist til þess að fylgja stefnu eins eða annars. En við viljum horfa á þessi vandamál eins og þau liggja fyrir á hverjum tíma. Og ég segi það afdráttarlaust sem skoðun mína, að hér er farið út á stórvarasama braut. Hér er verið að fleyta hlutum í fáeinar vikur, en brjóta allar meginreglur, sem hafa verið viðhafðar á undanförnum árum, og mola grunninn undan Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins sem hagstjórnartæki, rýra traustið á honum, gera hann meira og minna ónýtan. Þetta eru auðvitað alvarlegir atburðir. Maður getur ekki bara horft á þetta og farið að tala um augnalit. Það er fráleitt.

Það er kannske ekki nema von að illa sé komið að því er varðar loðnudeildina. Þar hefur verið haldið á af einstakri skammsýni. Bæði hefur viðmiðunarverðið verið ákveðið vitlaust á undanförnum misserum þannig að útgreiðslur hafa átt sér stað þegar engin þörf var á þeim, eins og reyndar líka gerðist um saltfiskinn. Síðan, þegar það liggur fyrir að loðnustofninn er í stórhættu, er öllum kvótanum úthlutað í einu vettangi, og nú á að kóróna allt saman með því að greiða niður þessa atvinnugrein til þess væntanlega að drepa seinustu loðnuna. Þetta ber ekki vott um mikla stjórnvisku. Auðvitað hefði átt að halda allt öðruvísi á þessum málum. Það átti að safna fé í sjóðinn þegar svigrúm var til þess. Það átti ekki að úthluta öllum kvótanum í einu lagi. Það átti að fækka skipunum, sem voru í þessum kvóta, þegar sást hvernig horfði, og það sást fyrir langa löngu hvernig horfði með útlitið í þessari grein. Það er ekki bara seinasta verðákvörðun varðandi loðnu sem er gagnrýniverð, heldur líka hin sem er næst á undan. Þá strax var tækifæri til þess að grípa í taumana og gera eðlilegar og skynsamlegar ráðstafanir.

En hitt er auðvitað hárrétt hjá hæstv. sjútvrh., að það er hægt að þylja margar skammtímalausnir frá þessum Framsóknaráratug. Og það sem meira er, það er ekkert hægt að þylja í efnahagsmálum annað en skammtímalausnir, ekkert annað en bráðabirgðalausnir á bráðabirgðalausnir ofan. Menn hrekjast með þessi vandamál úr einu víginu í annað. Úrlausnirnar eru engar. Það er ekki bara að því er varðar sjávarutveginn sem þetta er svona. Þetta á við á öllum sviðum. Var það ekki stórkostlegt bjargræði ríkisstj. 1. nóv. að auka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum til þess að hækka þær enn þá meira 1. des.? Hvers konar stjórnkerfi er þetta eiginlega? Það er það sem er að hjá okkur, hvað listinn á bráðabirgðaráðstöfununum er langur. Og það sem verra er, núna horfum við fram á að lausnirnar séu ekki nema til tveggja mánaða, eins og talað er um núna. Hæstv. ráðherrar neyðast til, eins og hæstv. sjútvrh., að viðurkenna opinskátt varðandi það, sem við erum að gera núna, að við megum þakka fyrir að það endist til áramóta. Það er gegn þessu bráðabirgðaástandi, gegn þessum bráðabirgðalausnum sem þarf að snúa sér. Og það er gegn því, að menn hjakki sífellt í þessu bráðabirgðafari, sem við Alþfl.-menn höfum verið að berjast. En við segjum líka: Meðan menn fara að eins og hér er gert, þá búa þeir til eina bráðabirgðaráðstöfunina enn á grundvelli þeirrar bráðabirgðaráðstöfunar sem þeir eru að gera í dag. En ég er hæstv. sjútvrh. þakklátur fyrir að varpa ljósi á og viðurkenna í hvert efni er komið með þetta bráðabirgðakák.