17.12.1982
Neðri deild: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

55. mál, orlof

Frsm. minni hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Á þskj. 201 er nál. minni hl. félmn. Þann minni hl. skipa ásamt mér hv. þm. Eggert Haukdal og Steinþór Gestsson. Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. félmn., þá komu fjölmargir aðilar á fund n. og gerðu grein fyrir viðhorfum sínum, bæði menn úr röðum atvinnurekenda og launþega. Jafnframt voru lögð fram fjölmörg gögn. Með nál. minni hl. eru birt nokkur fskj., þ. á m. tvö frá Alþýðusambandi Íslands, tvö frá Vinnuveitendasambandi Íslands og loks frá Flugleiðum. En eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. snertir þessi lagabreyting það fyrirtæki umfram mörg önnur vegna þess hve rekstur þess byggist mjög á sumarvinnu.

Ég vil hér í stuttri ræðu rekja nokkuð sjónarmið okkar í minni hl. félmn. en vísa að mestu leyti til nál., en í því koma fram með skýrum hætti viðhorf okkar til þessa máls.

Það eru nokkur atriði sérstaklega sem ég held að nauðsynlegt sé að komi fram í þessari umr. og vil ég nefna nokkur. Í fyrsta lagi er það skoðun okkar sjálfstæðismanna-og ég hélt reyndar miklu fleiri flokka, að stefna ætti sem mest að því að kjarasamningar væru frjálsir á ábyrgð launþega og vinnuveitenda og með sem minnstum afskiptum ríkisvaldsins. Með því frv. sem hér er til 2. umr. er stefnt í þveröfuga átt. Þar tekur ríkisvaldið af skarið. Það eru ekki einungis stjórnmálaflokkar sem hafa lýst því yfir að kjarasamningar skyldu vera frjálsir. Slík sjónarmið hafa oftsinnis komið frá aðilum vinnumarkaðarins, bæði frá vinnuveitendum, t.d. í þessu máli, og jafnframt frá Alþýðusambandi Íslands og öðrum samtökum launafólks. Má t.d. minna á í því sambandi viðhorf þessara samtaka við brbl. sem sett voru í ágústmánuði s.l.

Ein helsta röksemd sem notuð hefur verið í þessu máli er sú, að samið hafi verið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og þess vegna þurfi að flýta þessu máli til þess að launþegar, sem ekki eru í BSRB, fái þennan rétt. Þá er átt við þá launþega, sem ekki fá borgað í sumarleyfum sínum, heldur aðeins eins og nú háttar 8.33% ofan á laun. Það þarf að taka fram í þessu sambandi að samningur hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. við BSRB var gerður eftir að brbl. tóku gildi og efnt var til efnahagsráðstafana í ágústmánuði. Það eru þess vegna ekki rök í þessu máli að segja að það þurfi að færa orlofslögin til samræmis við samninga BSRB. Þvert á móti hefði verið miklu vænlegra, eðlilegra og æskilegra að samningar við BSRB um þetta atriði hefðu verið látnir bíða og félagar þess hefðu fengið aukinn orlofsrétt samkv. þessum lögum eins og gildir um aðra launþega. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að ef fram hefðu komið tillögur um frestun á afgreiðslu þessa frv. eða jafnvel, sem hægt væri að hugsa sér, að fella skyldi frv. vegna efnahagsástandsins, þá hefði orðið að taka þennan rétt af BSRB vegna nýgerðra kjarasamninga við hæstv. ríkisstj.

Í öðru lagi vil ég benda á að frv. þetta er nokkuð fljótfærnislega unnið hjá hæstv. ríkisstj., enda kom það fljótt á daginn í störfum n. að á frv. voru þeir gallar að ekki var hægt að notast við upprunalegan texta. Hefur meiri hl. n. þess vegna þurft að leggja til brtt. sem hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir í ræðu sinni hér áðan. Það er ekkert undarlegt hvernig mál þetta er unnið, þegar rifjað er upp hvernig það mál varð til í meðförum hæstv. ríkisstj. Í sumar, þegar efna skyldi til efnahagsráðstafana, var ekkert minnst á þetta mál fyrr en á allra síðustu dögum þegar hæstv. ríkisstj. reyndi að ná samkomulagi um málið. Og það var haft fyrir satt að einstakir stuðningsmenn ríkisstj. hefðu gert það að skilyrði að þetta mál fengi afgreiðslu ef þeir ættu að styðja brbl. á Alþingi. Umræður urðu um þetta við 1. umr. málsins og ætla ég ekki að endurtaka þær hér.

Í þriðja lagi hefur því verið haldið fram að einn megintilgangurinn með þessu frv. sé sá að jafna rétt launþega í orlofsmálum. Því miður stenst þessi röksemd ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Má í því sambandi benda á brtt. frá meiri hl. n., sem setja skorður við misréttinu, en eftir sem áður stendur það, að þeir sem hæst hafa launin fá mest orlof. Einkum og sér í lagi gildir þetta um þá sem taka orlof í orlofsgreiðslum, en ekki í launagreiðslu í leyfi.

Í fjórða lagi vil ég fyrir hönd minni hl. félmn. rifja það upp að þegar hæstv. ríkisstj. efndi til aðgerða í efnahagsmálum í ágúst s.l., þá lýsti hún því yfir að aðgerðir stjórnarinnar mörkuðust af eftirtöldum fjórum meginatriðum með leyfi hæstv. forseta:

„1. Að draga verulega úr viðskiptahalla þannig að á næstu tveimur árum megi í áföngum ná hallalausum viðskiptum við önnur lönd.

2. Að treysta undirstöður atvinnulífsins með aðgerðum til að auka framleiðni og framleiðslugetu þjóðarbúsins og tryggja þannig öllum landsmönnum næga atvinnu.

3. Að verja lægstu laun eins og unnt er fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í þjóðartekjum.

4. Að veita viðnám gegn verðbólgu.“

Lýkur hér tilvitnun í fjögur meginmarkmið, sem ríkisstj. sagði að höfð hefðu verið að leiðarljósi, þegar efnt var til efnahagsaðgerða á s.l. sumri. Það er þess vegna eðlilegt að spurt sé við þessa umr., vegna þess að hér er á ferðinni frv. sem kallað hefur verið fylgifrv. með brbl. og á fulla samleið með þeim, á þessa leið:

1. Er þetta frv., ef að lögum verður, til þess fallið að auka framleiðni og framleiðslugetu þjóðarinnar?

2. Ver þetta frv. lægstu laun?

3. Dregur þetta frv. úr viðskiptahalla?

4. Er með þessu frv., ef að lögum verður, verið að veita viðnám gegn verðbólgu?

Því miður verður að svara öllum þessum spurningum neitandi. Með samþykkt þessa frv. er nokkuð ljóst, og styðst ég þar við umsögn Þjóðhagsstofnunar, að dregið verður úr framleiðslu á næsta ári. Í öðru lagi má búast við, af sömu ástæðu, að þjóðartekjur dragist saman. Í þriðja lagi er það staðfest að verðbólga eykst og í fjórða lagi er ljóst að lægstu laun verða ekki varin með þessum hætti, annars vegar vegna þess að þeir sem hærri laun hafa fá lengra orlof og hins vegar vegna þess að lægstu laun verða verr úti í aukinni verðbólgu, sem er óhjákvæmileg afleiðing samþykktar þessa frv.

Í fimmta lagi, herra forseti, viljum við í minni hl. félmn. benda á að betra hefði verið að láta launþega sjálfa velja um það, hvort þeir vildu fá kjarabót með því að draga úr kjaraskerðingunni samkv. efnahagsaðgerðunum í sumar, brbl., eða hvort þeir vildu heldur fá í staðinn lengra orlof. Þá hefði verið hægt að fresta um sinn þeim lagabreytingum sem hér er verið að ræða, en draga úr kjaraskerðingunni í staðinn. Þetta hefði að sjálfsögðu verið haft að leiðarljósi ef menn hefðu viljað fylgja stefnunni um frjálsa kjarasamninga.

Ég bendi jafnframt á það, að í sumar voru gerðir kjarasamningar við ýmis starfsmannafélög og verkalýðsfélög, þ. á m. við verkakvennafélagið Sókn, og í þeim kjarasamningum gerðist það, að forustumenn Sóknar kusu að fá lengra orlof, en það gerðist auðvitað á kostnað kjarabóta. Þannig má halda því fram með fullum rökum, að með þessum lögum sé verið að gera hlut Sóknarkvenna lakari en annarra launþega. Loks vil ég undir þessum fimmta lið gagnrýni okkar í minni hl. benda á að hafa verður í huga, þegar rætt er um þetta mál og brbl., að á þessu ári hafa laun verið skert um samtals 17%. Þá tel ég saman þær skerðingar sem hafa orðið af völdum Ólafslaga annars vegar og brbl. hins vegar. Þetta er staðreynd sem við verðum að líta á þegar um þetta mál er fjallað. Þá er verið að bæta þessari kjaraskerðingu — eða launaskerðingu öllu fremur — ofan á þá launaskerðingu sem orðið hefur á undanförnum árum á valdatíma núv. hæstv. ríkisstj., sem byggir m.a. á þeim merkilega grunni sem Alþb. var kjörið til, en það var að kjósa gegn kaupránsflokkunum og koma samningum í gildi. Þetta hefur orðið þeirra starf í þau fjögur ár sem Alþb. hefur setið á valdastólum.

Í sjötta lagi, herra forseti, hefur verið bent á það, að tafir hafa orðið á afgreiðslu málsins, og þannig hefur orðið misvægi á milli þeirra launþega sem fá orlof greitt með launum og hinna, sem taka út orlof með launuðu fríi. Þetta er að sjálfsögðu ein veigamesta röksemd fyrir því að afgreiða beri málið, ef nægur meiri hl. fæst á Alþingi, sem allra fyrst. En ég vil undirstrika það sérstaklega í þessu máli, að það er rangt sem kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. n., að þessar tafir hafi orðið vegna ágreinings í nefndinni um einstök atriði frv. Tafirnar hafa vitaskuld orðið vegna þess að innan hæstv. ríkisstj. hefur verið ágreiningur um brbl. og sérstaklega fylgifrv., þó einkum og sér í lagi það frv. sem kallað hefur verið vísitölufrv. eða viðmiðunarfrv. Það var þess vegna fyrirstaða í nefndinni af eðlilegum ástæðum, að þetta mál fengi afgreiðslu fyrr en ljóst væri að allir aðilar stjórnarsamstarfsins hefðu sætt sig við sameiginlega niðurstöðu í vísitölumálinu.

Með því að afgreiða þetta mál nú fyrir jól má gera ráð fyrir að hæstv. ríkisstj. hafi náð niðurstöðu í viðmiðunarmálinu og mér finnst vel við hæfi, ef fresta á Alþingi á morgun, að einhver fulltrúi hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir því hér á Alþingi í hverju þessar niðurstöður felast. Í hverju felst það samkomulag sem virðist hafa verið gert í ríkisstj. um vísitölugrundvöllinn og viðmiðunarreglurnar? Þetta er sagt hér vegna þess að það mál snertir launþega ekki síður en það frv. sem hér er til umr. Það væri gott, herra forseti, ef einhver hæstv. ráðh. fengi tækifæri til að hlusta á þessa spurningu, því að hún er verulegt framlag til þessa máls, enda hefur afgreiðsla málsins tafist fyrst og fremst vegna vísitölumálsins.

Í sjöunda lagi vil ég nefna mál, sem kannske er minni háttar mál, en snertir einkum sjómenn og hlutaskipti. Þess ber að geta, að með þessu frv. breytast hlutaskiptareglur þannig að vandi útgerðarinnar eykst. Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á nú, þegar sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir þeim gífurlegu vandamálum sem lýst hefur verið rækilega að undanförnu, og þegar fyrir dyrum stendur að efna skuli til aðgerða til að rétta rekstrargrundvöll útgerðarinnar í landinu.

Einnig má geta þess, að það gerist að sjálfsögðu í sjómannastétt eins og annars staðar, þar sem greitt er út orlof, að þeir sem hæst hafa launin, fleiri hafa hlutina, fá lengra orlof eða hærri orlofsgreiðslu. Þetta tek ég ekki fram hér vegna þess að ég sé á móti því að sjómenn fái lágmarksorlof, 10.17% eins og aðrir launþegar, en lög nr. 87 frá 1971 eru um lágmarksorlof, og það er rétt að fram komi jafnframt að það er ávöxtur af samstarfi vinnuveitenda og launþega sem var sett í lög, þessi orlofslög. Slíkt samstarf eða samráð, sem haft var við þessa aðila á sínum tíma, þegar lögin voru sett, var til fyrirmyndar. En því miður virðist hæstv. ríkisstj. ætla að kasta slíku samstarfi fyrir róða.

Loks, herra forseti, vil ég taka undir það sem sagt hefur verið í þessu máli, að það er ekki ástæða til að fresta afgreiðslu málsins lengur, enda hefur mikill meiri hluti launþega þegar fengið þær réttarbætur eða kjarabætur, ef menn vilja nefna það því nafni, sem felast í þessum lögum. Það er þess vegna engin ástæða til að þetta mál sé tafið og — ef meiri hl. er fyrir hendi — þeir sem um er að ræða fái sína kjarabót. En það er athygli vert að þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstj. um að draga úr viðskiptahalla, auka framleiðni og framleiðslugetu, að verja lægstu laun og að veita viðnám gegn verðbólgu, þá er þetta frv. til þess fallið að hafa áhrif í gagnstæðar áttir, og mun það vera einsdæmi að ráðist sé gegn efnahagsvanda þjóðar, sem lýsir sér í of lítilli framleiðstu, með því að lengja frí launþega.

Ég tek það jafnframt fram, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn Íslands leitaði ekki samráðs hjá stjórnarandstöðunni við gerð þessa frv. enda þótt mjög skýrlega væri tekið fram af hv. fyrrv. stuðningsmönnum ríkisstj., þeim hv. þm. Albert Guðmundssyni og hv. þm. Eggert Haukdal, að þeir styddu ekki ríkisstj. lengur. Það hlýtur að teljast í meira lagi hæpið, ef þannig stendur á, að hæstv. ríkisstj. reyni ekki að leysa samstarf við stjórnarandstöðuna til þess að fá fram nauðsynleg mál í þinginu.

Herra forseti. Við í minni hl. félmn. munum ekki skila nál. í 56. máli þingsins, sem fjallar um frídag verslunarmanna. Það mál er náskylt þessu og hangir við það og er óþarfi að skila sérstöku nál. Ég vil einungis benda á það, að þrátt fyrir þær réttarbætur sem felast í því frv. fyrir hönd launþega verða sjómenn eftir sem áður að sækja þann rétt í samningum við útgerðarmenn, því að það lagafrv. nær væntanlega ekki til sjómanna.

Ég vil að lokum lýsa því yfir, herra forseti, að þm. Sjálfstfl. í hv. Nd. munu sitja hjá við afgreiðslu málsins, enda hlýtur ábyrgð á framgangi þessa máls að vera fyrst og fremst hjá hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar.