17.12.1982
Neðri deild: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

103. mál, meðferð opinberra mála

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það verður að viðurkennast að á meðferð þessa máls hefur verið nokkur fljótaskrift. Menn hafa ekki kafað mjög mikið ofan í það. En við höfum þá afsökun að málið er ekki flókið.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson virðist miða hækkanir við það að nú á þessari stundu þegar upphæðunum er breytt verði greiddar sektir sem samsvara þyngd þeirra fyrir 21/2 ári. Hafi menn verið sektaðir nýlega vegna þessara brota greiða þeir einungis þriðjunginn samkv. upplýsingum hv. þm. Ólafs Þórðarsonar af því sem gert var í maí 1980. Ef við setjum það á núll, sem sekt er núna, að nú sé greidd jafnþung sekt eins og fyrir 21/2 ári, þá sjáum við að ef verðbólgan stöðvast ekki skyndilega núna á þessum vikum þá rýrna þessar sektir stöðugt með hverjum mánuði sem líður, því að ekki hefur dregið verulega úr verðbólgu þrátt fyrir góðan ásetning. Ég á ekki von á því að verðbólga gangi niður, a.m.k. falli ekki mjög hratt, og má hver lá mér sem vill. En ef við hugsum okkur að á síðustu 21/2 ári hafi krónutala átt að hækka þrefalt og við gerum ekki svartsýnni spár en svo, að svipuð þróun haldi áfram næstu 21/2 ár að meðaltali, þá ættu sektirnar að nífaldast ef við miðum við lok hvers tímabils, ef það tekur 21/2 ár að leiðrétta þetta á nýjan leik. Ég sé svo sem engum ofsjónum yfir því, þó að sektir fyrir brot í umferðarlagamálum þyngist nokkuð, því að það er hreint ófremdarástand í umferðarmálum á Íslandi. Við horfumst í augu við það að tugir manna láta lífið í umferðinni árlega og hundruð manna slasast alvarlega. Það er ákaflega þungur baggi fyrir þjóðfélagið.

Herra forseti. Ég fer nú senn að ljúka máli mínu. Ég sé ekkert athugavert við það þó að Bandalag jafnaðarmanna láti skoðanir sínar í ljós á sama tíma og ég. Það er ekki svo breitt bil þar á milli. Þrátt fyrir það að þessar upphæðir séu nokkru hærri en reikna má eftir formúlu hv. þm. Ólafs Þórðarsonar mun ég standa við það sem ég hef skrifað undir.