18.12.1982
Efri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

55. mál, orlof

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. félmn. styður Alþfl. þá lengingu á orlofi sem gert er nú ráð fyrir. Reyndar hefur Alþfl., við þm. hans hér í Ed., verið með tillögu um þessa lengingu undanfarin þrjú þing og sú till. hefur aldrei fengist afgreidd — ekki orðið útrædd.

Frv. ríkisstj. um þessi mál er nákvæmlega eins og eldra frv. okkar var, og vissulega er það gott að þeir skuli sjá að sér og taka þetta mál upp, en fyrr hefði það mátt vera og í öðru samhengi. Nú er verið að skerða launin hjá launþegum allverulega og á þetta að vera eins konar sárabót á það, en eðlilegra hefði verið að Alþingi hefði haft frumkvæði að því að lengja orlof launþega.

Ákvörðun um orlof launþega hefur yfirleitt verið tekin á Alþingi — reyndar oft eftir mikinn þrýsting launþegasamtakanna. Þegar við skoðum söguna sjáum við að Sjálfstfl. hefur alltaf verið á móti því að launþegar fengju lengt orlof — alveg frá upphafi verið á móti því að þeir lægst launuðu nytu þess að hafa frí eins og aðrir. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna að allir launþegar eigi að hafa sama orlofsrétt og ríkið treystir sér til að semja um við sína starfsmenn, annað sé ekki sæmandi, annað sé ekki eðlilegt. Því höfum við lagt fram brtt. við frv. ríkisstj.brtt. sem kveður á um mun meiri rétt til handa launþegum, brtt. sem er mótuð eftir því sem ríkið sjálft hefur samið við sína launþega um og er það afar nöturlegt, komi það upp að þessi till. verði ekki samþykkt, vegna þess að þá verða hinir almennu launþegar í Verkamannasambandinu, í Alþýðusambandinu með mun minna orlof en aðrir. Því höfum við flutt brtt. sem er svohljóðandi:

„Við 1. gr. Á eftir 1. mgr. komi ný mgr. er orðist svo: Starfsmaður, sem hefur unnið samfleytt í 10 ár hjá sama atvinnurekanda eða náð 40 ára aldri frá því orlofsári sem gjaldfallið er, skal auk lágmarksorlofs samkv. 1. mgr. þessarar greinar fá þrjá daga í orlof, og sá, sem unnið hefur hjá sama atvinnurekanda í 18 ár eða náð 50 ára aldri, skal enn fá þrjá daga til viðbótar.“

Og við 3. gr. er þessi breyting:

„1. mgr. 7. gr. laganna orðist þannig:

Atvinnurekandi skal greiða í orlofsfé 10.17% af launum vegna þeirra sem rétt eiga á lágmarksorlofi. Við 10 ára starf eða 40 ára aldur hækkar orlofsfé í 11.59% og við 18 ára starf eða 50 ára aldur hækkar orlofsfé í 13.40%.“

Það er von okkar Alþfl.-manna að menn hér í deild samþykki þessa breytingu. Annað væri köld kveðja til launþega. Annað væri til að undirstrika þann hrikalega mismun sem í dag er á orlofsrétti launþega.