18.12.1982
Sameinað þing: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

157. mál, frestun á fundum Alþingis

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Vegna fram kominnar till. um frestun á fundum Alþingis til 17. jan. n.k. og orða hæstv. forsrh. er rétt að fram komi afstaða þingflokks sjálfstæðismanna.

Sjaldan hefur ríkt meiri óvissa en nú um hvernig ráðið verði fram úr þeim vandamálum sem við blasa í efnahagsmálum þjóðarinnar. Um orsakir þess vanda ætla ég ekki að ræða nú. Þrátt fyrir viss ytri áföll er öllum ljóst að aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstj. valda því fyrst og fremst að hér er allt atvinnulíf að komast í strand.

Ekkert það hefur verið aðhafst af hálfu ríkisstj. sem duga mætti til þess áð komast hjá ákveðnum ráðstöfunum nú á síðustu stundu. Sú staðreynd hefur legið ljós fyrir síðan í ágústmánuði s.l. að ríkisstj. hefði ekki starfhæfan meiri hluta á Alþingi. Samt hefur ríkisstj. látið sem ekkert sé og talið sig geta farið sínu fram án minnsta samráðs við stjórnarandstöðuna. Þar hefur verið skákað í því skjólinu að stjórnin hefði meiri hluta í Sþ., 31 atkv. Því væri ekki hægt að tefla hana, sem er að sjálfsögðu rétt. Engu skipti hins vegar hvort unnt yrði að koma málum í gegnum Nd. Keppikeflið hefur því verið að sitja áfram og það raunar miklu lengur en sætt er.

Það má raunar segja að með vissum hætti hafi þetta ekki komið að sök, þar sem stjórnin hefur ekki haft nein sérstök mál til þess að berjast fyrir, enda sjálfsagt engin samstaða í stjórnarliðinu um málatilbúnað. Það sem að hennar mati var hvað nauðsynlegast, kjaraskerðing og skattahækkanir, var sett í brbl. sem ekki hafa enn fengið afgreiðslu, enda ekki lögð fyrir þingið fyrr en mánuði eftir að það kom saman.

Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur ekki þá reynslu af þessari ríkisstj., og síst það því er tekur til útgáfu hennar á brbl., að hann vilji treysta henni fyrir því valdi sem felst í þingfrestun fram í miðjan janúar. Því er það, að við sjálfstæðismenn munum greiða atkvæði gegn þessari till. Við þessar aðstæður í þjóðfélaginu og hér á Alþingi er það skoðun okkar að þing ætti að koma saman þegar eftir áramót eða þann 3. jan. n.k. Með hliðsjón af því væri óþarft að flytja frestunartillögu sem þessa.

Yfirlýsing hæstv. forsrh. hér áðan um samráð við stjórnarandstöðuna og um að brbl. verði ekki gefin út nema til lausnar á tilteknum vanda og þá því aðeins að brýna nauðsyn bæri til er út af fyrir sig hin athyglisverðasta. Ég ætla að þetta sé í fyrsta sinn sem slík yfirlýsing er gefin á Alþingi. Hún felur í sér síðbúna yfirlýsingu um gjaldþrot þessarar ríkisstj. og viðurkenningu á því sem við höfum haldið fram. Það er einnig athyglisvert að hæstv. forsrh. skuli lýsa því yfir, að ef brbl. verða sett verði þau lögð fyrir þingið þegar í stað þegar það kemur saman að nýju. Þessi yfirlýsing er góðra gjalda verð, en hún vekur upp spurningar um hver það er sem krefur hæstv. forsrh. um að lýsa þessu yfir. Skyldi einhver stuðningsmanna stjórnarinnar vera búinn að fá nóg af því sem áður hefur gerst í hliðstæðum málum?

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég ítreka, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. forsrh., að við sjálfstæðismenn munum greiða atkvæði á móti þessari frestunartillögu.