27.10.1982
Efri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

38. mál, orlof

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Fyrir liggur frv. til l. um breytingu á lögum um orlof, nr. 87 frá 24. des. 1971. Ég hef mælt fyrir svona frv. áður og tel því ástæðulaust að fara mörgum orðum um það. Frv. er þó að nokkru breytt frá því í fyrra þar sem við flm. höfum ákveðið að fara fram á það að verkafólk fái sams konar orlof og gerist meðal opinberra starfsmanna. Því hefur orðið viðbót í tillögu okkar er hljóðar svo:

„Starfsmaður, sem unnið hefur samfleytt í 10 ár hjá sama atvinnurekanda eða náð hefur 40 ára aldri á því orlofsári sem gjaldfallið er, skal auk lágmarksorlofs samkv. 1. gr. þessarar gr. fá þrjá daga í orlof, og sá, sem unnið hefur hjá sama atvinnurekanda í 18 ár eða náð 50 ára aldri, skal enn fá þrjá daga til viðbótar.“

Í 2. gr. segir í framhaldi af þessu: „Atvinnurekandi skal greiða í orlofsfé 10.17 % af launum vegna þeirra sem rétt eiga á lágmarksorlofi. Við 10 ára starf eða 40 ára aldur hækkar orlofsfé í 11.59% og við 18 ára starf eða 50 ára aldur hækkar orlofsfé í 13.40%“. Þetta er viðbót frá því sem verið hefur undanfarin þing, en till. okkar um lengingu orlofs hefur ekki náð fram að ganga. Það hefur verið andstaða gegn því, málið hefur verið svæft og við höfum ekki náð því fram.

Ástæða fyrir þessum tillöguflutningi er sú; að verkafólk hefur verið mjög óánægt með það að njóta ekki sömu orlofskjara eins og gengur og gerist annars staðar. Fólki er fortalið að það hafi 24 daga í orlof, en þá hafa laugardagar verið taldir með. En menn vinna ekki laugardagana og hafa þess vegna hvort sem er frí á laugardögum og því hafa menn talið út í hött og úrelt reyndar að telja þá sem orlofsdaga. Þetta óréttlæti höfum við viljað afnema. Nú hefur okkur bæst greinilegur liðsauki, þar sem í loforðalista ríkisstj. kemur fram að hún hyggist beita sér fyrir þessu, að vísu nokkru dýrara en okkar frv. gerir ráð fyrir nú. Ég sá rétt áðan að verið var að dreifa frv. til l. um sama efni og fyrri hluti okkar till. gerir ráð fyrir, og maður skyldi þá vona að samstaða verði innan ríkisstj. um þá hluti. Það er ekki sýnt hvort svo er, en mig langar til að víkja þeirri spurningu að þeim sem geta svarað hvort samstaða er um þessa hluti í ríkisstj. Auðvitað erum við flm. mjög kátir yfir því að gengið hafi verið til liðs við okkar skoðanir í ríkisstj., þótt ekki hafi það verið gert fyllilega, því að við teljum alveg rökrétt að verkafólk fái sama orlofsrétt og opinberir starfsmenn, alls ekki minni en þeir hafa. Ætti að vera auðvelt fyrir alþm. að samþykkja að þeir sem hafa unnið lengi hjá sama atvinnurekanda fái nokkra umbun með lengingu orlofs. Það er það sama og fulltrúar ríkisvaldsins hafa samið við starfsmenn sína um.

Ég minni á að því lengra sem líður á þing og því lengur sem dregst að afgreiða þessi mál, því minna verður orlofið á næsta ári. Fyrir hvern mánuð, sem þetta dregst, minnkar orlofið um 1/12 og því verður að flýta afgreiðslu þessara mála. Við leggjum að sjálfsögðu mikla áherslu á að frv. okkar verði samþykkt því að það gefur launþegum mun meiri rétt en tilgreint er í frv. ríkisstj. Hún hefur að vísu gengið nú til liðs við okkur, fallist á okkar skoðanir og verkalýðshreyfingarinnar og fari svo áfram, þá þarf ekki lengur að bíða en til næsta vetrar að þeir stjórnarliðar telji sig geta samþykkt 2. gr. okkar frv., sem er launþegum miklu meira virði en það sem þeir eru nú að bera fram.

Ég vil að það komi fram að fjölmörg verkalýðsfélög hafa sent til mín sem flm. og til félmn. áskorun um að samþykkja það frv. sem við hófum verið að berjast fyrir, og Alþýðusambandið samþykki á þingi sínu hinu síðasta einróma að mæla með samþykkt till. okkar um lengingu orlofs. Ég er fullviss um að umræðan innan verkalýðsfélaganna og áskoranir verkalýðsfélaga á Alþingi og aðra hefur orðið til þess að þetta mál var tekið upp í loforðalista ríkisstj. En ég legg enn áherslu á að sú till. sem við erum hér að flytja gengur lengra, færir launþegum í raun meiri rétt, færir fólki jafnrétti á við opinbera starfsmenn.