19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

Um þingsköp

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég er satt að segja alveg yfir mig hissa á því að þegar það gerist í þessari þingskapaumr. að lagðar eru spurningar fyrir hæstv. ráðh., sem hafa verið á allra vörum að undanförnu, sumar hverjar í marga mánuði, aðrar í styttri tíma, þá skuli ekki vera gerð ein einasta tilraun af þeirra hálfu til þess að koma hér upp og svara eðlilegum og ég held frekjulausum spurningum sem snerta hag allra landsmanna. Nú má vel vera að það hafi verið spurt út í hött. Það getur vel verið að það sé sjónarmið hæstv. ríkisstj. að það sé spurt út í hött þegar hennar eigin orð eru tekin. Það er spurt út frá eigin orðum hæstv. ráðh. þar sem þeir sjálfir hafa sett sér ákveðin markmið, t.d. um það hvernig þeir vilja afgreiða ákveðin mál, þ. á m. það mál sem hér er til umr. eða á að vera til umr., brbl. Þegar spurt er hvernig á því standi að ekkert heyrist um viðmiðunarreglurnar þá er dauðaþögn, reyndar æpandi þögn, því að það er orðið æðilangt síðan það kom skýrt og skorinort fram, t.d. hjá hv. framsóknarmönnum, að þeir töldu ekki hægt að afgreiða brbl. nema fyrir lægi samkomulag í ríkisstj. um viðmiðunarregluna. Ég fór um þetta nokkrum orðum í fyrri ræðu minni hér um þingsköp, einfaldlega vegna þess að ég tel óverjandi að umr. fari fram um brbl. hér í hv. Nd. nema það sé komið í ljós hvort um breytta afstöðu hæstv. ríkisstj. sé að ræða.

Í öðru lagi var frá því skýrt og hefur komið margoft fram í þessum umr.hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er ekki viðstaddur, en það er fjölmargt sem við hann þarf að tala við 1. umr. málsins vegna framkvæmdar svokallaðra láglaunabóta. Og það er engin ástæða til þess að koma í veg fyrir það að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson geti komið á framfæri sínum sjónarmiðum, jafnvel þótt óþægileg séu fyrir hæstv. ríkisstj. En það er greinilega það sem á að gera með því að fallast ekki á að fresta umr. um einn þingdag.

Í þriðja lagi hefur það komið fram að hæstv. sjútvrh. hefur lagt til í sjónvarpi, kannske víðar en ekki á hv. Alþingi, að breyta skuli brbl. Hann kom hingað í ræðustól og ég hélt satt að segja að hann ætlaði að svara fsp. um það hvort slík till. yrði lögð fram nú þegar. En ekkert svar kom, bara tilmæli um það að umr. fari fram í dag. Það er ljóst að hér hefur verið gerður samningur sem ekki heldur. Ég vil þess vegna taka undir með hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni þegar hann sagði: Það hlýtur auðvitað að þurfa að endurskoða afstöðuna til samstarfs formanna þingflokkanna, sem hefur verið með ágætum í vetur og leyst mörg mál, sem hljóta að koma upp í störfum hv. Alþingis þegar ríkisstj. missir starfhæfan meiri hl., þrátefli skapast og ekki er hægt að koma málum fram nema hæstv. ríkisstj. leiti til stjórnarandstöðu um afgreiðslu mála. Þetta höfum við virt í stjórnarandstöðunni, þetta höfum við skilið. Við höfum gert samninga og átt samstarf við hæstv. ríkisstj. og þá tvo stjórnmálaflokka sem að henni standa. En nú allt í einu er þessu breytt af einhverjum einkennilegum ástæðum. Eftir að við féllumst á það í gær að umr. færu fram, bæði 2. og 3. umr., samdægurs, en til þess þarf afbrigði í Ed., þá á að knýja fram 1. umr. í hv. Nd. Og því er bætt við að annarlegar ástæður hljóti að liggja að baki þegar frestunarbeiðni kemur fram af okkar hálfu.

Það er ljóst, og kom reyndar fram í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, að það eru full rök fyrir því að fresta 1. umr. málsins. Málið horfði auðvitað allt, allt öðruvísi við ef hér væri um brýnt lagafrv. að tefla, ef um það væri að ræða að búið væri að leggja fram af einhverri brýnni ástæðu lagafrv. sem yrði að taka gildi sem allra fyrst. En því er ekki fyrir að fara. Hér er aðeins um staðfestingarfrv. að ræða á brbl. sem eru í fullu gildi. Hæstv. ríkisstj. hefur þess vegna enga efnislega hagsmuni af því að fá þetta mál rætt einmitt í dag. Lögin tóku nefnilega gildi í ágúst s.l. og hafi einhvern tíma átt að gagnrýna hvernig að þessum málum var staðið var það þá, að Alþingi skyldi ekki vera þegar kallað saman þegar ljóst var að hæstv. ríkisstj. hafði ekki lengur starfhæfan meiri hl. en þvingaði lögin fram utan þings. Og nú, hér um bil hálfu ári seinna, þegar beðið er um eins dags frest vegna þess að það vantar þm., það er ekki hægt að halda nefndarfundi, þá kemur í ljós að það skortir vilja til samstarfs hjá hæstv. ríkisstj.

Vilji er allt sem þarf, sagði Einar Benediktsson forðum og fleiri ágætir menn hafa tekið sér þau orð í munn. Ég veit að í þessu máli skortir aðeins viljann. Væri hann fyrir hendi, samstarfsviljinn, þá væri þetta mál auðleysanlegt. Þá færi ekki þessi umr. fram í dag heldur n.k. mánudag. Það mun verða staðið við þau ummæli, sem hér féllu af hálfu formanns þingflokks sjálfstæðismanna, að auðvitað verður þetta mál ekki tafið. Það þarf eingöngu eðlilega afgreiðslu og það þarf að ræða þegar þeir menn eru viðstaddir sem við viljum ræða við um þetta mál. Það er ekkert sem tefst, það eru engir efnislegir hagsmunir í hættu, vegna þess einfaldlega að hér er ekki um lagafrv. að tefla, heldur lög sem eru búin að vera í gildi hér um bil í hálft ár. Þetta skulum við hafa í huga, herra forseti.

Hitt er svo annað mál og snertir sjálfsagt fremur efnisumr. þessa máls, að þegar hæstv. ríkisstj. setti þessi lög í sumar var það gert til þess að ná fjórum markmiðum, þ.e. draga verulega úr viðskiptahallanum, í öðru tagi að treysta undirstöður atvinnulífsins, í þriðja lagi að verja lægstu laun og í fjórða lagi að veita viðnám gegn verðbólgu. Þegar þessi fjögur markmið eru rifjuð upp, þá er von að vakni spurningin hvort þeim hafi verið náð, því að nú hafa þessi lög verið í gildi um langan tíma. Að sjálfsögðu hefur það ekki gerst, vegna þess að ennþá er stærsta efnahagsvandamál þjóðarinnar óleyst, en það er auðvitað vegna þrásetu þessarar hæstv. ríkisstj., sem situr gagnslaus í landinu, hefur ekki starfhæfan meiri hl. á Alþingi, kemur ekki málum fram nema með aðstoð stjórnarandstöðunnar, en þráast samt við, þannig að ekki fást skýrar yfirlýsingar um það hvenær kosningar fari fram og skýrari línur fáist í íslensk stjórnmál. Ef þessu heldur áfram, þá er von að það sígi dálítið í virðingu Alþingis, en það var eitt sinn sagt að til þessarar hæstv. ríkisstj. hefði verið stofnað til þess að bjarga virðingu þeirrar ágætu stofnunar.