24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Brbl. þau sem nú er óskað eftir staðfestingu á bera einkenni tveggja höfuðþátta: annars vegar kaupskerðingar og hins vegar aukinna skattaálaga. Í raun má segja að ferill núv. ríkisstj. sé varðaður þessum tveim höfuðþáttum, kaupskerðingum og skattahækkunum.

Það hafa gengið út frá ríkisstj. eins og kunnugt er fjórar efnahagsyfirlýsingar. Sú fyrsta þeirra var stefnuskrá ríkisstj. þegar hún var mynduð. Önnur var áramótaboðskapurinn 1980–1981. Sú þriðja er ársgömul og birtist sem yfirlýsing í janúarmánuði á síðasta ári og sú fjórða er efnahagsyfirlýsing sem fylgdi þeim brbl. sem við hér ræðum og út voru gefin í ágústmánuði s.l.

Í raun og veru eru þessar efnahagsyfirlýsingar lítils virði, í flestum tilvikum orðin tóm og sýndarmennskan einber. Því til staðfestingar má vitna til hæstv. sjútvrh., síðasta ræðumanns, sem hefur haldið því fram að í raun og veru hafi núv. ríkisstj. ekki staðið að nema tveim atvöru efnahagsaðgerðum. Þá á hæstv. sjútvrh. við 7% verðbótaskerðingu 1. mars 1981 og 7.7% verðbótaskerðingu 1. des. s.l.

Ferill ríkisstj. varðandi kaupskerðingar er auðvitað alger andstæða þeirra kosningaloforða, sem Alþb. gaf í kosningunum 1978 og voru reyndar þegar í stað svikin við myndun ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1. sept. 1978, en í raun og veru haldið áfram að svíkja, vegna þess að aldrei fyrr hygg ég svo oft hafi verið gengið á gerða samninga vinnuveitenda og launþega. Frá því að Alþb. tók þátt í ríkisstj. 1. sept. 1978 og til þessa dags telst mönnum til að kaup hafi verið skert a.m.k. 13 sinnum, um allt að 50% samtals, á sama tíma og grunnkaupshækkanir hafa numið innan við 30%.

Nú hefur því verið haldið fram í tengslum við þessi brbl. að þau væru sama eðlis og þær efnahagsráðstafanir sem ríkisstj. sú er ég veitti forstöðu stóð fyrir í febr. vorið 1978. Það er fjarri sanni. Í fyrsta lagi var þar þannig að verki staðið, að um samræmdar efnahagsaðgerðir var að ræða og skiptir það höfuðmáli. En auk þess var ólíku saman að jafna. Þá hafði grunnkaup verið hækkað í samningum um 28% í einum áfanga og stóð til að hækka grunnkaup á tiltölulega skömmum tíma um 40–50%. Þegar í ljós kom að í óefni var stefnt með slíkar hækkanir grunnkaups gripu stjórnvöld inn í málin og settu lögin í febr. 1978. En stjórnvöld gengu þá beint framan að bæði þingi og þjóð en fóru ekki á bak við bæði þing og þjóð eins og núv. hæstv. ríkisstj. gerir. Þá var frv. borið fram hér á Alþingi. Þá var það rætt í báðum deildum málefnalega og þannig á málum haldið, að allir þm. gátu gert sér grein fyrir innihaldi laganna. Nú aftur á móti hefur tækifærið verið notað þegar þing sat ekki á rökstólum, þótt að flestu leyti hafi engin þörf knúið ríkisstj. til þess, þar sem aðeins hluti laganna tók gildi áður en þing kom saman í haust og sú kaupskerðing, sem um er að ræða, átti ekki að taka gildi fyrr en 1. des. s.l.

Þá var það svo, að verðbótaauki var í gildi til viðbótar venjulegum verðbótum á laun. Verðbótaauki til þess að bæta launþegum upp þá töf sem varð á því að þeir fengju hækkuð laun eftir að verðhækkanir áttu sér stað. Nú hefur hins vegar þróunin leitt í ljós að þrátt fyrir mótmæli launþegasamtakanna 1978, ólöglegar aðgerðir og skemmdarverk; þá hafa launþegasamtökin núna sætt sig við það að verðbótaaukinn er niður felldur, sætt sig við það að samkv. svokölluðum Ólafslögum hafa gengið í gildi ákveðin skerðingaráhrif og samkv. stjórnaraðgerðum hafa beinar verðbótaskerðingar átt sér stað.

Auðvitað eru til þeir menn, sem segja sem svo, að það sé gott að launþegasamtökin sjái ljós — og í þeim orðum sögðum gengur Guðmundur J. Guðmundsson út úr salnum. Ég vildi nú gjarnan að hann hlustaði á það sem ég hef um þetta að segja. En látum svo vera. Sannleikurinn er sá, þrátt fyrir breytta stefnu launþegasamtakanna, sem sýna að vissu leyti nú meiri skilning á því að launakostnaður atvinnuveganna skiptir máli bæði varðandi verðlagsþróun og afkomuhorfur atvinnuveganna, hefur ákaflega lítið unnist bæði í baráttunni gegn verðbólgu og til þess að tryggja atvinnuvegunum afkomugrundvöll.

Við sjáum það best á því að þrátt fyrir 50% skerðingu verðbóta á þessu fjögurra ára tímabili, þegar grunnkaupshækkanir hafa orðið innan við 30%, hefur verðbólgan ekki hægt á sér heldur miklu fremur hert á sér. Það kemur ekki síst fram þegar skoðaður er málefnasamningur ríkisstj., sem lofaði því að á árinu 1982, s.l. ári, yrði verðbólgan komin niður í það sem gildir í helstu viðskiptalöndum okkar. Verðbólga í helstu viðskiptalöndum okkar er komin niður fyrir 10%, og raunar í helstu viðskiptalöndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi um eða niður fyrir 5%. Hér aftur á móti var verðbólgan 1982 milli 60 og 70%. Það var og fyrirheit svo seint sem fyrir ári, í þeirri efnahagsyfirlýsingu sem þá var birt, að verðbólgan skyldi á síðasta ári verða um 35% frá upphafi til loka árs, en mundi verða komin niður í 30% við lok ársins. Staðreyndin er sú, að hún var um 63–65% frá upphafi til loka ársins og nálægt 70% í lok ársins. Þetta eru nú efndirnar, sem núv. ríkisstj. hefur staðið að, eða réttara sagt vanefndir núv. ríkisstj. miðað við málefnasamning, loforð og fyrirheit.

Hvaða gagn gera nú þessi brbl. í baráttunni gegn verðbólgunni? Við skulum líta á grg. með brbl., yfirlýsingu ríkisstj. vegna aðgerða í efnahagsmálum dags. 21. ágúst 1982. Þar segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Verðbólga fer einnig vaxandi og er líklegt að án aðgerða verði hún um 75–80% um þetta leyti á næsta ári.“ En í skýrslu Þjóðhagsstofnunar til ríkisstj. frá 17. jan. s.l. kemur fram að helstu niðurstöður um verðbólgu eru þær, að hún verði 65–70% fyrri hluta ársins, fari yfir 70% um mitt ár, en gæti orðið minni síðustu mánuði ársins, og það er með miklum fyrirvara sagt af hálfu Þjóðhagsstofnunar. Ég hef hér greint frá áliti Þjóðhagsstofnunar 21. ágúst 1982, þegar spáð er 75–80% verðbólgu á komandi sumri án aðgerða. En nú kemur fram að með þeim aðgerðum sem í brbl. felast fer verðbólgan eftir sem áður upp í 73–74% 1. ágúst n.k. Þetta er nú allt það gagn sem þessi brbl. gera í baráttunni gegn verðbólgunni. Það er vert að kanna nánar umsögn Þjóðhagsstofnunar 21. ágúst í fyrra. Þá segir Þjóðhagsstofnun: „Við slíkar aðstæður verður vart komist hjá atvinnuleysi, og skuldasöfnun við útlönd mundi stefna fjárhagslegu sjálfstæði okkar í voða“.

Einnig er rétt að taka það fram að Þjóðhagsstofnun segir núna í jan. að jafnvel sé óvarlegt að treysta á það, að um einhverja hjöðnun verði að ræða án þess að gripið sé til sérstakra aðgerða umfram þær sem í brbl. felast, og bætir við: „Í reynd virðist því hætta á að verðbólgan verði nær 70% í árslok.“ Það er eins og ríkisstj. hafi ekki tekið eftir því sem Þjóðhagsstofnun sagði þegar í ágústmánuði s.l., að langvarandi verðbólga hefur smám saman skert og grafið undan rekstrarskilyrðum framleiðsluatvinnuveganna. Takist ekki að draga verulega úr verðbólgunni munu framleiðsluskilyrði og afkoma þjóðarbúsins fara versnandi á næstu árum.

Það er því fullkomin ástæða til þess að spyrja ríkisstj., hæstv. forsrh., hæstv. sjútvrh. og hæstv. félmrh. hvort og hvenær þá ríkisstj. ætli að standa að nauðsynlegum efnahagsaðgerðum til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi og skuldasöfnun við útlönd, sem stefna mundi fjárhagslegu sjálfstæði okkar í voða, svo notað sé orðalag Þjóðhagsstofnunar.

Í sambandi við efnahagsyfirlýsinguna, sem fylgdi brbl. frá 21. ágúst s.l., er rétt að minna á að þar var í 21 málslið greint frá ýmsum fyrirhuguðum aðgerðum ríkisstj. Sumir þessir málsliðir voru einskis nýtir og höfðu ekkert að segja í baráttunni gegn verðbólgu eða til lausnar efnahagsvanda okkar, eins og t.d. að ríkisstj. hygðist takmarka ráðningu helstu forstöðumanna í ríkiskerfi og ríkisstofnunum við fimm ár og heitir tillöguflutningi þar að lútandi, sem síðan hefur ekki sést neitt um. En það má minna á nokkra liði af þessum 21, sem þá var um rætt, fyrst og fremst þann sem hefur verið á dagskrá allt frá því að ríkisstj. var mynduð, er nefndur í málefnasamningi ríkisstj., efnahagsyfirlýsingu um áramótin 1980/81, í efnahagsyfirlýsingunni í jan. fyrir einu ári og nú í ágúst s.l., þar sem sterkast var að orði kveðið og sagt beinlínis að eftir 1. des. 1982 yrði tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun, þannig að kaupgjaldsvísitalan yrði reiknuð út samkv. nýju kerfi, og þá væntanlega í samræmi við þá neyslukönnun sem fram hefur farið nú fyrir örfáum árum og átti að taka við af neyslukönnuninni sem er bráðlega að halda upp á tveggja tuga viðveru sína.

Hvað líður þessu nýja viðmiðunarkerfi fyrir laun? Ég vil beina þeirri fsp. til ráðherranna, en framsóknarmenn hafa sagt að það væri skilyrði af þeirra hálfu í raun og veru fyrir áframhaldandi aðild að núv. ríkisstj. að þetta nýja viðmiðunarkerfi fyrir laun sæi dagsins ljós. Nefndir hafa verið starfandi að lausn þessara mála, en án þess að niðurstaða fengist. Þess vegna er fullkomin ástæða að spyrjast fyrir um þetta efni og fá hrein svör.

Þá er talað um í yfirlýsingunni frá því í ágúst 1982 að nýtt útflutningstryggingakerfi og útlánakerfi eigi að sjá dagsins ljós. Hvað líður því? Það er rætt um að teknar verði upp viðræður við samtök bænda um endurskoðun útflutningsbótakerfisins. Hvað líður þeim viðræðum eða árangri af þeim?

Það er talað um að spara og sporna við úfþenslu í opinberum rekstri. Hverjar eru efndirnar á því fyrirheiti? Við sáum það í fjárlagagerðinni, þar sem rekstrargjöld hækkuðu um yfir 60%, en fjárfestingar- og framkvæmdaútgjöld ekki nema um 30%.

Það er talað um að takmarka erlendar lántökur. Við höfum fylgst með því, að um erlendar lántökur er að ræða næstum því vikulega og þær hafa margfaldast.

Það er talað um að jafna starfsskilyrði atvinnuveganna með endurskoðun tekjuöflunarkerfis. Hvað líður þeirri endurskoðun tekjuöflunarkerfis sem miða á að jöfnuði starfsskilyrða atvinnuveganna? Við höfum ekki séð neitt um þá endurskoðun og engar tillögur hafa séð dagsins ljós á Alþingi um nýtt tekjuöflunarkerfi, sem ætti að miða að jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna, heldur er ýmislegt í þeim tillögum ríkisstj. og frumvörpum, sem hér eru til umr., sem auka enn á mismunun milli atvinnuveganna.

Þá var talað um í þessari yfirlýsingu að aðstöðugjöld ætti að samræma í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Hvað líður efndum á því fyrirheiti? Þannig má lengi telja. Í raun og veru er eitt fyrirheit sem þó var efnt. Það er 21. málsl. þessarar dæmalausu yfirlýsingar, þ.e. lenging orlofs. En þeim þætti var stungið inn í yfirlýsinguna á seinasta snúningi þennan laugardag, 21. ágúst, þegar allt ætlaði upp úr að sjóða meðal aðila ríkisstj. Þessu snuði, lengingu orlofs, var stungið upp í formann Verkamannasambands Íslands, Guðmund J. Guðmundsson, sem hafði þó ekki meiri reisn til að bera eða kjark en svo, að hann laumaðist út um bakdyrnar eftir að hafa látið stinga upp í sig þessu snuði. En það er samræmi í lagi í efnahagsaðgerðum ríkisstj. að lengja orlof, auka frítíma og draga úr vinnuframlagi um leið og verðbætur á laun eru skertar á þeirri forsendu að þjóðartekjur fari lækkandi. Það rekst eitt á annars horn í aðgerðum ríkisstj. Það mundi í raun og veru æra óstöðugan að rekja efnahagsyfirlýsingar ríkisstj. lið fyrir lið, svo fróðlegt sem það er til yfirlesturs til að sjá hvað ríkisstj. hefur að öllu leyti vanefnt fyrirheit sín, gengið á bak orða sinna og staðið að framkvæmd mála, sem eru þveröfug við það sem heitið var.

Þótt ekki sé nákvæmlega farið í þessi efni, þá er þó ástæða til að nefna nokkur atriði, sem eru þess eðlis, að þjóðarvoði er á ferðum ef sömu stjórnarstefnu á að framkvæma og verið hefur í tíð núv. ríkisstj. og þeirra vinstri stjórna sem setið hafa að völdum frá haustdögum 1978. Ég hef áður rakið nokkuð verðbólguþróunina, loforð og efndir ríkisstj. í þeim efnum. Ríkisstj. hefur slegið algert verðbólgumet, Íslandsmet í verðbólgu. Það er engin afsökun fyrir því meti að hún ber það fyrir sig og afsakar sig með því að hún hafi komið í veg fyrir atvinnuleysi með þessum hætti. Nú er það alveg ljóst að slík óðaverðbólga, sem við höfum reynt, kemur ekki í veg fyrir atvinnuleysi heldur leiðir til atvinnuleysis, eins og bent er á í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, enda er atvinnuleysisvofan nú farin að láta á sér kræla og raunar orðin að veruleika sums staðar á landinu. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna að ekki sé eingöngu nauðsynlegt að berjast gegn verðbólgu til þess að tryggja atvinnu, heldur er það skilyrði fyrir atvinnuöryggi að okkur takist sú barátta og sigur vinnist í henni.

Sýndaraðgerðir ríkisstj., sem að vísu hafa helst beinst að verðbótaskerðingum og kaupskerðingum, eru einnig með ýmsu móti. Sem dæmi vildi ég nefna þann þátt í svokölluðum efnahagsaðgerðum ríkisstj. í janúarmánuði s.l., að þá átti að greiða niður verðlag í landinu, aðallega landbúnaðarafurðir, sem svaraði 6% í vísitölustigum. Þessar niðurgreiðslur voru hafnar fyrir tæpu ári í kjölfar þessarar yfirlýsingar. En nú er svo komið að eyðsluhít ríkisstj. og verðbólgan hefur gleypt þær með húð og hári og þær eru í raun og veru niður fallnar.

Það var raunar upphaflega ætlun ríkisstj., fyrirheit og loforð í málefnasamningi, að niðurgreiðslur landbúnaðarvara skyldu vera ákveðið fast hlutfall af útsöluverði þeirra eða framleiðsluverðmæti. En ríkisstj. hefur ekki getað staðið við þetta. Hún hefur sprungið á limminu eins og allar vinstri ríkisstjórnir hafa gert, sem hafa ætlað að falsa vísitöluna og kaupgjaldið í landinu. Þetta átti sér stað með vinstri stjórnina 1971–1974, þetta átti sér stað með vinstri stjórnina 1978–1979 og þetta á sér stað með núv. ríkisstj., eins og dæmið frá s.l. ári sýnir. 6% niðurgreiðsla, sem hafin var fyrri hluta árs, hvarf eins og dögg fyrir sólu á árinu, þannig að í fjárlögum er gert ráð fyrir því að þessi 6 prósentustig séu niður fallin. Eftir sem áður er ekki um meiri niðurgreiðslur að ræða en sem nemur 5% í kaupgjaldsvísitölu. En ég sakna þess ekki að úr niðurgreiðslum sé dregið. Ég tel að niðurgreiðslur og millifærslur hvers konar séu gervilausnir á verðbólguvandanum og raunar til þess fallnar að auka á verðbólguvandann, þegar til lengri tíma er lítið. Því er það fagnaðarefni að úr þeim skuli draga að þessu leyti, þótt á þetta verði að minnast til þess að sýna hve fálmkenndar tilraunir og aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum eru.

Það er auðvitað að þegar búið er að slá Íslandsmet í verðbólgu, þá lætur ýmislegt annað undan. Ríkisstj. hefur samhliða Íslandsmeti í verðbólgu slegið Íslandsmet í gengislækkunum og gengissigi. Frá því að núv. ríkisstj. var mynduð hefur verð dollarans nærri því fimmfaldast. Slík gengislækkun íslensku krónunnar hefur aldrei fyrr átt sér stað á jafn skömmum tíma. Hæstv. forsrh. sagði í kjölfar myntbreytingar fyrir tveimur árum, að nú væri það ákaflega ánægjulegt að íslenska krónan væri orðin jafn verðmæt og aðrar Norðurlandakrónur eða jafnvel verðmeiri. En nú er svo komið að enn á ný er þarna orðinn á aðeins tveim árum mikill munur á. Við sjáum því fyrir okkur þá þróun, að eftir örfá ár stöndum við í sömu sporum og fyrir myntbreytingu. En myntbreytingin út af fyrir sig var hin mesta sýndarmennska og skálkaskjól til þess að fela í bili verðhækkanir og verðbólguþróun, sem í ljós er komið nú að hefur orðið til þess að verðhækkanir hafa orðið meiri en ella vegna þess að ríkisstj. skorti kjark, um leið og myntbreytingin var gerð, til að gera efnahagsaðgerðir almennar og samræmdar og fylgja þeim eftir.

En það er ekki eingöngu svo, að ríkisstj. eigi Íslandsmet í verðbólgu og gengislækkunum, heldur á ríkisstj. met í skattahækkunum, aukningu skattaálaga. Það hefur verið sýnt fram á að skattar hafa hækkað, miðað við það sem var samkv. gildandi lögum 1977, um 50–60 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu frá 1977 og til yfirstandandi árs, þ.e. um meira en 10 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu, hvort sem það er barn í vöggu eða öldungur, sem hefur unnið hörðum höndum og hraustum huga allt sitt líf og á í raun allt gott skilið op hefur unnið til þess að sjá ávexti erfiðis síns og njóta. Í tíð núv. ríkisstj. nemur þessi skattahækkun á þremur árum um það bil 28 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu. Hér er sem sagt um það að ræða að hvert mannsbarn á landinu verður að borga sem nemur meira en mánaðarlaunum samkv. Dagsbrúnartaxta í aukna skatta og skyldur til hins opinbera.

Það er svo rétt að tíunda „afrekaskrá“ ríkisstj., ef svo má að orði komast, innan gæsalappa að sjálfsögðu, að ríkisstj. hefur ekki eingöngu sett Íslandsmet í verðbólgu, gengislækkunum og skattahækkunum, heldur hefur og núv. ríkisstj. tekist að setja Íslandsmet í erlendri skuldasöfnun. Ef við horfum til baka til síðasta árs komumst við að raun um að hallinn á viðskiptunum við útlönd mun vera nálægt 12% og hefur aldrei verið hærri, að því er ég best veit, í það minnsta ekki á síðustu áratugum. Erlendar skuldir hafa aukist svo mjög, að frá 1977 munu þær hafa tvöfaldast, og nema núna væntanlega við lok yfirstandandi árs 55% af þjóðarframleiðslu okkar, í staðinn fyrir að þegar þessar vinstri stjórnir tóku við völdum námu erlendar skuldir rúmum 30% af þjóðarframleiðslu — og þótti alveg nógu mikið.

Í málefnasamningi núv. stjórnar er sagt að greiðslubyrði afborgana og vaxta af erlendum lánum eigi ekki að verða hærri en 15%. En í stað um 13–14% greiðslubyrðar, sem var raunin þegar vinstri stjórnirnar hófu feril sinn fyrir tæplega 41/2 ári, er nú svo komið að fyrirsjáanlegt er samkv. spá Seðlabanka Íslands að við greiðum á þessu ári annaðhvort fjórðu hverja krónu eða þriðju hverja krónu af gjaldeyristekjum okkar í afborganir og vexti. Það liggur í augum uppi að ef viðskiptahallinn er ekki réttur af eykst þessi skuldabyrði og þessi greiðslubyrði, sem hefur orðið til þess að ljós hefur runnið upp fyrir hæstv. fjmrh. og hann hefur lýst því yfir, að við værum að sökkva á kaf í ískyggilega skuldasöfnun, þótt hann á vordögum síðasta árs stæði hér í deilum við okkur stjórnarandstæðinga til að fullvissa okkur og þjóðina um það, að erlendar skuldir væru ekki orðnar hættulega háar. Batnandi manni er best að lifa og gott að hann vitkast og gengst við staðreyndum. En hér er um einhverja ískyggilegustu afleiðingu af stjórnleysi og stjórnarstefnu núv. ríkisstj. að ræða, að stefna þjóðinni í það skuldafen sem stofnar fjárhagslegu sjálfstæði hennar í voða.

Ríkisstj. hefur sem sagt met á mörgum sviðum efnahagsmála, að endemum að vísu. Ég get tilgreint enn eitt Íslandsmet í efnahagsmálum. Það er Íslandsmet í vaxtahækkun. Ég hygg að það fari ekki fjarri sanni að í tíð vinstri stjórna, í tíð Alþb. í ríkisstj. frá 1. sept. 1978 til þessa dags, hafi vextir tvöfaldast og fjármagnskostnaður þar með, bæði fyrirtækja, heimila og einstaklinga. Þetta er hroðalegt met, þegar tillit er tekið til þess, að Alþb. hefur alltaf haldið því fram að það vildi halda vöxtum og fjármagnskostnaði niðri, og þegar á það er lítið að á sama tíma hefur átt sér stað kjararýrnun, rýrnun kaupmáttar og kauptaxta, og á sama tíma hafa gengislækkanir verið meiri en nokkru sinni áður. En þetta þrennt hefur verið burðarásinn í efnahagsstefnu Alþb., í það minnsta hér fyrr á árum og allt fram á þennan dag, að vernda kaupmátt launa, hafa þeir sagt, að grípa ekki til gengislækkana til lausnar vandans og halda vaxtakostnaði niðri. En Alþb. hefur í ríkisstj. brotið gegn öllum þessum meginþáttum í efnahagsstefnu sinni eins og staðreyndir sýna.

En hver er svo árangurinn af þessari stefnu Alþb. og núv. ríkisstj. í peningamálum? Skyldi sparnaður hafa aukist? Nei, því miður. Því er ekki til að dreifa. Sparnaður hefur farið hraðminnkandi. Í stað þess að fyrir örfáum árum var talið að sparnaður hér næmi um 25% af þjóðarframleiðslu er samkv. upplýsingum Seðlabanka Íslands sparnaðarhlutfallið af þjóðarframleiðslu komið niður fyrir 17%. Og lausafjárstaða viðskiptabanka okkar er slík, að þeir skulda á annan milljarð kr. til Seðlabankans, þrátt fyrir mikla lánsfjárskömmtun. Það er ljóst að núv. ríkisstj. hefur siglt í strand, enda farið eftir þeim kompás og þeirri stefnu sem hlaut til þess að leiða.

Það sem er þó e.t.v. uggvænlegast, þegar efnahagsmálin eru könnuð, er að stefna ríkisstj. og vinstri stjórna frá haustdögum 1978 hefur dregið úr þjóðarframleiðslu og vanrækt hefur verið að nýta tækifæri í góðæri til aukningar þjóðarframleiðslu svo að við stæðum betur að vígi til að standa af okkur áföll sem óneitanlega hafa átt sér stað í minnkandi afla á síðasta ári og sölutregðu á skreið.

Það er engum blöðum um það að fletta, að núv. ríkisstj. fékk mjög góð ytri skilyrði við að búa, bæði árið 1980 og 1981, þegar verðmæti sjávarafurða jókst um 76%. Og þótt við höfum orðið fyrir aflaminnkun á s.l. ári er það ekki meira áfall en svo, að verðmæti sjávarvöruframleiðslu ætti að vera álíka og 1979 eða a.m.k. 1978, sem hvor tveggja þóttu góð ár, jafnvel þriðju eða fjórðu bestu ár okkar.

Jafnvel á árunum 1980–1981, þegar ómótmælanlegt var að við bjuggum við góðæri til lands og sjávar, átti sér stað stöðnun í þjóðarframleiðslunni. Framleiðni í atvinnuvegum minnkaði og þjóðartekjur jukust ekki eins og ástæða var til að ætla að væri eðlilegur árangur af góðæri til lands og sjávar. Það var stjórnarstefnan sjálf, vinstri stjórnarstefnan sem kom í veg fyrir það og átti þátt í þessari neikvæðu þróun.

Það eru þessir tveir meginþættir, sem varða feril ríkisstj., að hækka skatta, leggja á auknar álögur og veita ekki framtaki einstaklinganna svigrúm til þess að auka verðmætasköpun í þjóðarbúinu í heild, sem gera það að verkum að þjóðarframleiðslan var í stöðnun jafnvel á góðu árunum 1980 og 1981.

Stjórnarstefnunni er vissulega mjög vel lýst með síðustu aðgerðum og brtt. frá sjútvrh., sem hann gerði grein fyrir hér áðan og aðrir munu taka til meðferðar á eftir af hálfu Sjálfstæðisflokksins. En brbl., sem eru til umr., gerðu ekki meira gagn til lausnar efnahagsvandanum en svo, að örfáum vikum eftir útgáfu þeirra stöðvaðist allur fiskiskipaflotinn og var komið á flot aftur með stórkostlegum millifærslum og lántökum. Gagnið sem brbl. gerðu og bráðabirgðaráðstafanirnar í sept. eftir stöðvun flotans var þó ekki meira en svo, að þegar við fiskverðsákvörðun um síðustu áramót lá einnig við borð að fiskiskipaflotinn stöðvaðist. Þá var gripið til þess ráðs sem lýsir sér í því að olían var niðurgreidd um 35% í stað 22% áður. Þessi aðferð er auðvitað dæmigerð um vinstri stjórnar stefnu, millifærslustefnu, að þora ekki að horfast í augu við staðreyndir og láta ekki þá sem standa að atvinnurekstrinum bera ábyrgð á eyðslu svo mikilvægra aðfanga sem olían er. Það er auðvitað langtum dýrara fyrir þjóðarbúið í heild að greiða niður olíu um 35% heldur en að skapa útgerðinni starfsskilyrði til þess að geta borgað sjálf fullt verð fyrir olíuna og bera ábyrgð á rekstrarkostnaði sínum og skapa þannig aðhald hjá atvinnurekstrinum, að gætt sé sparnaðar við eyðslu á aðföngum, sem nauðsynleg eru til þess að draga fisk úr sjó. Þetta er svo einfalt dæmi, sem sýnir villigötur vinstrimennskunnar og það sem hefur leitt okkur á þær villigötur, sem nú blasa við hverjum og einum.

Ég vil svo, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu ítreka nokkrar spurningar, sem ég hef raunar komið fram með hér áður, en ekki fengið svör við, við sumum engin svör og öðrum óviðunandi svör. Það er í fyrsta lagi fsp. um það hvenær vænta megi að tillögur ríkisstj. um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun sjái dagsins ljós. Hæstv. forsrh. getur væntanlega svarað þeirri fsp. En um leið varpa ég fram fsp. til hæstv. sjútvrh. — og treysti því að forsrh. flytji honum þá fsp.: Hvað líður afstöðu Framsfl. til brbl. og áframhaldandi setu í ríkisstj., ef tillögur um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun sjá ekki dagsins ljós?

Þá vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvort sem hann kýs að skila þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. eða svara henni sjálfur: Hvenær fá alþm. að sjá fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár? Það þarf ekki að rifja það upp enn á ný að það er lagaskylda að þessi áætlun fylgi fjárlögum hverju sinni. Fjárlög voru nú eins og fyrr fyrsta mál þingsins. Við 1. umr. í byrjun nóv. lýsti fjmrh. því yfir að hann mundi leggja fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fram innan nokkurra vikna. Hann var krafinn um þetta fyrir þinghlé og varðist þá allra frétta. Nú vil ég ítreka þessa fsp. Ég geri ráð fyrir því að það þyki ekki óeðlilegt í umr. sem þessum og meðferð þessara brbl. að efnahagsmálin almennt séu upplýst, til þess að unnt sé að gera sér grein fyrir þýðingu þessara brbl. sem og möguleikum á lausn þess efnahagsvanda er við stöndum frammi fyrir. Burtséð frá þessum brbl. reyndar væri ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé fyrir hendi nú, áður en frv. verður afgreitt úr hv. deild.

Þá vil ég í þriðja lagi gera þá fsp. til hæstv. fjmrh. hvort hann hyggist endurskoða reglugerð um láglaunabætur og spyrja um leið hæstv. forsrh. um afstöðu ríkisstj. til þess. Ég teldi eðlilegt og sjálfsagt að nefnd sú sem fær frv. þetta til meðferðar taki reglugerðina um láglaunabætur til athugunar og rannsóknar og kryfji hana til mergjar og geri þær betrumbætur á þeirri reglugerð, jafnvel með löggjöf, sem lágmarkskröfur segja til um a.m.k. Ég veit að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er sammála mér í þeirri kröfu að fjh.- og viðskn. deildarinnar, sem hann á sjálfur sæti í, fari í þetta mál. Þarna eiga hlut að máli ýmsir þeir sem veitt hafa hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni umboð til setu á Alþingi auk þess sem hann er formaður Verkamannasambands Íslands og hefur því skyldum að gegna við meðlimi þess sambands, hvaða pólitískan flokk sem þeir kunna að fylla. Ég treysti því að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson bregðist ekki þeim skyldum og standi að því í fjh.- og viðskn. að hagsmuna þessara umbjóðenda hans verði gætt með viðunandi hætti, en blaðaummæli þm. bera vitni um að í raun telur hann ekki að svo hafi verið við setningu og framkvæmd reglugerðarinnar, eins og blaðalesendur hafa séð.

Þá gefur og brtt. sú, sem sjútvrh. fylgdi úr hlaði hér áðan, tilefni til þess að fjh.- og viðskn. fari mjög vandlega ofan í slíka till. Ég vil strax segja það sem mína skoðun, að ég tel það óviðunandi ef á að taka af gengismun, sem útflutningsaðilar í sjávarútvegi eiga allir aðild að, til þess að úthluta svo til einstakra fyrirtækja sem einhvers konar kreppulánum. Ég vara við slíkum handarbaksaðferðum og handahófsvinnubrögðum, sem eru að vísu dæmigert um vinstrimennsku í stjórnarframkvæmd í stað þess að hið opinbera á að setja almennar reglur og skapa almenn hagstæð skilyrði fyrir atvinnureksturinn svo að hann geti þróast og styrkst og skapað þann hagnað sem verði undirstaða fyrir kaupum nýrra framleiðslutækja, aukinnar framleiðni og því betri möguleika á að greiða hærra kaup og bæta lífskjör í landinu.

Þau brbl. sem við höfum hér til meðferðar sem og efnahagsyfirlýsingar ríkisstj. og framkvæmdir og aðgerðaleysi ríkisstj. á því sviði er allt til þess fallið að stefna málum okkar í strand eins og reynslan hefur sýnt. Það er mál að linni. Það er mál að vegur okkar verði ekki varðaður sífelldum kaupskerðingum annars vegar og sífelldum hækkunum á skattaálögum hins vegar, eins og starfsferill ríkisstj. hingað til.