01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að fram komi hér vegna þessarar umr. utan dagskrár, að á ríkisstjórnarfundi í morgun túlkaði ég það viðhorf ásamt fleiri ráðh. Alþb. að ekki bæri að mótmæla ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins í sambandi við stöðvun hvalveiða og jafnframt að eðlilegt væri að málið fengi umræðu og afgreiðslu hér á hv. Alþingi áður en ríkisstj. eða sjútvrh., sem hefur hið formlega vald í þessu máli, tæki sína afstöðu, þar á meðal að um málið yrði fjallað í utanrmn. Það kom hins vegar fram, eins og hæstv. sjútvrh. hefur greint hér frá, að hann taldi nauðsynlegt að afstaða hans til málsins kæmi fram, því að ákvörðunarvaldið í þessu máli væri í hans höndum, og hann mun að sjálfsögðu standa fyrir því sem slíkur. Ég ætla hér ekki að fara að gera efnislega grein fyrir minni afstöðu til málsins, enda ekki óskað eftir því af þeim sem hér hóf máls á þessu, en mun gera grein fyrir atkv. mínu þegar og ef málið kemur hér til afgreiðslu í þinginu, þ.e. sú þáltill. sem hér liggur fyrir hv. sameinuðu þingi.