01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég færi hæstv. ráðh. þakkir fyrir svör hans. Hann greip efnislega mjög víða niður í það sem ég minntist á áðan. Ég fagna því að hann lítur svo á að einokunarþjónustuaðili geti ekki haft rétt til þess að verðleggja einn sína vöru og tel að þetta boði að ráðh. muni leggja fram frv. sem tryggi að verðlagseftirlit með gjaldskrám m.a. Landsvirkjunar verði til staðar.

Ég hjó eftir því í þeirri umr. sem hér fór fram, að um 65% af lánsfé Landsvirkjunar er í Bandaríkjadölum. Jafnframt kom fram hjá 6. þm. Reykv., þegar hann var að reikna út eðlilega hækkun á gjaldskrám Landsvirkjunar, að hann miðaði við að allar skuldirnar væru í bandarískum dölum. Þó að hann miðaði við að allar skuldirnar væru í bandarískum dölum hefði það sem hámark átt að vera 115% hækkun, en varð 119% á s.l. ári. Að því viðbættu bæri jafnframt að líta svo á að það væri ekkert eigið fé hjá viðkomandi fyrirtæki. Ég held að það fari ekkert milli mála, hvernig sem menn vilja setja þetta upp, að 800% verðhækkun á raforku frá Landsvirkjun er ekki verjandi.

Hér var gripið á því, að einstaklingur eða fjölskylda þyrfti að greiða í upphitunarkostnað hjá Rafmagnsveitum ríkisins 23 201 kr., svo nákvæmt sé eftir haft, en hjá Hitaveitu Reykjavíkur 5231. Nú er mér ljóst að Hitaveita Reykjavíkur hefði þurft að fá meiri verðlagshækkun en hún hefur fengið, og ég tel að það sé ekki til heiðurs fyrir ríkisstj. að hafa setið jafnfast á verðhækkunarbeiðnum frá Hitaveitu Reykjavíkur, sérstaklega í ljósi þess að hún hefur vissulega verið að selja sína þjónustu á lágu verði. En það hlýtur þó að vera augljóst mál, að sá gífurlegi mismunur sem hér er er ein stærsta ástæðan fyrir búsetuflutningi innanlands í dag. Hann er líka stærsta ástæðan fyrir því hvað verðlag á íbúðarhúsnæði er misjafnt í þessu landi. Þess vegna má segja sem svo, að jöfnun upphitunarkostnaðarins er sennilega eitt stærsta vandamálið ef koma á jafnvægi hvað þetta snertir.

Hér var lýst ýmsum skoðunum á því í fyrsta lagi hvernig ætti að ná árangri í að fá hærra raforkuverð frá stóriðjufyrirtækjunum. Ekki var ágreiningur um að það þyrfti að hækka. Það var að vísu ágreiningur meðal ræðumanna um hvað mikið og um leiðir að því marki. Ég hygg að okkur sé hollt að.deila ekki mjög harkalega um þau efni og ærin ástæða væri til að einbeita sér að því markmiði að ná fram þessari hækkun. Ég tel að það sé óverjandi, ef það er rétt sem hæstv. iðnrh. segir í ræðu um raforkumál, þeirri sömu sem ég vitnaði til áðan og birt er í Þjóðviljanum 16. nóv., að verðmunurinn á milli þess sem stóriðja borgar og þess sem t.d. Rafmagnsveitur ríkisins eða Orkubú Vestfjarða greiddu eigi að vera um 50%, en nú stefni í 65% verðmun. Þá þarf náttúrlega engum blöðum um það að fletta að þessi verðmunur er orðinn miklu meiri en hann var og hefur nokkurn tíma verið.

Þetta ástand er orðið það alvarlegt að hver og einn, sem sest niður og skoðar það raforkuverð sem hér er verið að bjóða almenningsveitum, hlýtur að gera sér grein fyrir að það er verið að skattleggja þjóðina til að borga með stóriðjunni. Það þarf hæstv. ráðh. einnig að hugleiða. Bæði sem ráðh. og þm. Austurlands hlýtur hann að hugleiða hvernig sá skattur geti þá komið réttlátast niður, ef vonlaust er að komast undan því að hann sé álagður eins og gert hefur verið.

Ég gæti talað hér alllengi til viðbótar, en forseti er farinn að ókyrrast, og er hann þó friðsemdarmaður. Ég ætla ekki að níðast á þolinmæði hans, en vil undirstrika að ég hvet þm. til að standa saman í þeirri kröfu að raforkuverð til almenningsveitna verði ekki látið hækka jafnmikið og spáð er. Um 125% er hækkunin á þessu ári miðað við 50% verðbólgu. Þetta gengur ekki. Í annan stað hvet ég þá til samstöðu um að ná árangri í samskiptum við stóriðjuna.