02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

Þingsköp

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Fyrir hálfum mánuði gerði ég að umtalsefni hér á hinu háa Alþingi hvernig þingstörfum væri háttað, og ég endurtek það enn á ný, að sitja hér í þingsölum núna dag eftir dag og verða vitni að því hvernig störfin fara hér fram í þessari annars virðulegu stofnun. Ég tel það vera orðið gersamlega óþolandi að taka þátt í þessum skrípaleik miklu lengur. Hér átti að afgreiða brbl. í dag. Mér er ekki kunnugt um að nokkur minnsta von sé til þess að það verði gert. Menn eru að rangla hér um, fjalla um þingtæknilega hluti og á meðan berast okkur látlausar fréttir um það úr þjóðfélaginu, síðast í sjónvarpinu í gær, hvernig komið er efnahagsmálum þessarar þjóðar. Ég segi það hreint út, að hafi ég verið reiður hér fyrir hálfum mánuði, þá er ég ennþá reiðari nú. Skömm þessarar stofnunar er að verða svo mikil, að óbreyttir þm. geta ekki undir staðið. Þetta gengur ekki lengur svona. Við verðum að fara að standa og falla með þeim ákvörðunum sem þetta þing tekur. Þingstörfin eins og þau eru núna geta ekki gengið, eins og ég hef margsagt. Þetta þing er að glata fullkomlega trú og virðingu þjóðarinnar og meira en það.

Hvalveiðimálið, sem hér átti að afgreiða í gær, er komið í erlenda fjölmiðla. Það er búið að greina frá því að ríkisstjórn Ístands hafi tekið vissa afstöðu í því máli. Ef það mál kemur svo aftur hingað inn og verður afgreitt á annan veg, þá verður virðing þingsins ekki bara á niðurleið hjá þjóðinni heldur á alþjóðlegum vettvangi.

Herra forseti. Ég vil nú endilega mælast til þess að þeir menn sem gegna ábyrgðarstöðum inni á þessu þingi taki ákvarðanir í veigamiklum málum eins og um mótmæli gegn hvalveiðibanni, þeir vindi sér í það að taka einhverja ákvörðun, þannig að störf þingsins geti haldið áfram. Ég mótmæli því hvernig hér er staðið að málum.