27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

28. mál, málefni aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég var og er formaður í þeirri n. sem bæði fékk frv. í fyrra til meðferðar og mun fá þetta núna. Það kom seint fram í fyrra, en nú gefst væntanlega tími og eftir undirtektum hv. þm. að dæma ætti það að eiga greiða leið í gegnum þingið.

Ég fagna því að þetta frv. er fram komið og fagna því jafnframt, að loksins kom að því að hv. þm. Reykjavíkur eru vændir um kjördæmapot. Það var mál til komið. Þeim er nokkur vorkunn, þeim hv. þm. Vestf. og Vesturl., að þeim kunni að þykja komin röðin að sér eftir að önnur kjördæmi hafa fengið stórvirkjanir í hvern hrepp. En ég skal ekki eyða (ÓÞÞ: Hvað eru hrepparnir margir á Íslandi núna?) orðum að því. Það eru hins vegar nokkur atriði í sambandi við Framkvæmdasjóð aldraðra sem ég vil koma inn á.

Ég held að það sé enginn vafi á að langflestir landsmenn greiða með glóðu geði þann litla skatt sem á þá er lagður til þess að byggja upp íbúðarhúsnæði og stofnanir fyrir aldraða. — Og ég ætla ekki heldur að blanda mér í þá umr. sem hér hefur farið fram um hvernig veitt er úr sjóðnum. Ég held að það sé skynsamleg stefna að reyna að ljúka við stofnanir á einum stað áður en byrjað er annars staðar, svo að gagnslausir grunnar séu ekki í hverjum landshluta.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. hvernig sé farið að þegar búið er að veita úr þessum sjóði, að hve miklu leyti er síðan fylgst með hvernig fjármagnið er notað. Ég held að það eigi við ýmsa sjóði ríkisins. Ég vil t.d. geta þess, þar sem ég á sæti í svæðisnefnd fyrir þroskahefta fyrir Reykjavíkursvæðið, að við erum nú að láta vinna úttekt á því hvernig það fé sem Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra veitti til stofnana á svæðinu á s.l. ári hefur verið notað. Ég auglýsi nú eftir því, að hvaða leyti er fylgst með því í hvað þetta fé raunverulega fer. Ég er búinn að sjá of mikið af bruðli og sóun með slíkt fé til þess að ég sætti mig við það lengur. Það er ekki langt síðan við nokkrir hv. þm. skoðuðum stofnun hér í Reykjavík, þar sem yfir fólk gekk bruðlið og eyðslusemin. Það er einhvern veginn svo með opinberar framkvæmdir, að fólk sýnist vera harla ráðalaust, þó það sitji í valdamiklum pólitískum embættum, þegar hafa skal nokkra stjórn á því hvernig þeir sem annast framkvæmdina fara með þetta fé.

Ég vil aðeins taka lítið dæmi: Á deild, þar sem gera má ráð fyrir að flestir sjúklingar séu meira og minna illa gangandi og þar á meðal trúlega keyrðir um í hjólastólum, hafði verið lagt tveggja sm þykkt gólfteppi yfir alla hæðina. Auðvitað fer svo, að það verður að taka þetta gólfteppi burtu. En maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna var það yfir höfuð sett?

Ég held að það sé komið mál til að fylgst verði í meira mæli með hvernig með þetta fé er farið, sem verið er að veita hér, og þess vegna vil ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til ráðh. hvort einhverjum sé ætlað að fylgjast með framkvæmd á meðferð þessara peninga og jafnframt hvort einhver sjái hvað er gert við þá.

Að öðru leyti fagna ég því að þetta frv. er svo snemma fram komið og vænti þess að það verði að lögum áður en þingi lýkur fyrir jól.