03.02.1983
Efri deild: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

74. mál, loftferðir

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Samgn. þessarar deildar hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á loftferðalögum, stjfrv., 74. mál.

Samgn. sendi þetta frv. m. a. flugráði til umsagnar. Þaðan komu nokkrar ábendingar um smávægilegar breytingar, þó varla stórar efnislega, sem n. þótti rétt að taka tillit til, og skal ég nú gera grein fyrir því.

Það er fyrst nafnið á þessari nefnd, sem var áður kölluð rannsóknarnefnd flugslysa. Lagt er til að hún heiti flugslysanefnd. Einnig eru nokkru skýrari ákvæði um að nefndin ákveði sjálf, sem sagt hafi sjálfdæmi um það, hvaða mál hún kannar innan þess ramma sem henni er gert að starfa eftir. Einnig er brtt. í þá veru, að nefndin skuli gera tillögur til úrbóta í öryggismálum flugsins, eftir því sem rannsókn á orsökum flugslysa gefur tilefni til.

Það er sem sagt ekki um neina verulega efnisbreytingu að ræða, miklu frekar áherslubreytingu og gert örlítið skýrara.

Nefndin er sammála um að mæla með því að þetta verði samþykkt eins og það liggur fyrir í brtt. n. á þskj. 281.