03.02.1983
Neðri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því að þetta mál er nú tekið til 2. umr. Það er orðið mjög aðkallandi að afgreiða þetta mál á einn veg eða annan. Þetta má ekki vera í óvissu. Ég hafði samið um það við olíufélögin að þau veittu útgerðinni greiðslufrest á 35% olíukostnaðar til síðustu mánaðamóta og sá tími er liðinn.

Ég skal koma að nokkrum atriðum sem frsm. nál. hafa minnst á. Í fyrsta lagi ræddi frsm. 1. minni hl. um ákvæði, sem í frv. er, um greiðslu útflutningsgjalds af ísfiski. Ég fjallaði lítillega um þetta í framsöguræðu minni. Ég gat þess þá, að þetta mál hefði ekki orðið afgreitt á fundi yfirnefndar sjávarútvegsins. Segja má að láðst hafi að taka það þar fyrir. Fram komu ýmsar hugmyndir um lausn á þessu atriði, þegar frv. var í vinnslu, og reyndi ég þá að ná saman fundi allra hagsmunaaðila, þar með talið sjómanna, og vita hvort gæti orðið a. m. k. allsherjarsamkomulag um þetta. Því miður tókst það ekki. Hins vegar náðu útgerðarmenn og fiskvinnslan samstöðu um málið og ákvað ég að láta það ganga þannig inn í frv., en lýsti yfir við 1. umr. að ég teldi eðlilegt að sjútvn. skoðaði þetta mál alveg sérstaklega.

Þarna eru viss atriði sem orka tvímælis. T. d. það, hvort rétt sé að með þessu sé samningum sjómanna og útgerðarmanna um frádrátt frá verði erlendis breytt á óeðlilegan hátt. Þetta lá ekki ljóst fyrir, en ég veit að hv. sjútvn. hefur fjallað um það mál.

Einnig orkar það vitanlega nokkuð tvímælis, hvort greiða á niður olíu erlendis. Ef olíugjald er tekið erlendis er ekki óeðlilegt að olía þar sé þá einnig að einhverju leyti greidd niður. Hins vegar er óeðlilegt að sú olía sé greidd niður fyrir olíu sem tekin er heima miðað við 35% niðurgreiðslu á olíu. Verð á gasolíu hér heima og erlendis mun með niðurgreiðslu hér á landi vera orðin nokkuð svipað. Þess vegna taldi ég nauðsynlegt að þetta yrði nánar skoðað. Það hefur n. gert og mér skilst að meiri hl. hennar leggi til að þetta ákvæði verði fellt út þannig að ekki verði tekið útflutningsgjald af fiski sem landað er erlendis. Get ég fyrir mitt leyti vel fallist á það og mun þá að sjálfsögðu haga niðurgreiðslu olíu í samræmi við það með þeim reglum sem sjútvrn. ber að setja olíusjóði þeim sem um er fjallað í þessu frv.

Hv. þm. Karvel Pálmason kom inn á nokkra þætti. M. a. spurði hann um athugun á vinnutíma sjómanna.

Reyndar hefur hv. þm. Pétur Sigurðsson svarað því. Ég lét nokkurt fjármagn af fjárveitingu til sjútvrn., nokkur hundruð þús. kr. í þessa athugun, eftir að ég hafði fallist á og talið sjálfsagt að hún færi fram á vegum Kjararannsóknarnefndar. Upplýst var, eftir að ég hafði gert þetta samkomulag við sjómenn, að Kjararannsóknarnefnd var með slíka athugun. Ég taldi því eðlilegt að hún héldi henni áfram, en ekki yrði um tvíverknað að ræða í annarri nefnd, sem ég þá skipaði. Á þetta féllust allir aðilar og ég lagði fjármagn, eins og ég sagði, í þetta starf. Það má einnig geta þess, að ég gekk í að útvega upplýsingar frá Noregi, sem eru mjög hliðstæðar þeirri vinnu sem þarna átti að vinna. Það olli mér því verulegum vonbrigðum þegar ég frétti fyrir nokkru frá formanni Sjómannasambandsins að vinnu þessari væri hætt af þeim ástæðum sem komu fram frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni. Ég hef lofað formanni Sjómannasambands Íslands að þessi vinna verði tekin upp að nýju. Hins vegar er ákaflega nauðsynlegt að hún verði tengd því sem þarna var gert. Við þurfum einhvern veginn að halda því starfi áfram og það ætla ég að ræða við viðkomandi aðila.

Hv. þm. Karvel Pálmason fullyrti enn einu sinni að ég hefði ekki staðið við það, sem ég hefði lofað, að fella niður olíugjaldið. Ég hef að vísu leiðrétt hvað eftir annað þessi ummæli. Ég hef vakið athygli hans á því, að í öll skiptin þegar ég hef rætt um olíugjaldið hef ég látið fylgja að enda verði að skapa útgerðinni rekstrargrundvöll með öðrum aðgerðum, ef hún hefur ekki efni á að sleppa þessu olíugjaldi. Nú er öllum mönnum ljóst að sá aflabrestur sem hefur orðið á síðasta ári hefur vissulega orðið útgerðinni mjög erfiður og svo sannarlega ekki skapað hagstæðan grundvöll til þess að fella niður olíugjaldið. Þetta hafa sjómenn, vil ég leyfa mér að segja, viðurkennt í viðræðum við mig. Þeir hafa viðurkennt þetta þótt þeir séu ákaflega mótfallnir olíugjaldinu. Aðstaða hefur blátt áfram ekki verið til þess að skapa útgerðinni rekstrargrundvöll eftir öðrum leiðum.

Hv. þm. sagði einnig, að þjóðin ætti öll að axla byrðar vegna áfalla sem útgerðin hefur nú orðið fyrir af aflabresti og hækkun útgerðarkostnaðar. Ég get tekið undir þetta. Þjóðin á að axla þær byrðar. Þjóðin hefur uppskorið mikið frá sjávarútvegi. Eflaust má að mestu leyti rekja batnandi lífskjör undanfarinna ára til mikils afraksturs á því sviði. Hins vegar verð ég að segja það, að mér finnst nokkuð langt gengið að leggja almennan skatt á þjóðina, eins og t. d. söluskatt, til að greiða niður olíu til útgerðarinnar. Ég held að sjávarútveginum sé enginn greiði gerður með því. Þá má með nokkrum rétti segja að hann sé kominn á framfæri þeirra sem ganga í verslun og kaupa sínar nauðsynjar. En ég vil þó viðurkenna að með þessu útflutningsgjaldi eru svo sannarlega lagðar vissar byrðar á þjóðina því að útflutningsgjaldinu er mætt með meiri gengislækkun. Vitanlega leiðir gengislækkunin til verðhækkunar, sem við öll borgum. Segja má að þetta sé óbeinni leið að sama marki. Þetta atriði var að sjálfsögðu mikið rætt. Ég get fullyrt að þeir voru ákaflega fáir sem töldu fært að fara söluskattsleiðina.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson flutti ítarlega ræðu og kom víða við. Get ég tekið undir margt sem hann sagði, en við sumt verð ég að gera nokkrar leiðréttingar.

Hv. þm. taldi að 14% hækkun fiskverðs væri ekki nægileg tekjubót til sjómanna miðað við þann aflabrest sem hefur orðið og hann vefengdi útreikninga með mjög hörðum orðum og taldi hann að blekkingum væri beitt, svo að ég vísi í það sem hann sagði, í þeim útreikningum sem Þjóðhagsstofnun hefur lagt fram. Ég hef að vísu fyrr heyrt útreikninga Þjóðhagsstofnunar vefengda, en aldrei með svo alvarlegum ásökunum. Ég held að þarna sé of djúpt í árinni tekið. Ég leyfi mér að fullyrða að Þjóðhagsstofnun hefur leitað þeirra bestu upplýsinga sem fáanlegar eru til að bera saman nokkuð erfið atriði, þ. e. tekjur sjómanna og tekjur manna í landi, — erfið atriði m. a. vegna þess að sjómenn og menn í landi vinna alls ekki við sömu aðstæður. Það tel ég einn stærsta þáttinn í þessu. Sjómenn hafa óreglulegan vinnutíma. Sjómenn vinna ætíð í akkorði þegar afli er mikill o. s. frv. Að vísu má segja, að þegar lagðar eru til grundvattar upplýsingar um tekjur fólks í fiskvinnslu samkv. framtali kemur vitanlega akkorðsvinna eða bónusvinna þar einnig inn. En engu að síður eru aðstæður aðrar. Það var meðal annars ástæðan til þess að ég var hvetjandi þess að gerð yrði athugun á vinnutíma sjómanna, sem ég ræddi hér um áðan og hefur verið gert hér að umræðuefni. En ég get ekki fallist á að um blekkingar sé að ræða. Í orðinu blekking felst vísvitandi fölsun í raun og veru.

Ég vakti athygli á því í framsöguræðu minni, að með 14% fiskverðshækkun hefur samkv. þessum samanburði á tekjum aflabresturinn verið fullkomlega lagfærður tekjulega séð. Miðað við verkamenn eru tekjur sjómanna svipaðar eða aðeins meiri en miðað við 1977 allmiklu meiri en tekjur iðnaðarmanna. Fiskverð, svo að sá samanburður við kauptaxta sé einnig notaður, er orðið sambærilegt. En það er líka staðreynd, að fiskverð hækkaði á síðasta ári, á einu ári, um um það bil 75%, en laun í landinu um um það bil 52%. Ég vil leyfa mér að fullyrða að launþegar í landi hefðu sætt sig ákaflega illa við enn meiri hækkun fiskverðs, en óbreytta hækkun launa í landi, og ég get ekki áfellst þá fyrir það. Í okkar þjóðfélagi er stöðugt gerður samanburður á tekjum.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að ég tel að sjómenn séu mjög vel að þessari hækkun komnir. Ég tel að vel eigi að gera við sjómenn. Þeir eiga að hafa góðar tekjur. Hins vegar hefur alltaf komið skýrt fram hjá sjómönnum að þeir væru tilbúnir að taka á sig skerðingar sem þjóðin öll tæki á sig og ég tel að með þessu sé nokkurn veginn þeim jöfnuði náð.

Mér skilst á orðum hv. þm., þó að ég heyrði ekki að það kæmi beint fram hjá honum — a. m. k. má draga þær ályktanir — að leysa hefði átt allt þetta mál fremur með meiri hækkun fiskverðs. Ef leysa átti málið að sama hluta, — því að málið er náttúrlega ekki að fullu leyst, útgerðin er enn þá rekin með of miklum halla, — sama hluta sem náð er með þessu samkomulagi við útgerðarmenn og fiskvinnsluna, þá hefði fiskverð orðið að hækka um það bil 26%. Þeirri hækkun hefði fylgt meiri gengislækkun til að bæta upp kostnaðarauka fiskvinnslunnar og ég óttast að slíkri hækkun hefði fylgt veruleg gagnrýni af hálfu launþega almennt. Ég vil því halda því fram, að ekki sé um meiri kjaraskerðingu hjá sjómönnum að ræða en launþegum almennt.

Hv. þm. sagði að þetta væri meiri kjaraskerðing, m. a. vegna þess að í ljós hefði komið að útflutningsgjaldið yrði tekið til greina við næstu fiskverðsákvörðun. Það er rétt, að útflutningsgjaldið er tekið til greina þá. En á móti því kemur gengislækkun, sem hækkar verð á fiskafurðum. Menn mega ekki gleyma þeim enda á dæminu. Fiskverðið er hækkað í íslenskum krónum með meiri gengislækkun, sem vegur á móti þessu útflutningsgjaldi. Um það hefur verið samið við fiskvinnsluna, það er engin launung, svo að þetta vegur hvort á móti öðru.

Millifærslukerfi hefur verið gagnrýnt og ég get tekið undir það. Það er ætíð mjög varasamt. Mér sýnist hins vegar millifærslan algeng í okkar þjóðfélagi. Hún er kannske hvergi meiri en í tekjuskatti. Þar er fært gífurlega á milli. Ég hef ekki heyrt neinn gagnrýna það út af fyrir sig. Ég tel að millifærsla geti komið til greina í einstökum, við skutum vona tímabundnum, erfiðleikum. Í útgerðinni eru tvímælalaust mjög miklir, og ég vil aftur segja vonandi tímabundnir, erfiðleikar, þ. e. afli miklu minni en gert var ráð fyrir. Á að mæta slíkum erfiðleikum með fiskverðshækkun einni og meiri gengisfellingu, sem fer meira inn í verðbólgu o. s. frv.? Sú leið er bókstaflega ekki fær á meðan við búum við það vísitölukerfi sem hér er við lýði. Hún leiðir til svo mikillar hækkunar á verðlagi og vísitölu og víxlverkunar að hún er ekki fær á meðan við búum við það.

Ég ætla ekki að fara almennt út í þau mál. Ég hef oft lýst því, að ég tel að því kerfi verði að breyta að nokkru leyti.

Hv. þm. ræddi um aðrar tekjur í þessu skyni og nefndi þá t. d. útflutningsgjald það sem nú er lagt á, þ. e. 5.5%. Mikið hefur verið rætt um það gjald. Ég hef ekki heyrt eina einustu rödd frá sjómönnum eða útgerðarmönnum, þó hef ég marggengið eftir því og spurt, að draga skuli úr einhverjum þætti þar. Rætt var um hvort ætti að draga úr því sem rennur í Aflatryggingasjóð. Menn hafa ekki treyst sér til að gera það. Þar er nokkur inneign, um það bil 70–80 millj. kr., í hinni almennu deild. Hins vegar er skuld í verðjöfnunardeild sjóðsins. Að sjálfsögðu vilja menn ekki ganga svo nærri þeim sjóði að ekki verði bættur t. d. aflabrestur á vertíð. Ég veit að hv. þm. hefur það örugglega ekki í huga. 1% rennur í tryggingasjóð og það mál hefur verið vandlega skoðað. Var talið fært að ráðstafa 30 millj. kr. úr tryggingasjóði í olíuniðurgreiðslu í lok síðasta árs, en lengra verður þar ekki gengið og ég held að það sé full þörf á þeim hluta sem þangað rennur.

Mikið hefur verið rætt um að fella niður 1% sem rennur í Fiskveiðasjóð. Það kæmi til greina ef staða Fiskveiðasjóðs væri betri. Það má heita að þetta sé nánast það eina ráðstöfunarfé sem hann hefur, fyrir utan lánsfé. Afkoma Fiskveiðasjóðs er bókhaldslega góð, en greiðslulega er hún mjög erfið því að vanskilin þar eru gífurlega mikil. Af þeirri ástæðu var samstaða einnig um það, að eins og nú er ástatt yrði ekki þetta 1% af Fiskveiðasjóði tekið. Aðrar atvinnugreinar greiða ekki slíkt gjald, a. m. k. í miklu minna mæli. Það kemur vel til greina að breyta þessu, en ég tel það ekki fært á þessari stundu.

Ég held að ég megi fullyrða að í allri meðferð þessa máls var mikið rætt um hverja aðra tekjuleið sem mönnum datt í hug, en þær voru ekki margar. Niðurstaðan var sú, að það var um tvær leiðir að ræða, annars vegar að fara út í niðurgreiðslu á olíu eða hækka olíugjaldið, þ. e. greiða beint frá vinnslu til útgerðar á grundvelli aflamagns. Menn hafa fundið að þessari leið að hún leiði til þess að menn spari ekki eins olíu. Það er rétt. Þess vegna er hún varasöm og þarf að forðast að niðurgreiðslan verði óeðlilega mikil, eins og hún var t. d. orðin á árunum 1973–1975, þegar hún náði 3/4 af olíukostnaði, en ég sé ekki betur en olíugjaldið hafi svipað í för með sér. Það er greitt af afla við skulum segja upp í olíukostnað eða upp í kostnað útgerðarinnar atmennt og er vitanlega um verulega tilfærslu að ræða og kemur ójafnt niður á útgerðina. Sú útgerð sem hefur langsamlega minnstan kostnað er að sjálfsögðu útgerð trillu á handfæri. Nefnd hafa verið mörg dæmi um að þar hafi allur kostnaður olíu og meira en það verið greiddur. Það leiðir út af fyrir sig ekki til sparnaðar heldur, þannig að niðurstaðan varð sú, að af tvennu væri þó skárra að fara þessa olíuniðurgreiðsluleið. Samanburður við olíukostnað erlendis liggur að auki alls staðar fyrir. Olía er erlendis verulega ódýrari, en víða greidd niður, greidd niður í Færeyjum, ódýr í Noregi og til fiskiskipa í Bretlandi o. s. frv.

Hv. þm. lýsti furðu sinni á því að hlutaskiptanefnd héldi ekki áfram störfum. Hlutaskiptanefnd skilaði af sér til mín í lok desember. Ég hef lagt mikla áherslu á að hún skilaði áliti og átti fundi með fulltrúum hennar. Því miður náðist ekki samkomulag. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að hlutaskiptum sé breytt, að bæði olíugjald og stofnfjársjóður verði lagt niður, en hins vegar greidd hlutdeild í olíukostnaði beint. Hlutaskiptum verði aftur á móti breytt á hinum ýmsu flokkum fiskiskipa, þannig að sjómenn hefðu að meðaltali í hverjum flokki fiskiskipa sömu tekjur eða bæru sama úr býtum og þeir hafa nú. Þarna er vissulega um nokkra tilfærslu að ræða, þannig að t. d. fiskiskip, við skulum segja togari, sem notar mikla olíu, hefur minna til skiptanna. Um þetta voru flestir í nefndinni sammála, en a. m. k. einn fulltrúi sjómanna lagðist hart gegn þessu og nefndin var öll sammála um að leggja til við mig að þessu yrði ekki hrint í framkvæmd við þær aðstæður. Útgerðarmenn voru sammála þessu, en það er alls ekki þar með sagt að því starfi sé lokið. Því er alls ekki stungið niður í skúffu og verður að takast upp að nýju og halda áfram því verki þó þessi nefnd hafi skilað af sér.

Að lokum vil ég koma að nokkrum orðum um ákvæði til bráðabirgða, sem ég get efnislega tekið undir. Þá vil ég fyrst upplýsa það, að ég hef átt viðræður við hagsmunaaðila og ýmsa fleiri um endurskoðun laga um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Ég tel það tímabært. Það eru hins vegar mjög skiptar skoðanir um það og sumir virðast óttast að farið verði úr öskunni í eldinn. Hugmyndir um frjálsa samninga á milli sjómanna og útgerðarmanna annars vegar og útgerðarinnar og fiskvinnslunnar hins vegar hafa satt að segja valdið ýmsum hagsmunaaðilum verulegum áhyggjum. Þeir telja að þá væri svo sannarlega stigið skref aftur á bak. Engu að síður tel ég að þetta beri að endurskoða og get fallist á svona ákvæði. Hins vegar er ég sannfærður um að fimm manna nefnd dugar ekki til.

Lögð var mikil áhersla á það af sjómanna hálfu að þeir fái fulltrúa, bæði farmenn, fiskimenn og sjómenn. Útgerðarmenn krefjast þar fulltrúa og helst tveggja, en a. m. k. eins, og fiskvinnslan krefst þar örugglega fulltrúa og hennar óskum verður varla mætt með einum fulltrúa. Ef stjórnmálaflokkarnir vilja komast inn í málið er nefndin orðin fjölmenn. Segja má að á þessu hefur helst staðið. Ég er tilbúinn að skipa slíka nefnd og leita þá eftir tilnefningum frá hagsmunaaðilum og er tilbúinn að setjast niður með hv. þm. og öðrum og ræða um hvernig svona nefnd gæti orðið skipuð.

Ég vil einnig geta þess, að ég lagði fram till. í ríkisstj. um að skipuð verði nefnd til að athuga allan rekstrargrundvöll útgerðarinnar og allt sem gæti orðið til að gera hann hagkvæmari, hvaða nafni sem það nefnist, hvort sem menn eru að tala um fækkun skipa, nýtt kerfi, kvótakerfi og hvað sem þar er. Þessi till. var samþykkt og ég er að vinna að því að koma þeirri nefnd saman. Það þarf að vanda til vals á mönnum í þá nefnd og það er ég að reyna að gera. Þá nefnd mun ég tvímælalaust skipa. Ég hefði viljað leggja til að við gætum aðeins rætt um þetta hvort tveggja, hvort menn vilja breyta þessu ákvæði hér á einhvern máta þannig að allir geti sætt sig við það. Það er ég tilbúinn að ræða.

Ég man nú að ég gleymdi að svara einni spurningu frá hv. þm. Karvel Pálmasyni. Hvernig á að borga það sem eftir stendur af niðurgreiðslu á olíu fyrir áramótin? Helmingur var borgaður úr Tryggingasjóði fiskiskipa, 30 millj. voru teknar að láni hjá Seðlabanka Íslands með ríkisábyrgð. Það mál er til meðferðar hjá fjmrh. og ríkisstj. m. a. í tengslum við lánsfjáráætlun o. fl.