03.02.1983
Sameinað þing: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

268. mál, fjarskiptasamband við skip á Breiðafjarðarmiðum

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Í maí 1968 voru sett lög um tilkynningarskyldu íslenskra skipa og reglugerð um framkvæmd þeirra laga. Þau lög, sem gilda um tilkynningarskylduna nú, eru níu árum yngri eða frá því í maí 1977. Í þeim lögum segir að Landssíminn skuli sjá um, með leyfi forseta, „að skipum á þeim hafsvæðum hér við land, sem búa við mjög slæm móttökuskilyrði, verði bætt aðstaðan með uppsetningu nýrra strandstöðva.“

Þótt nú séu senn liðin 14 ár frá fyrstu lagasetningu um tilkynningarskyldu íslenskra fiskiskipa eru enn hafsvæði við landið þar sem erfitt hefur reynst að sinna þessari skyldu og sérstaklega á þeirri tíðni sem nú er talið æskilegast að nota, þ. e. VHF eða metrabylgjunni svokölluðu.

Fjarskiptasamband milli skipa og frá skipum til strandstöðva er einn aðalþátturinn við að gæta öryggis sæfarenda. Með fjarskiptum er einnig haldið uppi sambandi milli ættingja og vina, útgerðar og viðskiptamanna í landi frá þeim sem á sjónum eru. Þessi starfsemi byggist á því að strandstöðvar Landssímans hafi móttöku og svörun og hæfni á öllum hafsvæðunum við landið.

Um svæðið frá sunnanverðum Vestfjörðum um djúpmið Breiðafjarðar er það að segja að móttökuskilyrðin eru vond — það vond að hin lögbundna tilkynningarskylda hefur meira og minna fallið niður. Þetta svæði er ein fjölfarnasta skipaleið og veiðisvæði við strendur Íslands. Í bréfi til mín frá Kristjáni Helgasyni hafnarverði í Ólafsvík frá því í apríl s. l. segir, með leyfi forseta:

„Á s. l. hausti kom Ásgrímur Björnsson erindreki Slysavarnafélags Íslands til viðræðna við skipstjórnarmenn á Breiðafirði um þessi mál og kom það fram hjá skipstjórnarmönnum, að þeir ættu í erfiðleikum með að ná til Reykjavíkur á VHF, þótt endurbætur hafi farið fram á móttöku- og endurvarpsstöðinni á Kleifaheiði.“

Og einnig í sama bréfi: „Nú í vetur hafa hafnarverðir í auknum mæli orðið að senda tilkynningarskyldu til Reykjavíkur.“

Þá segir Kristján og: „Skipstjórnarmenn hafa orðið fyrir aðkasti vegna þess að þeir hafa ekki getað komið tilkynningarskyldu sinni til aðalstöðva skyldunnar og þá hefur verið auglýst eftir þeim í útvarpi og þeir fengið ádrepu, er í land hafi komið, þótt þeir hafi gert marga tilraun til þess að koma tilkynningarskyldu sinni á framfæri.“

Til þess að knýja á um úrbætur á strandstöðvaþjónustunni við Breiðafjörð höfum við Pétur Sigurðsson flutt eftirfarandi till. á Alþingi á tveim þingum:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að Landssími Íslands komi upp og starfræki strandstöð á Gufuskálum eða á öðrum stað á Snæfellsnesi, sem tryggi alhliða fjarskiptaþjónustu fyrir hafsvæðið frá sunnanverðum Vestfjörðum um djúpmið Breiðafjarðar suður fyrir Snæfellsnes.“

Í stað þess að flytja nú áðurnefnda tillögu fórum við þá leið að ég spyrði hæstv. samgrh. þeirrar spurningar sem fram hefur verið lögð á þskj. 70 og er svohljóðandi:

„Eru fyrirhugaðar einhverjar aðgerðir á vegum Landssíma Íslands til að bæta fjarskiptasamband og strandstöðvarþjónustu við skip á Breiðafjarðarmiðum?“

Og ég óska svars hæstv. sjútvrh. við fsp.