08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

114. mál, veðurfregnir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið í des. 1979 að það varð að ráði að útvarp veðurfregna frá strandstöðvum færi fram á vissum tímum á vinnutíðnum stöðvanna á bilinu frá 1600-2800 KHz eftir kali á tíðninni 2182 KHz. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að síðan mun það smám saman hafa farið að tíðkast að senda út frá nokkrum stöðvum veðurfréttir á metrabylgju. Síðan þetta hófst í des. 1979 hefur útvarp þetta verið jafnt og þétt aukið. Það kemur m. a. fram í töflu, sem ég er með hér, frá Veðurstofunni. Þar er upplýst um útvarpstíma veðurfregna frá strandstöðvum.

Útvarpað er frá 5 stöðvum, Ísafirði, Siglufirði, Neskaupstað, Hornafirði og Vestmannaeyjum, og er útvarpað frá öllum þessum stöðvum á tímanum 01:33, — hvað sem það eiginlega þýðir, það hlýtur að vera rúmlega 1 eftir miðnætti, — og svo 05:03 frá öllum stöðvunum aftur. Það er að vísu af einhverjum ástæðum örfárra mínútna munur á stöðvum. Þá er útvarpað frá þremur stöðvum, þ. e. Siglufirði, Neskaupstað og Hornafirði, kl. 10:48 og október til mars er útvarpað á sömu stöðvum kl. 16:48 og allt árið kl. 22:48. Þarna hefur orðið smám saman nokkur aukning á með árunum.

Þá segir í upplýsingunum, sem ég hef fengið frá Veðurstofu Íslands, að gert sé ráð fyrir að hægt sé að útvarpa sérstökum aðvörunum um veður með sama hætti á öðrum tímum, ef þörf er á. Þá segir hér: „Veðurstofunni hafa engar óskir borist um útvarp veðurfrétta til sjófarenda á öðrum tíðnum eða bylgjulengdum en að framan eru taldar,“ segir veðurstofustjóri. Jafnframt segir hann, að honum sé ókunnugt um að loftskeytamönnum á strandstöðvunum sé bannað að lesa veðurfregnir á metrabylgju. — Veðurstofan segir því næst:

„Veðurstofan hefur að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að veðurfregnum sé dreift til sjófarenda eftir þörfum. Fjárveitingar til Veðurstofunnar leyfa hins vegar ekki að greiðsla fyrir útvarp veðurfregna frá strandstöðvum verði aukin frá því sem nú er.“

Jafnframt fylgir hér með yfirlit yfir það gjald sem Veðurstofan greiðir fyrir þá þjónustu sem ég rakti áðan. Þetta er töluvert mikið, sundurliðað fyrir einstakar stöðvar, bæði línugjald og strandargjald, en kostnaðurinn er 534 495 kr. Þetta er ekki alveg heildarkostnaður á árinu 1982 en frá 1.1.–30.9. Ártalið kemur hér ekki fram, en mun vera 1982. Virðist þessi kostnaður vera 534 495 umrætt tímabil, svo að það má eitthvað við bæta sé um að ræða árið allt.

Ég hef einnig látið hafa samband við Póst og síma og vil ég, með leyfi forseta, lesa minnisblað sem ég fékk þaðan. Þar segir:

„Samkv. samkomulagi við Veðurstofu Íslands, gert í nóv. 1979, sendir Póst- og símamálastofnunin veðurfréttir til skipa um strandstöðvar á millibylgju á þeim tíma sólarhrings sem útvarp er ekki í gangi. Fyrir þessa þjónustu er greitt samkv. gjaldskrá stofnunarinnar, gr. 321 í V. kafla, en veittur er 50% afsláttur af venjulegu strandargjaldi líkt og veittur er fyrir veðurskeyti frá skipum til Veðurstofunnar. Á árinu 1981 kom í ljós að nokkrar strandstöðvar voru farnar að veita þessa þjónustu á metrabylgju vegna óska frá einstökum bátum. Gjaldskrárnefnd stofnunarinnar ræddi þetta á fundi sínum 3.3.1982 og var ákveðið að bjóða Veðurstofunni að senda veðurfréttir út jafnt á metrabylgju sem millibylgju gegn 25% hækkun á áður umsömdu gjaldi. Um mánaðamótin júní-júlí 1982 tilkynnti veðurstofustjóri, herra Hlynur Sigtryggsson, að Veðurstofan teldi sér ekki fært að taka að sér greiðslu fyrir þessa viðbótarþjónustu og mundi því ekki fyrir sitt leyti óska eftir henni.“

Í framhaldi af þessu sendi tæknideild rekstrardeild símskeyti til strandstöðvanna hinn 5. júlí 1982 með fyrirmælum um að senda veðurfréttir eingöngu á millibylgju, þó að sjálfsögðu væri heimilt að senda þær á metrabylgju til skipa sem óskuðu eftir fréttunum og vildu greiða fyrir sendingarnar samkv. gjaldskrá.

Um þetta mál hafði ekkert borist til samgrn. fyrr en fsp. kom hér fram. Er nú verið að athuga hvort unnt er að ná þessum endum saman. Hér er um að ræða um það bil 150 þús. kr. meiri útgjöld fyrir Veðurstofuna á ársgrundvelli, reiknast mér til, og kannske rúmlega það. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að það eru ekki mikil útgjöld þegar um öryggi sjófarenda er að ræða, en það er þó meira en örfáar krónur. Ég hef talið nauðsynlegt að skoða betur hvort 25% sé ekki of mikil hækkun, hvort kostnaðarauki Pósts og síma sé virkilega þetta mikill við að senda út á metrabylgju einnig.

Eins og kemur fram hjá Pósti og síma veita þeir nú mjög mikinn afslátt af sínum taxta, þ. e. 50% afslátt, og þeir telja að neðar verði ekki farið í gjaldtöku. Ég hef gefið fyrirmæli um að taka þetta mál upp og vita hvort ekki er hægt að leysa það.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að sumir smærri bátar hafa ekki þessa tíðni. Þó er mér tjáð að þeir séu mjög fáir, en tilfelli kunna þó að vera nokkur.