08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

141. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig lítil huggun fyrir mig að heyra að boltinn, eins og það var nefnt í þessu máli, sé hjá hæstv. ríkisstjórn. Það eykur mér ekki neinnar sérstakrar bjartsýni úr því sem komið er. Ég held líka að það verði að segjast eins og er, að boltinn hafi átt að heita að vera hjá stjórnarliðinu hér á haustdögum, þegar menn voru að ganga frá samningu fjárlaga, en allt um það liggur ljóst fyrir að það er ólíklegt að þessi nauðsynlega framkvæmd nái fram í ár. En þá er mikilsvert að setja sér eitthvert verklag, bæði vegna undirbúnings og nauðsynjar framkvæmdarinnar, að hún komist á á næsta fjárhagsári. Þótt Alþingi hafi ályktað í þessu efni hefur samt verið litið svo á, að framkvæmdavaldið sjálft og Alþingi þyrfti að ákveða til þess formlega fjárveitingu og væri með þeim hætti að slá því föstu að réttur aðili hafi tekið ákvörðun um framkvæmdir.

Ég vil benda á að hér er um mikið byggðamál að tefla og þeir sem við þau mál fást aðallega hafa fylgst með þessu og alveg nýlega rætt sérstaklega nauðsynina sem á er að þarna verði byggð hafnaraðstaða, — alveg sérstaklega vegna breytinganna á skipunum, en einnig af öðrum ástæðum, að menn geti bjargað sér til sjávarins. Á sínum tíma var íbúum Árneshrepps hjálpað með kaup á uppskipunarpramma, en nú er alveg liðin saga að þessi eini staður á landinu bjargi sér áfram með slíkan tækjabúnað.

Ég minni á að Byggðasjóður til að mynda hafði nokkra forgöngu um áætlun um byggingu fiskiskipahafnar í Bakkafirði norður. Það mál náði ekki fram að ganga í fyrra, en nú hefur formlega verið samþ. í Alþingi fjárveiting til þess arna og verið a. m. k. tillögur uppi um það, að af lánsfjármagni Byggðasjóðs verði ráðist í þessa framkvæmd. Ég vík því svona að hér í umr., svo menn hafi þá eitthvað handa í milli, að mér þætti mjög álitlegt, til þess að stofnun eins og Byggðastofnun gegni skyldu sinni, að þetta yrði næsta verkefni og menn réðu þann veg ráðum sínum að taka það fyrir þá á árinu 1984 og ganga að öðru leyti frá öllum undirbúningi, vegna þess að ég fíkist ekkert í þennan kostnað, sem hér er upp talinn af hæstv. samgrh. á verðlagi 1983, 10 millj. króna. Það verð ég að segja að mér finnst þetta ótrúlega lág fjárhæð, miðandi þó við að þetta sé nokkur lífhöfn þarna og hægt að athafna sig fyrir strandferðaskip í flestum veðrum.