28.10.1982
Sameinað þing: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

24. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, lýsti hér áðan í ræðu sinni ýmsum þáttum sem við þyrfti að hafa í góðri samningagerð. Hann lýsti þeim eiginleikum og eðlisþáttum, sem góðir samningamenn þyrftu að hafa, og það var ljóst að hér talaði maður sem þekkti eins og lófana á sér snilli og leyndardóma samningatækninnar eins og henni verði best beitt. Ósjálfrátt hlaut að koma í huga manns: Er það ekki skaði fyrir íslenska þjóð að slíkir menn skuli ekki vera notaðir meira við að gera þá áríðandi og erfiðu samninga sem Íslendingar þurfa hverju sinni að gera? Hvernig stendur á því að sjálfstæðismenn fá ekki meiri umsvif og meiri áhrif í þeim samningum sem verið er að gera? Skyldi það vera svo, að sjálfstæðismenn hafi ekki haft áhrif á samningagerð fyrir íslenska þjóð á undanförnum árum? Skyldu sjálfstæðismenn ekki hafa gert slíka samninga á undanförnum árum? Ég ætla ekki að fara mörgum orðum hér um þá raunasögu, en ég vil þó nefna lítillega tvö dæmi.

Sjálfstæðismenn gerðu á sínum tíma samninga um íslensku fiskveiðilögsöguna. Þeir gerðu þann samning við Breta að íslenska fiskveiðilögsagan skyldi aldrei nokkurn fima verða færð út fyrir 12 mílur nema með samþykki Breta eða úrskurði Alþjóðadómstólsins. Íslendingar brutu þann samning. Hvers vegna gerðu þeir það? Þeir gerðu það vegna þess að öll lífsafkoma og framtíð íslensku þjóðarinnar var í veði, hvorki meira né minna. Einfaldlega vegna þess að íslenska þjóðin gat ekki tekið áhættuna af því að standa við þann samning. Ég held að það séu fáir Íslendingar sem þora að hugsa þá hugsun til enda hvar Ísland væri statt í dag ef við hefðum haldið samning þeirra sjálfstæðismanna. Þeir menn, sem þann samning gerðu þá standa nú upp á Alþingi og vilja fá að gefa ráð um samningagerð.

Hitt dæmið, sem mér kemur í hug um reynslu og þekkingu þeirra sjálfstæðismanna í samningagerð, er sá samningur sem við dellum um nú, samningurinn um ÍSAL, um Íslenska álfélagið, samningurinn um álverksmiðju á Íslandi, samningurinn við svissneska fjölþjóðafyrirtækið Alusuisse. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þann samning heldur. Hann er þó þannig að Íslendingar fá nú orkuverð sem samsvarar 6.5 mills á orkueiningu á sama tíma og meðalverð í áliðnaði í löndunum í kringum okkur er 20 mills eða þrefalt hærra. En ekki bara það. Þessir snjöllu samningamenn, sem svo vel vita hvernig samninga skal gera, gerðu þennan samning þannig að í honum eru engin endurskoðunarákvæði. Hann gildir ekki bara með óbreyttu orkuverði til 1994. Það eru framlengingarákvæði í 20 ár í viðbót, sem eru erfið viðureignar, ef okkur tekst ekki að brjótast út úr þeim samningi á svipaðan hátt og við höfum orðið að brjótast út úr samningum sem þessir snillingar hafa gert.

Það er rétt að hér hefur staðið deila undanfarin misseri um þennan samning. Sú deila hefur annars vegar verið um það, hvort ÍSAL — og þar með Alusuisse hafi hagað verðlagningu á hráefnum og þjónustu til þessarar verksmiðju þannig að skattgreiðslur þeirra væru lægri en eðlilegt getur talist, og hins vegar um það, hvort unnt sé að fá þetta orkuverð hækkað. Ég hef nokkuð skoðað þessa samninga og ég hef nokkuð skoðað sögu þessa máls. Ég er alveg sannfærður um það, að Alusuisse hefur hagað verðlagningu á hráefni þannig, að skattgreiðslur eru hér lægri en eðlilegt gæti talist. Ég er ekki í neinum vafa um það að grunnurinn að því, að svo hefur verið unnið, eru skattalögin í Sviss. Undirstaðan undir því öllu saman er sú, að fyrirtæki greiða í Sviss miklu lægri skatta en í löndunum í kringum Sviss, allt að því helmingi lægri skatta en fyrirtækin mundu greiða í Þýskalandi og Frakklandi. Þetta verður síðan til þess að fjölmörg fjölþjóðafyrirtæki eiga heimkynni sitt í Sviss, þar sem skattgreiðslur eru lágar. Þessi fjölþjóðafyrirtæki eiga síðan dótturfyrirtæki víða um heim, ekki bara á Íslandi. Galdurinn er síðan sá, að haga verðlagningu á hráefnum og ýmissi þjónustu í gegnum móðurfyrirtækið í Sviss til þessara dótturfyrirtækja þannig, að hagnaður dótturfyrirtækjanna renni til höfuðstöðvanna í Sviss, þar sem skattgreiðslurnar eru lágar. Það er út af fyrir sig eðlilegt að þeir, sem reka þessi fyrirtæki, vilji reyna að haga málum á þennan hátt. Arðurinn rennur þess vegna til Sviss frá fjölmörgum þessara dótturfyrirtækja út um heim. Ég held að þarna sé kominn lykillinn að galdrinum á bak við svissneska efnahagsundrið, lykillinn að galdrinum á bak við uppbyggingu svissneska bankakerfisins.

Það er enginn vafi á því, að það er mikið fjármagnsflæði til Sviss einmitt á þennan hátt. Og það hlýtur að vekja spurninguna um það, hvort hér er eingöngu um að ræða deilu milli íslenskra stjórnvalda og þess fjölþjóðafyrirtækis sem rekur hér álbræðslu, hvort ekki væri eðlilegra að taka þetta mál upp að einhverju leyti við ríkisstjórn Sviss og kvarta yfir skattlagningarákvæðum þar. Ég held að hér hljóti að vera um að ræða vandamál fleiri landa en Íslands. Ég held að hér hljóti að vera um að ræða mál sem verði að taka til umræðu á alþjóðavettvangi. Og ég held að þetta mál hljóti aðvekja menn enn á ný til umhugsunar um hvað er í rauninni frjáls verslun. Frjáls verslun, er það bara niðurfelling á tollum? Nei, það er aldeilis öðru nær. Þar koma fjölmargir aðrir og miklu flóknari þættir inn. Við sjáum hvernig lönd beita ýmsum tæknilegum þröskuldum og stöðvun til þess að hamla gegn innflutningi, þó að þau í orði kveðnu virði alla þætti fríverslunarsamninga. Við sjáum hvað eftir annað hvernig ýmis lönd beita alls konar stuðningi við iðngreinar og atvinnuvegi, enda þótt þau haldi ákvæði um tollasamninga. Og einmitt inn í þetta hlýtur umræðan um skattlagningu í ýmsum löndum að koma.

Varðandi þann ágreining, sem upp hefur risið um skattlagningu ÍSAL eða Alusuisse hér á Íslandi, hefur það komið fram að endurskoðun Coopers & Lybrand alþjóða endurskoðunarfyrirtækisins er lokið. Ákvæði í samningi milli íslensku ríkisstj. og Alusuisse kveður á um að ef um ágreining er að ræða geta Íslendingar leitað til óháðs alþjóðlegs endurskoðanda, sem Alusuisse í þessu tilviki hefur samþykki. Ég hygg að deilan um greiðslu framleiðslugjaldsins, þessa skattlagningu aftur í tímann, sé tvíþætt. Annars vegar er um að ræða lagalegan ágreining um hvort Íslendingar geti innheimt skatta svo langt aftur í tímann. Greinir menn þar sjálfsagt á. Hins vegar er um að ræða hver upphæð slíkra skatta skuli vera, hversu réttmæt endurskoðun sé að því er snertir tölurnar sjálfar. Það er enginn vafi á því að meginstoð Íslendinga í þessari endurskoðun byggir á tveimur ákvæðum. Annars vegar ákvæði í aðalsamningi um það að viðskipti ÍSALs og Alusuisse skuli fara fram sem viðskipti milli óháðra aðila, þ.e. í gildi skuli vera „arm’s length pricing“. Hins vegar ákvæði í aðstoðarsamningi um það að Alusuisse skuli beita sinni þekkingu og reynslu á alþjóðavettvangi á sviði álviðskipta til þess að sjá ÍSAL. fyrir bestu kjörum sem um sé að ræða í þessum viðskiptum. Fyrir þetta fær Alusuisse greitt 2.2% af brúttósölu fyrirtækisins, en jafnframt 1.5 % í sölulaun af nettósöluverðmæti. Þarna er því um að ræða verulegar greiðslur sem til Alusuisse fara fyrir það að sjá til þess að ÍSAL nái þessum hráefnum á bestu hugsanlegum kjörum, á góðum kjörum. Endurskoðendurnir hafa hins vegar lýst því yfir, að „arm’s length pricing“ eða verð milli óháðra aðila á þessum vettvangi sé ekki auðvelt að skilgreina. Þar sé nokkurs konar bil sem ríki, þ.e. verð þetta liggi á ákveðnu bili. En með tilliti til ákvæða í hjálparsamningi um bestu kjör sé eðlilegt að miða við lægra stig þessa bils. Ég er sammála iðnrh. þegar hann segir að þær tölur, sem bresku endurskoðendurnir hafa lagt fram, séu hógværar.

Hitt kann að vera nokkur spurning, hvernig skuli síðan halda á málinu.

Það hefur komið hér fram að starfandi er sérstök viðræðunefnd milli iðnrn. og Alusuisse. Sú nefnd var skipuð í samráði við stjórnarandstöðuna. Sú nefnd er skipuð fulltrúum stjórnarandstöðunnar og í þeirri nefnd situr fulltrúi Sjálfstfl. Ég get tekið undir það, ég hygg að það hafi komið skýrt fram, að stjórnarandstöðunni sé fyllilega heimilt — og gæti gert það í fullu samráði — að skipta um fulltrúa í þeirri nefnd. Jafnframt hef ég skilið iðnrh. á þann veg, að hann telji eðlilegt að einhverjar breytingar geti orðið á nefndinni. Ég vil hins vegar segja það, eftir að hafa setið í þessari nefnd og tekið þátt í þeim viðræðum sem fram hafa farið, að mér þykir Alusuisse nokkuð hafa dregið fæturna í öllu þessu máli. Mér finnst framkoma Alusuisse bera þess vott, að þeir hafi ekki áhuga á að hafa frumkvæði að því að leysa þessa deilu, þeir hafi ekki áhuga á að koma með tillögur til lausnar. Og ég verð að segja það að mér finnst þeir hafa reynt að draga það að koma fram með upplýsingar, sem óskað hefur verið eftir, og mér virðist þeir hafa reynt að draga þessar viðræður á langinn. Þetta er mitt mat eftir að hafa starfað í þessari nefnd og verið svona í þokkalegum tengslum við allt málið.

Vel má vera að þessi viðleitni þeirra til að draga málið sé að einhverju leyti sprottin af ósk um að núv. iðnrh. eigi ekki eftir að verða eilífur í sínu embætti og að nýr maður komi í það embætti. Mér virðist líka að málflutningur Morgunblaðsins og að sumu leyti Sjálfstfl. hafi verið þess eðlis, að hann geti hafa vakið vonir hjá þessu alþjóðafyrirtæki um einhvern ágreining meðal innlendra aðila í þessu máli. Ég ætla ekki að fella neinn dóm um það hvort svissneski álhringurinn hefur framið brot á samningum með sínu athæfi eða hvort það er sviksamlegt á einhvern hátt. Menn kann að greina á um hvort framferðið sé ámælisvert, hvort það sé gagnrýnisvert eða refsivert. Ég hygg þó að fyrirtæki eins og Alusuisse haldi um það marga stjórnarfundi hvernig haga megi málum svo að skattgreiðslur verði sem minnstar. Ég hygg að það sé venja alþjóðahringa og fjölþjóðafyrirtækja að haga verðlagningu hráefna á þann hátt sem ég hef lýst áður, í gegnum höfuðstöðvar sínar til dótturfyrirtækja, til þess að draga hagnaðinn inn til Sviss.

Þó að ég geri mér ljóst að hér er um talsvert flókið mál að ræða, þar sem ákvæði samningsins er ekki að öllu leyti skýrt um það hvernig meðhöndla skuli, þá virðist mér eftir atvikum eðlilegt, þegar nú liggja fyrir endanlegar niðurstöður endurskoðenda, sem ráðnir hafa verið til að endurskoða þessar tölur í samræmi við ákvæði samningsins, að lagt sé á ÍSAL framleiðslugjald í samræmi við þeirra niðurstöður. Eins og fram kom í máli iðnrh. telur viðræðunefndin að rannsóknum á þessari verðlagningu aftur í tímann sé lokið. Fari svo að Íslendingar leggi síðan skatt á ÍSAL í samræmi við þessar niðurstöður, þá á Alusuisse auðvitað annars vegar möguleika að óska eftir einhvers konar viðræðum, þar sem þeir skýra sitt mál, eða vísa málinu til gerðardóms í samræmi við ákvæði aðalsamnings. Upphæðir í þessu máli hafa komið hér fram. Ef ÍSAL er gert að greiða framleiðslugjald eða skatta í samræmi við þessar endurskoðuðu tölur endurskoðendanna, þá hækka skattgreiðslur þeirra um 6.2 millj. kr. Hér er um að ræða endurmat á súrálsverði, rafskautaverði og endurskoðaðar afskriftir og skattinneign. Afkoma ÍSALs mun snúast frá því að vera jákvæð um milljónir dollara, sem hún er nú, yfir í að verða neikvæð um 1.8 millj. dollara.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, en ég tek undir með þeim sem segja að áherslur í þessu máli séu á þann veg, að auðvitað eru það meginhagsmunir Íslendinga að raforkuverð verði hækkað, því að þegar horft er fram í framtíðina er þar um miklu, miklu meiri upphæðir í íslenskt þjóðarbú að ræða. Þær skattgreiðslur sem hér eru metnar gætu numið rúmum 90 millj. ísl. kr. á núverandi gengi í eitt skipti fyrir öll. Hækkun orkuverðs til samræmis við það sem gerist í löndum í kringum okkur gæti hins vegar hæglega numið 150–250 millj. ísl. kr. árlega. Ég hygg líka að stækkun álversins geti verið ákjósanlegur þáttur í orkuiðnaði Íslendinga ef vel tekst til. Það er brýn nauðsyn fyrir okkur að fá fram endurskoðun á orkuverðinu. Enda þótt samningurinn bjóði ekki upp á endurskoðun, enda þótt hann gildi til ársins 1994, með framlengingarákvæðum til 2014, vil ég ekki trúa því að Alusuisse setjist ekki að samningaborði um breytt orkuverð. Það er öllum ljóst að frá því að samningurinn var gerður eru gjörbreyttar aðstæður, gjörbreyttir tímar, gjörbreyttur heimur. Langtímasamningur í þessum skilningi getur þess vegna ekki haldist. Á alþjóðavettvangi er það algengara að langtímasamningur sem þessi haldi ekki en að hann haldi. Hagsmunir Íslendinga eru því þeir, að orkuverð verði fært til samræmis við það sem gildir í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, jafnframt því sem inn í samninginn komi verðbótaákvæði miðað við framtíðina.

Ég vil sérstaklega minna á að þegar samningurinn var gerður höfðu Íslendingar ekki þau fríðindi gagnvart tollum á innfluttu áli til Efnahagsbandalagsins sem nú gilda. Ef samkeppnisaðstaða ÍSALs er athuguð koma mörg atriði til greina. Ef athugað er hversu hátt orkuverð þeir geta greitt er það ekki bara flutningskostnaður til landsins og orkuverð sem máli skiptir, heldur einnig tollar inn á markaðssvæðið. Til hækkunar hlýtur því að koma. Og ég ítreka það að ég vil ekki trúa því, að svissneska fyrirtækið setjist ekki að samningaborði við Íslendinga og semji um eðlilegt orkuverð, slíkt stórmál sem það er fyrir íslensku þjóðina. En fáist það ekki til að setjast að slíku samningaborði, vil ég ekki útiloka þann möguleika að Íslendingar hækki orkuverðið einhliða, þó að ég voni að til slíks þurfi ekki að koma. Jafnframt verður í þessum samningi að endurskoða skattformið. Það verður að endurskoða ákvæði um skattgreiðslur, endurskoða ákvæðið um framleiðslugjald með það fyrir augum að skattgreiðslur verði óháðari nettóhagnaði fyrirtækisins. Með þeim hætti eru minni líkur á slíkum deilum í framtíðinni sem hér hafa nú risið um fortíðina.

Við endurskoðun samningsins hljóta að koma til umræðu ákvæði um meiri áhrif íslensku stjórnarinnar á stjórn ÍSALs, ákvæði um eignaraðild Íslendinga að þessu fyrirtæki. Og ég tel alveg sjálfsagt að semja um stækkun á fyrirtækinu með aðild þriðja aðila. Í slíkum samningum hljóta að koma upp umræður um byggingu rafskautaverksmiðju hér á landi. Slík verksmiðja gæti verið þarfur viðbótarþáttur í atvinnulíf Íslendinga, þó að hún sé í eðli sínu e.t.v. ekki orkufrekur iðnaður, nýti ekki nema u.þ.b. 60 kwst. á tonn af framleiddum rafskautum. En umfram allt hljótum við í þeim viðræðum, sem fram verða að fara og það innan tíðar, að leggja áherslu á það að inn í samninginn komi endurskoðunarákvæði. Við höfum orðið áþreifanlega vitni að því og fórnarlömb þess hversu hratt aðstæður breytast í heiminum um þessar mundir. Flest bendir til að sá hraði verði ennþá meiri á komandi árum. Það er því algjörlega óumflýjanlegt að inn í samninginn komi endurskoðunarákvæði, ákvæði um umræður og endurskoðun með ákveðnu millibili.

Staðan er nú sú, að mat á þessum viðskiptum aftur í tímann liggur fyrir, rannsóknum aftur í tímann á reikningum ÍSALs er lokið af hálfu hinna alþjóðlegu endurskoðenda og viðræðunefnd telur að þar með sé þeirri rannsókn lokið. Fram undan eru hins vegar verulegar viðræður um framtíðina.

Ég harma að vissu leyti að þessi till. þeirra sjálfstæðismanna skyldi koma hér fram nú. Ég óttast að tillöguflutningurinn sé að vissu leyti pólitík, pólitík sem miði að því að koma höggi á iðnrh. fyrst og fremst, deila á hann fyrir frammistöðu hans í málinu. Það má vel vera að margt megi að hans málflutningi finna. Ég ætla ekki að gera það að umræðuefni hér. En hitt er óneitanlegt, að út á við er nauðsynlegt að Íslendingar sýni sem mesta samstöðu í þessu máli. Ég tel það óheppilegt að umræður hér snúist að verulegu leyti á þann veg að skilja megi það sem ágreining meðal Íslendinga um hvernig halda skuli á málinu. Ég tel það óheppilegt að hv. 6. þm. Reykv. skuli lýsa því hér yfir í ræðustól að sennilega hafi iðnrh. aldrei ætlað sér að ná samningum í þessu máli. Það hlýtur að veikja aðstöðu okkar út á við. Telji sjálfstæðismenn að iðnrh. hafi haldið of pólitískt á þessu máli og með hagsmuni eigin flokks um of fyrir augum, þá hafa þeir sjálfir fallið í sömu gryfju með þessum tillöguflutningi. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Ég vil hins vegar segja það að óski stjórnarandstaðan eftir breytingum á viðræðunefndinni, sem með þessi mál fer, skal ég reyna að leggja mitt af mörkum til þess að eðlilegar breytingar geti orðið á nefndinni. Ég hygg að unnt sé að ná samstöðu um það og að stjórnarandstaðan fái að koma sinum viðhorfum á framfæri og hafa þau áhrif sem eðlilegt getur talist í framgöngu þessa máls.