08.02.1983
Sameinað þing: 49. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

165. mál, vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu við að bæta ræðu hv. frsm. þessarar þáltill. Sem þm. Vesturl. tók ég fúslega þátt í því að flytja þessa till., enda höfum við fengið um það ákveðna áskorun, sem okkur barst öllum þm. Vestfjarða og Vesturlands frá íbúum á þessu svæði, áskorun eða undirskriftasöfnun sem var miklu víðtækari en almennt gerist, sem sýnir mikilvægi þessa máls í augum heimamanna sem eðlilegt er.

Fjvn. Alþingis var á ferð um þetta svæði sumarið 1981. Áttum við þess þá kost að ræða við heimamenn um þeirra vandamál. Kom þá fram einmitt þessi skoðun frá mönnum beggja megin við fjörðinn að þarna væri verkefni sem þyrfti að fara að vinna að, þ. e. að undirbúa og rannsaka vegarstæði yfir Gilsfjörð. Er ljóst að hér er hreyft máli sem má ekki dragast að hefja undirbúning á, könnun á því hvernig hagkvæmast væri að leysa þetta verkefni í samgöngumálum á þessu svæði. Eins og kom fram hjá hv. frsm. þá er veigamikill þáttur þessa máls sameiginleg heilsugæsla sem fer fram á öllu svæðinu, með því að íbúar Austur-Barðastrandarsýslu sækja heilsugæslu til heilsugæslustöðvar sem er staðsett í Búðardal. Mér finnst það þess vegna mjög mikilvægt að Alþingi samþykki slíka þáltill. og þannig fáist opinber viðurkenning á þessum málum með því að láta fara fram rannsókn á hagkvæmni þessa verkefnis. Ég vil undirstrika að mér finnst ákaflega mikilvægt að raunhæft samstarf takist milli þm. Vestfjarða og Vesturlands í að fylgja þessu máli fram. Það er mjög mikilvægt og ég vil leggja sérstaka áherslu á að fylgja þessu máli eftir. En ég vildi gera þá athugasemd að ég tel að réttara væri að þessari till. væri vísað til fjvn.