01.11.1982
Efri deild: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

41. mál, fóstureyðingar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt hafi ég valdið hv. 4. þm. Vestf. vonbrigðum með orðum mínum. Það var ekki beinlíms ætlunin. Við höfum iðulega rætt um þessi mál og vitum nokkurn veginn hvor annars hug til þeirra.

Hv. 4. þm. Vestf. talaði um að hafa skyldi það sem sannara reynist. Ég er honum alveg sammála í því. Þess vegna og ekki síst þess vegna hef ég lagt til þá starfsreglu, og vonast til þess að fleiri fylgi henni í heilbr.- og trn., að við stofnum til þess að hafa samband við framkvæmdaaðila þessara laga. Ég fékk reyndar að heyra það af niðurlagi ræðu hv. þm. að hann er alls ekki á móti þeirri málsmeðferð sem ég lagði hér til. — Ég stóð kannske upp fyrst og fremst vegna þess að mér þótti heldur mikill þjóstur í hans máli hér og átti ekki von á því að hann tæki orðum mínum eins og raun bar vitni. En við niðurlag ræðunnar lagaðist þetta nokkuð.

Hv. þm. sagði að fóstureyðingar væru í raun frjálsar hér á landi. (ÞK: Ég sagði að ég hefði sagt að þær væru ævinlega frjálsar eða svo gott sem.) Svo gott sem. Sé það og komi það í ljós á grundvelli þeirrar athugunar sem við stöndum vonandi saman um að gera í heilbr.- og trn., þá er ekki farið að lögum, það er alveg greinilegt, og ég vil fá úr því skorið.—En ekki meira um þetta mál á þessu stigi.