09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

Um þingsköp

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Þessi aths. um fundarstjórn byggðist líka á vanþekkingu. Satt að segja verða þeir hv. þm. sem eru bráðum búnir að sitja í fjögur ár og vilja halda áfram að fara að kynna sér eins einfalda hluti og það, að stjfrv. ganga fyrir, hafa forgang fram yfir frv. einstakra þm. (HBl: Það fer eftir réttlæti hæstv. forseta.) Það fer ekkert eftir því heldur eftir hefð, aldagamalli hefð sem var til áður en afi þessa skrifara vors var fundarstjóri hér og sá höfðingi fór stranglega eftir. Hv. þm. minnti á, og það kom vel á vondan, að fulltrúar þingflokkanna hefðu ekki fengið tækifæri til að tala í málinu. Fulltrúar beggja stjórnarandstöðuflokkanna höfðu fengið það, sem er meginmál þegar þannig stendur á. En það var í samráði við hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánsson, sem hafði beðið um orðið, að þessari umr. var frestað. Pálsbréf hafa ekkert að segja í þessu falli.