15.02.1983
Efri deild: 44. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

190. mál, orkulög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagði að þetta frv., sem hér er til umr., væri borið fram sérstaklega, en ekki látið bíða frv. til orkulaga, en hann sagði núna að heildarendurskoðun orkulaga væri um það bil að ljúka. Síðast vék hæstv. ráðh. að endurskoðun orkulaga snemma á þessu þingi. Það var til umr. þá frv. til nýrra orkulaga, sem liggur fyrir þessari deild. Þá gaf hæstv. ráðh. þá yfirlýsingu, að það yrði lagt fram stjfrv. fyrir áramót. (Iðnrh.: Ég vonaðist til þess.) Hæstv. ráðh. segir núna að hann hafi vonast til þess. Ég man ekki betur en það væri ótvíræð yfirlýsing gefin þá, en við skulum ekki gera það að höfuðmáli hér.

Það sem er höfuðmál þessa er að hæstv. ráðh., sem er búinn að vera lengst af iðnrh. síðan 1978, hefur þvælst fyrir endurskoðun orkulaganna eins og hann hefur haft möguleika til. Hvers vegna? Ég hef látið þess getið, að mér komi ekki á óvart að það sé m. a. eða kannske fyrst og fremst vegna þess að í einu grundvallaratriði varðandi skipulag orkumála hefur verið ágreiningur milli hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. Ég hef látið mér koma til hugar að þetta væri ein meginástæðan fyrir þessari töf, og er það kannske velviljaðasta skýringin sem hægt er að finna á þessum drætti.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er til breytinga á orkulögum. Þar er gert ráð fyrir að inn komi nýtt ákvæði í orkulög, ný grein bætist við orkulög, þar sem tekið er fram að breytingar á verðákvæðum í gjaldskrám orkufyrirtækja skuli háðar samþykki ráðh. orkumála. Það er í orkulögum núna ákvæði varðandi gjaldskrár orkufyrirtækja. Þau ákvæði er að finna í 25. gr. orkulaga og 29. gr. Ég tók ekki eftir því að hæstv. ráðh. viki að þessum ákvæðum, sem eru í orkulögum. Það var kannske ekki tilviljun að hæstv. ráðh. gerði það ekki.

Það er sumt í þessu máli eins og það er hér lagt fram með nokkuð undarlegum hætti. Í grg. með frv. segir að orkufyrirtæki í landinu séu nú öll háð opinberu eftirliti með verðlagningu á orku, nema Landsvirkjun. Hvers vegna eru þessi orkufyrirtæki landsins háð opinberu eftirliti? Hæstv. ráðh. sagði það ekki, en það er samkv. þeim ákvæðum í orkulögunum sem ég vitnaði til áðan en hæstv. ráðh. minntist ekki á. Það væri ástæða til þess að spyrja: Fyrst að öll orkufyrirtæki landsins eru núna háð opinberu eftirliti með verðlagningu á orku nema Landsvirkjun, hvers vegna hljóðar þetta frv. þá ekki um breytingar á lögum um Landsvirkjun? Hvers vegna ekki, ef öll önnur orkufyrirtæki eru háð opinberu eftirliti á verðlagningu? Ég hygg að hæstv. ráðh. þurfi að skýra þetta, og það er ýmislegt fleira sem þarfnast skýringa varðandi þetta mál.

Í orkulögum segir nú, að ráðh. skuli staðfesta gjaldskrána hjá orkufyrirtækjum. Þetta á að skilja svo, að ráðh. geti aðeins staðfest eða synjað gjaldskrá sem eigendur orkufyrirtækja hafa sett sér, en samkv. þessu ákvæði hefur hæstv. ráðh. ekki heimild til að setja gjaldskrá. Hins vegar hafa afskipti ráðh. af gjaldskrá byggst á verðstöðvunarlögum sem giltu frá því árið 1970 og til ársloka 1981. Meðan verðstöðvunarlögin voru í gildi hafði hæstv. ráðh. m. ö. o. heimild í þeim lögum til að ákveða gjaldskrána. En síðan verðstöðvunarlögin féllu úr gildi hefur ráðh. ekki haft neina heimild til afskipta af þessum málum umfram það sem orkulög gera ráð fyrir. Þannig er háttað hinum almennu reglum sem nú gilda um þetta efni.

En víkjum þá að Landsvirkjun sérstaklega. Í orðum hæstv. ráðh. og samkv. grg. frv. verður ekki annað séð en frv. sé til komið vegna Landsvirkjunar. Það er auðvitað rétt að hin almennu ákvæði orkulaga í þessu efni ná ekki til Landsvirkjunar, vegna þess að það eru sérákvæði í landsvirkjunarlögunum um þessi efni. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það. Og ég hygg að hann byggi afstöðu sína og sinn málflutning á því. En í lögum um Landsvirkjun er ákveðið að stjórn fyrirtækisins ákveði gjaldskrár. Meðan verðstöðvunarlögin giltu eða fram til ársloka 1981 var valdið hjá ráðh. til þess að ákveða þetta. Síðan hefur það ekki verið.

Þetta er ákaflega þýðingarmikið mál fyrir Landsvirkjun. Um þessar mundir eru ýmis þýðingarmikil atriði á döfinni varðandi framtíð Landsvirkjunar, svo sem við þekkjum, vegna þess að nú er gert ráð fyrir að Laxárvirkjun sameinist Landsvirkjun svo sem kunnugt er. Með tilliti til þessa hefur þótt nauðsynlegt að setja Landsvirkjun ný lög. Í frv, að nýjum lögum um Landsvirkjun, sem eignaraðilar hafa komið sér saman um, ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, og var gengið frá 28. jan. s. l., að ég hygg. er það óbreytt að heimild til að setja gjaldskrá er í höndum fyrirtækisins sjálfs. Í nýju frv., sem er búið að samþykkja af eignaraðilum Landsvirkjunar, er gert ráð fyrir að það sé sama ástand í þessum efnum hvað varðar Landsvirkjun og verið hefur, og samið er um það. En þetta frv., sem við hér ræðum, felur í sér riftun á þessu samkomulagi. Það var samið um þetta milli eignaraðila. En það er rétt að hæstv. ráðh. hafði gert kröfu um að undir hans valdsvið félli að ráða gjaldskrám fyrirtækisins. Sú afstaða er í samræmi við það frv. sem hæstv. ráðh. leggur hér fram. En þetta var ekki niðurstaðan af samningum eignaraðila Landsvirkjunar. Í samningagerð eignaraðila féllu fulltrúar ráðh. frá kröfu ráðh. gegn tilslökun af hálfu Reykjavíkur og Akureyrar um önnur ákvæði frv.-draganna.

Mér hefur þótt rétt að láta þetta hér koma fram í þessum umr., vegna þess að það snertir ekki einungis þetta frv., sem við nú ræðum, heldur er frv. sjálft og tilgangur þess, eins og lýst er í grg. með frv., með slíkum ólíkindum að mestu furðu sætir.

Ég sagði áðan, þegar ég vék að ákvæðum orkulaga um þessi efni, að það væri hlutverk ráðh. að staðfesta eða synja gjaldskrám orkufyrirtækja, en ekki að ákveða sjálfur hver gjaldskráin skyldi verða. Þetta hefur verið svo síðan verðstöðvunarlögin féllu úr gildi. En hæstv. ráðh. hefur verið að taka sér vald, sem hann hefur ekki, eftir að verðstöðvunarlögin féllu úr gildi til þess að ákveða gjaldskrár orkufyrirtækja. Þetta hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir orkufyrirtæki Reykjavíkurborgar, rafmagnsveituna og hitaveituna. Mér er tjáð að í undirbúningi sé eða athugun af hálfu Reykjavíkurborgar málsókn á hendur ríkinu til bóta fyrir það tjón sem hæstv. ráðh. hefur valdið með afstöðu sinni til þessara mála.

En þetta mál er víðtækt og snertir miklu fleiri aðila en Reykjavíkurborg. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvaða brögðum hæstv. iðnrh. hefur beitt til að koma í veg fyrir hækkun á gjaldskrám Hitaveitu Reykjavíkur, sem hafa verið nauðsynlegar til að standa undir rekstri og framtíðaröryggi þessarar orkustofnunar og sem líka hefði stuðlað meira en margt annað að jöfnuði í hitunarkostnaði landsmanna. Það er hart að æðsti maður orkumálanna í landinu, sem ekki lætur sér fátítt um það óréttlæti sem gildir í húshitunarmálunum og misrétti, skuli standa þver í vegi fyrir því að það skuli vera gerðar ráðstafanir sem m. a. stuðla að auknum jöfnuði í þessum málum.

En það er að sjálfsögðu ekki höfuðatriði að það sé jöfnuður á háum hitunarkostnaði, heldur er nú höfuðatriðið að lækka hitunarkostnaðinn almennt. Það er líka sorgarsaga hvernig hæstv. ráðh. hefur tekið á því máli. Það er svo kunnugt að ég skal ekki fara út í almennar umr. um það efni.

En mér þykir hlýða að víkja að því hér, að á síðasta þingi var borið fram hér í þessari hv. deild frv. til l. um jöfnun hitunarkostnaðar af hv. þm. Eiði Guðnasyni og Agli Jónssyni ásamt mér. Hliðstætt frv. var áður fram borið og var þá þriðji heiðursmaðurinn flm. auk mín, þ. e. hv. þm. Stefán Jónsson.

Það hefur í öllum umr. um þessi mál í þessari deild og raunar víðar komið fram það sem við verðum að ætla samstöðu í þessu máli. Þeim mun hörmulegra er að hæstv. ráðh. skuli ekki hafa haft tilburði til að nota þá samstöðu til að þoka þessum málum áfram og ná slíkum árangri sem hefði átt að vera hægt að ná með skeleggri forustu.

Þessu frv., sem lagt var fram á síðasta þingi hér í þessari hv. deild, var vísað til ríkisstj. með sérstakri samþykkt, þar sem m. a. var tekið fram að við endurskoðun þessara mála verði tekið sérstakt tillit til efnisþátta frv., en það gefur mér sérstakt tilefni til að minnast á þetta núna. Án þess að ég ætli að fara að lýsa frv., var einn meginþáttur þess sá, að komið væri upp ákveðinni viðmiðunarreglu sem ákvarðaði hvað mikið misrétti yrði þolað í upphitunarmálunum. Sú regla var þannig undirbyggð, að þar komi til góða á sinn hátt bæði niðurgreiðsla á hitunarkostnaði og eðlileg hækkun á gjaldskrám ódýrustu hitaveitna. Og ég verð að segja að ekki er nú mikil ástæða til að gefa hæstv. iðnrh. auknar heimildir til að standa þversum í þessum málum eins og hann hefur gert. Það virðist vera meiri ástæða að athugað verði gaumgæfilega með hverjum hætti er hægt að stöðva valdníðslu hæstv. ráðh. í sambandi við gjaldskrár orkufyrirtækja í landinu. Ég segi valdníðslu, eftir að niður er fallin sú heimild sem hann hafði með verðstöðvunarlögum og féll niður í árslok 1981, því að hæstv. ráðh. hefur ekki heimild til að ákveða gjaldskrár samkv. gildandi lögum.

Það eru þessar almennu aths. og hinar sérstöku aths. varðandi Landsvirkjun, sem ég hef hér vikið að, sem ég taldi rétt að kæmu strax fram við 1. umr. En auðvitað geri ég ráð fyrir að allt þetta mál þurfi að athuga af mikilli kostgæfni í hv. iðnn., sem ég geri ráð fyrir að málið komi til, en þar á ég sæti.