15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. 2. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég hef ekki mörgum orðum að bæta við það sem þegar hefur hér fram komið. Við fengum í fjh.- og viðskn. nokkrar upplýsingar um tilhögun þess skatts sem hér er lagt til að lagður verði á. Vegna mistaka bárust þær upplýsingar ekki í mínar hendur fyrr en núna fyrir korteri eða svo, en það er hvorki við formann n.ríkisstj. þar að sakast. Þær upplýsingar breyta þó engu um það sem áður var fram komið um afstöðu okkar þm. Alþfl. Við teljum mjög óeðlilegt að gera ráð fyrir því að nú þegar verði áætlaðar einhverjar tilteknar tekjur í gengismun af skreiðarbirgðum, sem fyrir eru í landinu og vitað er að mjög miklir söluörðugleikar eru á. Hvað þá heldur að beinlínis sé ráðgert að slegið sé lán út á slíkan áætlaðan gengismun, sem síðan sé ráðstafað af tilteknum aðilum m. a. til þeirra fyrirtækja, sem væntanlega eiga síðar að greiða þennan gengismun, til þess að greiða afborganir af viðkomandi láni. Með þessum hætti er raunverulega verið að neyða fyrirtækin til þess að taka lán hjá sjálfum sér að óþörfu og út í hött.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en lýsi þeirri afstöðu minni og þm. Alþfl. í þessari deild, að við munum greiða atkv. gegn þessari ráðstöfun, jafnframt því sem ég ítreka það að við höfum frá upphafi, frá því að brbl. ríkisstj. fyrst komu fram, lýst því yfir að við værum andvígir frv. Við höfum ítrekað þá afstöðu okkar við afgreiðslu málsins fyrst í Ed. og síðan við allar afgreiðslur hér í Nd. Við höfum ávallt staðið við allt það sem við höfum sagt í málinu og við ætlum okkur að sjálfsögðu að standa á okkar yfirlýsingum og okkar afstöðu við 3. umr. málsins og greiðum atkv. gegn þessu frv., sem er ósanngjarnt og óréttlát aðför að launafólki í landinu.