16.02.1983
Sameinað þing: 52. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. flutti ákaflega undarlega ræðu hér áðan um hið svokallaða álmál. Ræður ráðh. bera nú orðið flestar sama keim. Iðnrh, er nefnilega Íslendingur og það mætti skilja á ræðu hans að hann væri sá eini í þessu landi. Hann er Íslendingur að berjast við óvinveitta útlendinga og allir, sem ekki eru sammála honum, eru nánast þjóðníðingar eða föðurlandssvikarar. Til þess að finna þessum orðum sínum stoð hikar ráðh. ekki við að halla réttu máli eða beita rangfærslum með slíkum endemum að a. m. k. síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum minnist ég þess ekki að nokkur íslenskur ráðh. hafi orðið uppvís að ósannindum í sama mæli á Alþingi Íslendinga og iðnrh. hefur orðið. Ég held að það væri hreinlega ástæða til að velta þessum málflutningi svolítið fyrir sér. Halda menn að það sé líklegt að staðan sé sú eftir tveggja ára þóf í þessari deilu, að þrír stjórnmálaflokkar á Íslandi séu hallir undir erlendan auðhring og vilji ganga helst í fangið á honum, á móti iðnrh. sem sé að gæta hagsmuna Íslendinga? Halda menn virkilega að staðan sé þannig? Ég er ansi hræddur um að það sé öðruvísi sem þetta mál snýr.

Iðnrh. sagði hér áðan að hann hefði gert sér vonir um það að hægt væri að stilla menn saman í þessu máli, stilla menn saman, Íslendingar stæðu saman í þessu máli gegn erlendu óvinveittu auðafli. Og hvernig gerist það? Jú, hér eru fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka á Alþingi með yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar, sem allir eru sammála um það að reyna til þrautar samningaleið. Á móti þeim stendur iðnrh. einn með sinn flokk með kannske 14–16% atkvæða hjá íslensku þjóðinni. Hann leyfir sér að standa einn á móti fulltrúum allra hinna flokkanna um málsmeðferð. Og undir hvaða baráttuorði? Hann er að reyna að stilla menn saman til átaks í þessu máli. Finnst mönnum þetta trúverðugur málflutningur? Hvernig fer nú iðnrh. að því að stilla menn saman í átaki í þessu hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar? Á sama tíma og fyrir liggur í ríkisstjórn Íslands till. frá formanni Framsfl. um ákveðna málsmeðferð, um það að fallist verði á að leggja eldri deilumálin í gerð gegn því að hefja samningaviðræður nú þegar um endurskoðun orkusamningsins, á sama tíma og slík till. liggur fyrir í ríkisstj. og vitað er að hún hefur samþykki ráðh. Framsfl. og þeirra ráðh. sjálfstæðismanna sem eru í ríkisstj., hvað gerir iðnrh. þá til að stilla menn saman sem er hans aðalbaráttumál? Hann grípur til einhliða aðgerða, einhliða bakfærslu á þessum sköttum án þess svo mikið sem að hinir ráðherrarnir viti hvað er að ske.

Svo stendur iðnrh. hér upp á Alþingi og segir: Það eru mér vonbrigði að ekki hefur tekist að stilla menn saman í þessu máli. Einn maður er að hlaupa út undan sér og taka einhliða ákvarðanir hingað og þangað, en iðnrh., þetta sameiningartákn okkar í þessu máli, sem er að berjast fyrir því að ná samstöðu og stilla menn saman, vinnur á þennan hátt. Þannig mætti lengi rekja mál.

Iðnrh. sleit einhliða viðræðum við Alusuisse í júní árið 1982 með talsvert miklum yfirlýsingum. Það var gert án þess að álviðræðunefnd, sem var skipuð til að standa í þessum viðræðum, vissi um það, án þess að henni væri tjáð það. Af hverju gerði iðnrh. það einhliða án þess að bera sig saman við álviðræðunefndina? Af því að hann var að reyna að stilla menn saman væntanlega. Þannig mætti lengi rekja.

Eftir að svissneski álhringurinn sendi þó bréf 10. nóv. og bauð upp á samningaviðræður á þann hátt að það var enginn vandi fyrir hina íslensku þjóð að ganga til samningaviðræðna á þeim grundvelli, til hvers sem þær hefðu svo leitt, og meiri hl. álviðræðunefndar var þeirrar skoðunar að slíka leið ætti að reyna sagði iðnrh. nei. Hann kom í sjónvarpið og sagði: Það er enginn árangur af viðræðum við þessa menn. Og af hverju sagði hann nei, þó að meiri hl. álviðræðunefndarinnar og meiri hluti fulltrúa hinna stjórnmálaflokkanna væri þeirrar skoðunar að sjálfsagt væri að reyna ákveðna leið í þessu efni? Ætli það hafi ekki verið af því að hann væri að reyna að stilla menn saman í þessu máli?

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta til þess að öllum verði ljóst að iðnrh. hefur reynt að leika einleik í þessu máli á allan hátt. Hann hefur hunsað skoðanir annarra stjórnmálaflokka og annarra fulltrúa, en í hvert skipti sem þeir hafa leitað samstöðu eða mótmælt, þá hafa þeir verið að berjast gegn hagsmunum Íslendinga, hvorki meira né minna. Hérna stendur iðnrh. sem hinn eini sanni Íslendingur í stöðugri baráttu fyrir hagsmunum Íslendinga, bókstaflega á móti öllum hinum. Meira að segja flokksbræður hans ganga hér hljóðir um ganga á meðan þessar umr. fara fram.

En það er ekki bara þessi samstilling hæstv. ráðh. sem hefur farið fram á þennan hátt, heldur hefur málflutningurinn verið þannig, ekki síst í ræðu hans hér áðan, að með algerum eindæmum er. Hann vitnaði hér áðan til þeirra manna sem vilja leggja allt í sölurnar til þess að setjast að málamyndasamningaborði með Alusuisse, gefa Alusuisse forgjöf. Hvaða menn á iðnrh. við? Hvað er hann að meina? Til hvers er svona málflutningi beitt? Hvaða Íslendingur er það, sem á að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar, sem er tilbúinn að gefa allt, láta allt í sölurnar til þess að setjast að málamyndasamningaborði? Hvers konar málflutningur er það sem hér er um að ræða? Þessir menn, segir iðnrh., vilja fallast á stækkun álversins án nokkurra skilyrða. Hvernig getur iðnrh. fundið þessum orðum sínum stað? Hann er horfinn hér úr þd. nú. Vegna hvers? Vegna þess að honum finnst erfitt að hlusta á sannleikann. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ég held að honum væri sæmra að vera hér inni undir þessum umr.

Það er of langt mál að rekja hér hvernig málflutningur iðnrh. og Þjóðviljans hefur verið í þessum málum. Hann er með algerum eindæmum. Þar hefur ekki verið hikað við að snúa staðreyndum gersamlega við. Ég hef oft sagt að þeir menn sem á þannig málflutningi þurfa að halda búi ekki yfir góðum málstað. Það segir sína sögu.

Það er rétt að nú hefur einhliða verið bakfærður nokkur hluti af þeim sköttum sem Coopers & Lybrand telja að Alusuisse eða ÍSAL eigi að greiða hér á landi. Skyldi það nú vera svo, að við hinir höfum verið algerlega á móti því að taka harkalega á álhringnum varðandi þessar skattagreiðslur? Ég man ekki betur en ég hafi fyrstur hreyft þeirri hugmynd í álviðræðunefnd að bakfæra þessa skatta ef engir samningar næðust. Þá var iðnrh. og hans menn þeirrar skoðunar að þeir þyrftu sjálfir að leita eftir gerðardómi til þess að slíkt væri hægt. Mér fannst þá eðlilegra, ef engir samningar næðust, að við bakfærðum þessa skatta og það yrði svissneski álhringurinn sem yrði að leita gerðardóms í málinu. Ég held að sú hugmynd hafi fyrst komið fram hjá mér og ég man eftir ýmsum fulltrúum Alþb. í álviðræðunefnd sem voru mjög efins yfir þeirri málstúlkun þá. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar eftir það bréf, sem kom 10. nóv. frá Alusuisse og samningstilboð, að það væri rangt að gera það í þeirri stöðu, enda lægi ekkert á og sjálfsagt væri að leita þessara samninga til þrautar.

Það er auðvitað líka rangt að slá því upp að nú hafi iðnrh. bakfært skatta á Alusuisse eða ÍSAL sem svari 6.6 millj. dollara. Fjmrh. greindi réttilega frá því hér áðan, að það eru aðeins um 2.7 eða 2.8 millj. dollara sem nú er um að ræða, fyrir árin 1977, 1978 og 1979. Árið 1980 hafði verið bakfært áður og árið 1976 líka. Fjmrh. hélt því fram að þar sem tvær slíkar ákvarðanir hefðu áður verið teknar, þá væri ekki mikið að taka þá þriðju. En þær ákvarðanir voru allt annars eðlis, vegna þess að endurskoðunin fyrir 1980 fór fram nákvæmlega í samræmi við samninginn, eins og hann liggur fyrir, og að mínu viti þess vegna eðlilegt að bakfæra skattana beint þá, enda var það gert og það strax og fyrir löngu síðan. Bakfærslan fyrir árið 1976 var hins vegar þess eðlis, að menn töldu að með því væri verið að bjarga ákveðnum rétti, að árið 1976 fyrntist ekki. Árin 1917, 1978 og 1979 voru hins vegar engan veginn í þeirri stöðu og í ljósi þess, að tilboð hafði komið frá gagnaðila um samningaviðræður og ákveðna málsmeðferð, þá var engin ástæða til að gripa til þessa nú, nema menn hafi beinlínis áhuga á því að samningaviðræðum verði ekki komið á.

Það hefur talsvert verið rætt að ég skyldi segja mig úr álviðræðunefnd á sínum tíma. Ég gerði það eftir að hafa starfað í nefndinni nær því tvö ár. Ég gerði það vegna þess að ég vildi mótmæla þeirri vinnuaðferð sem þar var viðhöfð og vegna þess að ég óttaðist að meðferð ráðh. mundi meira skaða okkar málstað en verða honum að gagni. Það var hreinlega mitt mat. Ég segi það alveg hreint út. Ég hef oft fengist við ýmsa samninga og það er mitt mat að iðnrh., svo að ég segi þau fleygu orð enn einu sinni, annaðhvort geti ekki samið eða vilji það ekki, nema hvort tveggja sé. Ég byggi það bara hreinlega á biturri reynslu. Ég er ekkert að búa það til, langt í frá. Menn geta ábyggilega gert sér grein fyrir því að til slíkra aðgerða greip ég ekki fyrr en ég taldi þrautreynt. (Forseti: Fundartíma er rétt að ljúka. Vil ég biðja ræðumann að stytta mál sitt.) Er það ekki rétt skilið hjá mér, forseti, að fundur sé til kl. 4? (Forseti: Jú.) Það er þá stundarfjórðungur eftir.

Ég vil jafnframt benda mönnum á að þegar iðnrh. talar um þá menn sem vilji hlaupa í fang Alusuisse til þess að setjast að einhverju málamyndasamningaborði, þá verða menn að gera sér grein fyrir hvað um er að ræða. Það bréf sem frá Alusuisse kom fjallaði um það í fyrsta lagi að eldri deilumál yrðu sett í gerð. Það er ekkert vandamál fyrir Íslendinga að setja þessi mál í gerð, allra síst ef þeir trúa á sinn málstað. Sá gerðardómur sem þar var bent á er nokkru einfaldari en hinn alþjóðlegi gerðardómur, sem samningurinn gerir ráð fyrir, jafnframt því sem nánast engu er að tapa vegna þess að gagnaðilinn á samkv. samningi kröfu á því að málið sé sett í gerð ef hann vill. Þess vegna var engu við það að tapa þó að málið væri sett í gerð. En gagnaðilinn bauð jafnframt upp á það, að eftir slíka málsmeðferð yrði sest þegar að samningaborði um endurskoðun orkusamningsins, þar sem við endurskoðun orkuverðsins yrði tekið mið af því orkuverði sem álver greiða í Evrópu og Ameríku og samkeppnisaðstöðu ÍSALs. Ég fullyrði það, að það er enginn vandi fyrir Íslendinga að setjast niður til að ræða endurskoðun orkusamningsins á þeim kjörum. Menn þurfa ekkert að vera hræddir við það. Hitt er síðan annað, hvort út úr því kemur það sem við vildum sætta okkur við. En vilji menn á endanum grípa til nauðvarnar, sem ég vil kalla svo þar sem um er að ræða einhliða hækkun á orkuverði, þá held ég að menn verði að geta sannfært bæði sjálfa sig og aðra um það, að aðrar leiðir hafi verið reyndar til þrautar.

Í þessu bréfi Alusuisse var jafnframt tekið fram að þegar í stað skyldu endurskoðuð ákvæði varðandi skattgreiðslu fyrirtækisins, með það fyrir augum að hindra að slíkar deilur gætu endurtekið sig eins og nú hafa komið upp og til þess að þessi ákvæði yrðu ekki til að gera samskipti íslensku ríkisstj. og fyrirtækisins erfiðari en þegar er orðið. Jafnframt vildu þeir ræða stækkun álversins, enda næðust um það samningar sem báðir aðilar væru sáttir við. Síðan leyfir iðnrh. sér hér á Alþingi að standa upp og segja að þeir sem ekki séu sammála honum vilji stækka álverið í Straumsvík án nokkurra skilyrða, þegar öllum slíkum umræðum hefur fylgt þessi fyrirvari: enda náist um það samningar sem báðir aðilar geti sætt sig við. Hvaða samningar eru það sem Íslendingar geta sætt sig við í því sambandi? Auðvitað þeir að stækkun fari fram með þeim hætti, að orkunýting við stækkun álversins sé hagstæðari en aðrir orkunýtingarkostir sem Íslendingar eiga völ á. Nú telur iðnrh. það nánast glæpsamlegt að geta fallist á að Alusuisse fái að taka annan hluthafa inn í ÍSAL. Það er ekkert ákaflega langt síðan iðnrh. barðist fyrir því sjálfur að nýr hluthafi kæmi inn í ÍSAL og taldi það einmitt til þess fallið að auka möguleika á eftirliti okkar með fyrirtækinu. Nú hefur málflutningurinn gersamlega snúist við. Þannig er það því miður of mikið í þeim málflutningi sem iðnrh. hefur viðhaft.

Ég hef haldið því fram að þrátt fyrir marga möguleika á að opna samningaviðræður — og ég gæti skýrt þá nánar, ef hér væri tími til, eftir að hafa setið nær tvö ár í þessu máli — hafi iðnrh. lokað þeim hverjum á fætur öðrum nánast ýmist með þrjósku eða klaufaskap. Á þessum tíma hefur íslenska þjóðin tapað um 1 millj. dollara á mánuði einungis miðað við það að orkuverðið væri hækkað í sem svaraði 15 mill, sem engum mundi þó þykja of mikið.

Ég ætla að fara að óskum forseta og stytta mál mitt. Ég vil þó segja það að endingu, að æskilegra hefði verið að reyna að opna samningaviðræður með því að setja í gerð þennan hluta af deilumálinu um skattana, sem iðnrh. tók einhliða afstöðu nú um að bakfæra þrátt fyrir till. í ríkisstj. um allt annað, að því er virðist af hans málflutningi til þess að stilla menn saman, án þess að samstarfsmenn hans vissu um það í ríkisstj. Það hefði verið æskilegra að fallast á að leggja það í gerð til þess að opna samningaviðræður. Til þess þá, ef samningaviðræður ekki leiða til þeirrar niðurstöðu sem við viljum, að undirbyggja frekar möguleika okkar til einhliða aðgerða, til þeirrar nauðvarnar, ef til þess þarf að koma. Íslendingar hafa oft hælt sér af því að eiga elsta löggjafarþing veraldarinnar. Það ætti þess vegna ekki að vera neinn vandi fyrir þá að reyna að fara að samningum í þessu máli, svo lengi sem unnt er, og reyna a. m. k. að sannfæra sjálfa sig og aðra um það að önnur leið hafi ekki verið fær, ef til þeirrar leiðar þurfi að grípa. Í því sambandi vil ég líka sérstaklega minna á það, að Íslendingar hafa hvað eftir annað — og ekki síst sú ríkisstj. sem nú situr — bent á það, að helstu möguleikar til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar í framtíðinni sé aukin orkunýting. Orka íslensku þjóðarinnar er mikil, bæði í fallvötnum og jarðhita. Íslendingar eiga kannske meiri orku ónotaða á íbúa en nokkur önnur þjóð veraldarinnar. Það er mikið átak að nýta þessa orku. Það er enginn vafi á því að það gerum við ekki einir og án samstarfs við erlenda aðila. Við munum verða að leita samvinnu við erlenda aðila, bæði um tækniþekkingu og markaðsmál, til að nýta þessar orkulindir. Með tilliti til þeirra samninga og þeirrar framtíðar er það auðvitað mikið mál hvernig á þessu er haldið. Það er mikið mál fyrir þá aðila, sem í framtíðinni munu ganga til samninga við Íslendinga um nýtingu slíkra orkulinda, að þeir séu sannfærðir um það að Íslendingar rjúfi ekki samninga einhliða fyrr en aðrar leiðir séu ekki færar, fyrr en sú leið sé nauðvörn og öllum sé ljóst að íslenska þjóðin eigi ekki aðra leið. Þess vegna er það mikið mál hvernig á þessu er haldið.

Ég vil leggja megináherslu á að það sem skiptir máli nú er auðvitað árangur en ekki áróður. Það er ekki meginmálið núna að Þjóðviljinn fái aðstöðu til þess fyrir kosningarnar að birta sem flestar forsíðufyrirsagnir með heimsstyrjaldarletri. Það er ekki meginmálið. Það er meginmálið að á þessu máli sé haldið þannig, að íslenska þjóðin fái út úr því eins mikið og unnt er hið fyrsta, og jafnframt að á því sé haldið þannig, að í samningaviðræðum um framtíðarnýtingu orkulindanna verði það okkur ekki þrándur í götu.

Ég vil sérstaklega að endingu biðja menn að íhuga orð iðnrh. sjálfs, hvernig hann fer að því að stilla saman menn og krafta íslensku þjóðarinnar til átaks í þessu máli. Það er öllum ljóst að hann stendur hér einn á móti sameinaðri skoðun annarra þingflokka, á móti sameinaðri skoðun fulltrúa mikils meiri hluta íslensku þjóðarinnar. Í stað þess að leita samkomulags á svipuðum grundvelli og mikill meiri hluti vill leyfir iðnrh. sér að standa hér í þessum ræðustól frammi fyrir þjóðinni og segir það, að hann sé að reyna að stilla menn saman í þessu máli. Og hvernig? Með því að gera einn það sem honum sýnist og ætlast til þess að allir aðrir séu því sammála, hvernig sem hann að því stendur.