16.02.1983
Efri deild: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir þau orð, sem hv. 5. landsk. þm. lét hér falla, að það hlýtur að fara fram umfjöllun um þetta mál og þá með jákvæðu hugarfari af hendi okkar sjálfstæðismanna. Ástæðan er einvörðungu sú, að okkar flokkur hefur haft mikinn áhuga, eins og reyndar aðrir stjórnmálaflokkar líka og kannske allir aðrir stjórnmálaflokkar, á umbótum í vegagerð og vegamálum hér á þessu landi.

Ég hef séð mörg þingskjöl sem mér hafa þótt miklu ógeðfelldari en það frv. sem hér er til umr. En það fer ekki hjá því, að það hlýtur að vera eðlilegt að öll þessi mál séu skoðuð í nokkru samhengi og þá m. a., eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að á það sé litið hvernig þeim tekjum er ráðstafað sem umferðin gefur, t. d. bensíngjaldinu og hvernig þau mál hafa þróast á síðustu árum. Það hlýtur að verða alveg óhagganlegur fyrirvari í sambandi við afgreiðslu þessa máls að þó sé tryggt að tekjur af þessum skattstofni fari örugglega til vegagerðarinnar.

Ég undirstrika þó alveg sérstaklega það, sem ég sagði hér áðan, að það hlýtur að vera eðlilegt að líta á afgreiðslu þessa máls í samhengi við afgreiðslu á vegáætlun og langtímaáætlun í vegagerð. Það er alveg útilokað annað en langtímaáætlunin eins og hún er fram sett sé okkur sjálfstæðismönnum mikil vonbrigði. Það var okkar grundvallarstefna og markmið að sá árangur í vegagerð, sem langtímaáætlunin gerir ráð fyrir, næðist á 10 árum. Það varð hins vegar samkomulag um að þar yrði miðað við 12 ár. Nú liggur í rauninni fyrir sú yfirlýsing frá hæstv. samgrh., sem hann lét falla hér í Sþ. í gær, að í rauninni væri eðlilegt að líta á þetta sem 2.0 ára plan. Í vegáætluninni er gert ráð fyrir að ljúka uppbyggingu þjóðbrauta í þessu landi á 28 næstu árum. Og það er athyglisvert að í till. um langtímaáætlun er framlagið til þjóðbrauta minna en vetrarviðhaldið, svo dæmi sé nefnt, og ekki nema sáralítill hluti af því fjármagni sem á að fara í stofnbrautirnar. Á öll þessi mál verða menn því að lita í heild. Ég vil líka vekja athygli á því, að það er meira að segja gert ráð fyrir bundnu slitlagi á hluta af þjóðbrautunum og hvar haldi ð þið að þær þjóðbrautir á Íslandi verði sem á að fara að byggja upp eftir 28 ár, eftir þrjá áratugi.

Ég vil undirstrika það, að þegar skattlagning fer fram af þessu tagi verður að líta á það í samhengi við afgreiðslu vegamála í heild.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða miklu meira um þetta, en ég vil aðeins vekja athygli á því, að það fjármagn sem gengur inn í þessa nýju vegáætlun er ekki miklu meira og það er kannske ekki meira en nemur kostnaðinum við þekjuna sjálfa. Og því er það, að til þess að hægt sé að byggja upp vegina til þess að þeir séu til staðar til að leggja á þá þekju þarf að draga fjármagn meðal annars úr þjóðbrautunum undir varanlega slitlagið. Það hefur verið alveg skýr stefna hjá okkur sjálfstæðismönnum, og ég hygg ekki bundin frekar við okkur en aðra hv. alþm. sem hafa svipuð sjónarmið í byggðamálum og við landsbyggðarþm. höfum, að varanlegt bundið slittag á stofnbrautir hringinn í kringum landið ætti ekki að verða á kostnað annarra vegaframkvæmda í þessu landi.

Það fer að sjálfsögðu fram ítarleg umfjöllun um frv. í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Ég undirstrika að það hlýtur að verða gert með mjög jákvæðu hugarfari, en ég segi líka hitt, að það verður að gera ýmislegt annað en rétta að okkur skatta í sambandi við vegamál. Hæstv. samgrh. orðaði það þannig í Sþ. í gær, að það hefði orðið að gera eitthvað fyrir hv. sjálfstæðismenn til að gera þá ánægða í sambandi við afgreiðslu á þál. sem var samhljóða afgreidd á Alþingi vorið 1981. En það þýðir ekki að koma einvörðungu til móts við okkur í einu þskj. Það verða að standa þau fyrirheit og það samkomulag sem þá var gert. Og þá segi ég fyrir mig að ekki skal standa á að ég fylgi nauðsynlegri tekjuöflun til þess að þau markmið náist.