17.02.1983
Sameinað þing: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

186. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur í ítarlegri ræðu lýst þeirri þáltill. sem birt er á þskj. 314 og er 186. mál þingsins. Það er þess vegna óþarfi að lýsa því máli frekar. Þetta er þáltill. sem kemur frá hæstv. ríkisstj. Þó get ég ekki stillt mig um að benda á örfá atriði sérstaklega sem koma fram í grg. með till. Þar er bent á, eins og rækilega kom fram hjá hæstv. ráðh., að það starf sem liggur til grundvallar þessari þáltill. er m. a. úttekt, sem gerð var í samvinnu við Efnahags- og framfarastofnun Evrópu fyrir fáeinum árum, en á vegum þeirrar stofnunar eru sérfræðingar sem unnið hafa sams konar starf meðal ýmissa aðildarþjóða.

Í öðru lagi tel ég ástæðu til að benda á þá stefnu sem kemur fram í áætluninni og lýst er á bls. 5 í grg., en hana las hæstv. ráðh. orðrétt. Í þeirri stefnu kemur m. a. fram að á næstu árum, á þeim árum sem langtímaáætlunin tekur til, þurfi að breyta nokkuð forgangsröðun, áherslu sem leggja beri á innan ramma rannsóknar- og þróunarstarfseminnar og flytja meira fjármagn og vinnukraft yfir til rannsókna- og þróunarstarfs á sviði iðnaðar og úrvinnslugreina.

Í þriðja lagi er ástæða til að benda á ályktun Rannsóknaráðs ríkisins, sem samþykkt var á fundi ráðsins og birt er í grg. á bls. 13, en þar koma fram þau viðhorf að afla þurfi fjár til rannsóknarstarfseminnar með öðrum og víðtækari hætti en tíðkast hefur frá öndverðu í þessum málum hér á landi. Það er auðvitað eðlilegt að hv. Alþingi reyni að átta sig á þýðingu rannsóknar- og þróunarstarfseminnar í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Og það er vissulega gott þegar hv. Alþingi gefst tækifæri til að ræða langtímaáætlun sem mikil vinna hefur verið lögð í. Það er almennt viðurkennt með öðrum þjóðum að rekja megi talsvert stórt hlutfall hagvaxtarins beint til rannsóknar- og þróunarstarfsemi í þeim löndum. Til eru ýmsar rannsóknir á því sviði sérstaklega, t. d. bæði í Bandaríkjunum og Kanada, en einmitt í Vesturheimi hefur verið lögð mikil rækt við rannsóknir og þróunarstarfsemi af ýmsum toga. Sömu sögu er að segja frá Japan, en einmitt þar er að finna það hagkerfi sem best hefur staðið af sér þær kreppur sem riðið hafa yfir á undanförnum árum og áratugum. Það er ákaflega þýðingarmikið, eins og hæstv. ráðh. benti réttilega á, að árangur verði sem mestur í starfsemi sem lýtur að rannsóknum og þróun. Til þess að slíkt geti orðið þarf að bæta hæfni stofnananna sem fyrir eru í landinu og atvinnufyrirtækjanna til að taka á móti gagnkvæmum upplýsingum og ýta undir samráð, samvinnu, samspil þeirra á milli. Hæstv. ráðh. ræddi jafnframt í sinni ræðu nokkuð um forsendur fyrir því að slíkt geti gerst, eða eins og hann orðaði það, að virkni fengist í rannsóknarstarfsemina. Það eru nokkur atriði sem ég vildi gjarnan fá tækifæri til að nefna í því sambandi, sem ég tel að séu forsendur fyrir því að eitthvert vit sé í stefnu í þessum efnum.

Í fyrsta lagi vil ég benda á að það er bráðnauðsynlegt að starfsskilyrði og aðbúnaður atvinnuveganna sé með þeim hætti að þá sé unnt að reka eðlilega og þeir þurfi ekki að hanga á horriminni, eins og oft vill verða þegar t. d. fylgt er svokallaðri núllstefnu, þeirri stefnu að ekki megi byggja upp ágóða eða gróða hjá fyrirtækjunum, þeim fyrirtækjum sem vel eru rekin.

Í öðru lagi er það alls staðar í hinum vestræna heimi viðurkennt að nýta beri markaðslögmálið. Það er kannske sérstök ástæða til að gera átak á þessu sviði hér á landi, ekki bara með því að auka frelsi í viðskiptum innanlands, heldur einnig með sölu- og markaðsátaki gagnvart öðrum þjóðum. Þar getur hið opinbera auðvitað átt hlutverki að gegna og ýtt undir samstarf einkaaðila, ráðuneyta og stofnana. Í þessu sambandi er skemmst að minnast ágætra greina sem birtust fyrir skömmu m. a. í Morgunblaðinu og þeir skrifuðu Ragnar Kjartansson forstjóri og Víglundur Þorsteinsson. Þar bentu þeir á nokkur atriði í þessu sambandi og að nauðsynlegt væri fyrir okkur að gera átak á þessum sviðum. Af hálfu hins opinbera mætti hugsa sér að fram færi umr. um hugsanlega sameiningu viðskrn. og utanrrn. Þá á ég að sjálfsögðu við þann þátt viðskiptamálanna sem lýtur að viðskiptum við önnur lönd. Slíkt gæti komi að miklum notum því að eins og allir vita er tilgangslaust að framleiða og framleiða þegar ekki fæst nægilega gott verð fyrir þá vöru sem framleidd er innanlands. Íslendingar byggja eins og allir vita mikið á innflutnings- og útflutningsverslun og þess vegna hljóta markaðsmálin að leika stórt hlutverk á þessu sviði.

Í þriðja lagi finnst mér ástæða til að nefna sem forsendu fyrir virkni slíkrar langtímaáætlunar að auka þarf samstarf og verkaskiptingu milli stofnana og atvinnufyrirtækja. Það þarf að virkja atvinnufyrirtækin miklu meira en gert er. Það er hægt að gera með því að láta vissan hluta rannsóknarstarfseminnar fara fram innan fyrirtækjanna og efla samvinnu fyrirtækja á þessu sviði. Mætti að sjálfsögðu gera það í samráði við núverandi rannsóknarstofnanir.

Í fjórða lagi er ekki nóg að auka opinber fjárframlög til rannsóknarstarfseminnar heldur þarf að gera fjárframlögin verkefnabundnari og hnitmiðaðri en nú er. Inn á þessar brautir hafa ýmsar aðrar þjóðir farið, sér í lagi í Bandaríkjunum en einnig síðar í Vestur-Evrópu. Auðvitað er hugsanlegt að styrkja frekar sjóði, eins og hæstv. ráðh. kom inn á og er góðra gjalda vert, en ennfremur þarf að vinna að því, eins og reyndar hæstv. ráðh. drap á í sínu máli, að fyrirtækin hafi frumkvæði í þessum efnum. Í hv. Nd. liggur nú frv. til breytinga á skattalögunum sem gerir ráð fyrir því að fyrirtækin geti með skattfrjálsum hætti lagt fjármuni í rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Í fimmta lagi vil ég leggja áherslu á sjálfstæði rannsóknastofnana og sjálfsábyrgð þeirra. Í því sambandi má benda á starfsemi sem fram fer í Danmörku hjá Teknologisk styrelse. Starfsemi þess fyrirtækis er á þá leið að ríkisvaldið tryggir ákveðið grunnframlag til að halda starfseminni gangandi, nauðsynlegustu þáttum hennar. Síðan er lagt fram af hálfu fjárveitingavaldsins ákveðið fjárframlag, sem fer til ákveðinna verkefna, og loks mega rannsóknastofnanirnar starfa á markaðsgrundvelli og versla þannig með sína þjónustu við sjóði og fyrirtæki, félagasamtök og jafnvel ríkisvaldið. Þetta gæti verið fyrirmynd að íslensku stofnununum í framtíðinni.

Í sjötta lagi tel ég ástæðu til að benda á að bæta þarf vinnubrögð og stjórnun íslensku rannsóknastofnananna. Þegar ég nefni rannsóknastofnun á ég auðvitað fyrst og fremst við svokallaðar rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Dæmi um þetta er nýtt lagafrv. sem er nú til meðferðar á Alþingi og fjallar um breytingar á lögum um Hafrannsóknastofnunina. Í grg. með því frv. eru skilgreind störf stjórnar og ráðgjafarnefndar og hvernig stjórn stofnunarinnar og starfsmenn vinna saman.

En rannsóknir eru auðvitað annað og meira en aðeins í þágu atvinnuveganna, sem oft eru kallaðar hagnýtar rannsóknir og langtímaáætlun nær aðallega til. Við verðum að hafa í huga að það er varla hægt að hugsa sér sjálfstætt ríki án þess að einhverjar grundvallarrannsóknir eigi sér stað, rannsóknir sem eru hafnar upp yfir dægurmálin og hin venjulegu efnahagsvandamál, sem allar ríkisstjórnir þurfa við að glíma, hafnar upp yfir þrýstihópa, sem stundum ráða meira en góðu hófi gegnir um stefnuna í þessum málum, eða landshlutahagsmuni, svo eitthvað sé nefnt, rannsóknir sem þurfa að taka til miklu lengri tíma, þar sem langtímahorfur eru í fyrirrúmi. Þá á ég auðvitað fyrst og fremst við Háskóla Íslands, en honum er samkvæmt lögum ætlað það hlutverk að stunda slíkar rannsóknir. Þær rannsóknir hafa auðvitað þýðingu fyrir hagnýtar rannsóknir og í mörgum tilvikum beina þýðingu fyrir atvinnufyrirtækin í landinu. Ég tel ákaflega þýðingarmikið — og ég veit að hæstv. ráðh. er mér sammála um það — að sjá í samfellu í heild, grundvallarrannsóknirnar, hagnýtu rannsóknirnar og fyrirtækin sjálf, sem þurfa að koma nýrri þekkingu og nýjungum fyrir í atvinnulífinu til þess að auka hagsæld íslensku þjóðarinnar. Þetta þarf að sjást í samfellu og við verðum að hafa skilning á því að enginn einn þáttur getur án hinna verið.

Hæstv. ráðh. minntist í þessu sambandi á hugsanlega aðild Íslands að Flórens-sáttmálanum. Það kann að fara svo að okkur takist jafnvel á yfirstandandi Alþingi að leggja fram þáltill. sem fæli ríkisstj. að kanna hvort við gætum orðið aðilar að Flórens-sáttmálanum. Það getur gerst með ýmsum hætti, m. a. með því að gerast aðilar að upprunalega sáttmálanum án þess að taka inn í myndina þær viðbætur sem gerðar hafa verið síðan og eru um miklu víðtækari tollaniðurfellingar en upphaflegi samningurinn gerði ráð fyrir.

Það er einmitt ágætt að minnast á Flórens-sáttmálann því að ljóst er að tollar á ýmsum rannsóknartækjum hafa staðið háskólastarfseminni fyrir þrifum, eins og nýleg dæmi sanna, og jafnframt gert það að verkum að mjög erfitt er fyrir sjálfstæða rannsóknaraðila að stunda rannsóknarstarfsemi hér á landi. Oft er gripið til þess ráðs af hv. fjvn. að leggja til í 6. gr. fjárlaga að fella niður tolla og aðflutningsgjöld önnur, sölugjald jafnvel líka af slíkum tækjum, en sú aðferð er heldur slæm. Miklu betra væri að við gerðumst eins og allar aðrar Norðurlandaþjóðir og flestallar þjóðir í Vestur-Evrópu aðilar að Flórens-sáttmálanum, en það þykir sjálfsagt mál meðal flestra þjóða.

Það er auðvitað spurning hvert sé hlutverk Alþingis í stefnumótun eins og þeirri sem hér er til umræðu. Vissulega hlýtur Alþingi að hafa þar ákveðið hlutverk. Það er ekki nóg að einstökum þm. detti í hug að flytja þáltill. um rannsóknarmál, þótt það sé góðra gjalda vert, eða þá að við sem störfum á hv. Alþingi tökum um þetta ákvörðun eingöngu með fjárveitingum þegar fjárlagafrv. er til afgreiðslu. Það er nauðsynlegt að hér fari fram í þinginu umr. um þessi mál eins og tíðkast hjá nálægum þjóðum. Sá er auðvitað hængur á, að víðast eru til sérstök vísindaráðuneyti. Það höfum við ekki hér, hér heyrir þetta undir menntmrn. og ekki ástæða til að klípa það í sundur, enda hefur íslenska þjóðin ekki efni á að hafa ráðuneyti með sömu fjölbreytni og tíðkast annars staðar. En það er vissulega þess virði að um þessi mál sé fjallað á hv. Alþingi, eins og við gerum þegar fjallað er um vegáætlun, svo nefnt sé dæmi sem allir hv. þm. þekkja og tekið er fyrir einu sinni á ári. Um áætlun í rannsóknar- og þróunarstarfsemi þarf auðvitað ekki að ræða á hverju einasta þingi, en Alþingi þarf að bera ábyrgð á meginstefnunni sem fylgja skal um 5 eða 10 ára skeið. Í þessu sambandi má margt læra af öðrum. Ég get getið þess að nýlega var lögð fram á norska Stórþinginu skýrsla um þessi mál. Þar kemur fram sú stefnubreyting að rannsóknarstofnanirnar eru losaðar frá einstökum ráðuneytum og gerðar sjálfstæðari, frjálsari og sveigjanlegri í verkefnavali sínu. Mér finnst koma til álita að fyrirkomulagið sem frændur okkar Norðmenn nota verði haft til hliðsjónar þegar farið verður ofan í þessi mál hér.

Að lokum, herra forseti, vil ég fagna fram kominni till. hæstv. ríkisstj. sem hæstv. menntmrh. hefur talað fyrir fyrr á þessum fundi. Ég sit í hv. fjvn. og fæ þar tækifæri til að fjalla frekar um málið. Ég vonast til þess að þær umr. sem um þetta mál hafa orðið verði til þess að efla skilning á nauðsyn ákveðinnar stefnu í rannsóknar- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna.