02.11.1982
Sameinað þing: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

37. mál, endurskoðun á lögum um fuglafriðun

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Það kom fram í þeim, að skipuð hefur verið ný nefnd til endurskoðunar á lögum um fuglafriðun í sömu andrá og fsp. þessi var lögð fram og hefur hún að því leyti gert sitt gagn, en á hinn bóginn hlýt ég að harma að ekki skuli hafa verið unnið að málinu síðan á vordögum 1981. En ég ítreka, eins og ég sagði áður, að það var skoðun menntmn. Nd. að þetta mál þyldi ekki bið, og höfðum við raunar vænt þess að ný endurskoðun á því frv., sem þá lá fyrir, yrði lögð fram á síðasta þingi.

Úr því að þessi vinna hefur ekki farið fram er ekkert við því að segja þó þetta dragist nokkuð, en ég vil beina því til hæstv. ráðh. að hann beiti sér fyrir því að nefndin taki störf sín alvarlega og reyni að ljúka störfum sem fyrst. Ýmis ákvæði eru úrelt, eins og ég sagði, í fuglafriðunarlögunum og nauðsynlegt að við áttum okkur á hvernig við viljum standa að fuglafriðuninni í framtíðinni og taka á ýmsum þáttum, sem þar skipta mestu máli, svo sem umgengni í kringum fiskvinnslustöðvar, sláturhús, eyðingu vargfugla, friðun á ýmsum andategundum og þar fram eftir götunum, auk þess sem nauðsynlegt er að endurskoða refsirammann, t.d. varðandi friðun fálkans svo að dæmi sé tekið, en mjög mikil eftirsókn útlendinga er orðin eftirfálkum og háum verðlaunum heitið erlendis ef menn geti með einhverjum hætti komist yfir íslenskan fálka.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en aðeins leggja áherslu á að þessari endurskoðun verði hraðað svo að nýtt frv. verði lagt fyrir Alþingi strax eftir áramótin og að hægt verði að samþykkja ný fuglafriðunarlög sem allra fyrst.