02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Maður er hálfdasaður eftir þessa löngu og frábæru ræðu hv. síðasta ræðumanns þó orðin hafi verið fleiri en það sem hann ætlaði að tala um gaf tilefni til. Það vill svo til að þegar kosningaskjálfti kemur í viðkomandi ágætan hv. þm., þá fer hreinsunardeild Alþfl. af stað, og hann virðist vera nokkuð einn um það að þessu sinni. En ég held að Alþingi hafi ágætt ráð við öllum þessum hávaða og látum í viðkomandi hv. þm. Fyrir síðustu kosningar, ég tala nú ekki um aðdragandann að prófkjörum, sem þá fóru fram, gerði hann dómsmál að hvað mestum vandræðamálum í þjóðfélaginu. Niðurstaðan varð sú að hv. þm. varð dómsmrh. Ekkert heyrðist frá honum meðan hann var dómsmrh., alls ekkert þangað til kosningaskjálftinn kemur í hv. þm. nú. Þá byrjar hann að tala um svokölluð rekstrarlán og talar hátt hér í hljóðnemann: „Dettur nokkrum í hug að rekstrarlán fari í svokallaðan rekstur?“ Hér kemur hv. þm. aftur að þessu neðanjarðarhagkerfi sem hann blés út fyrir síðasta kosningaslag sinn. Ég sé ekki aðra lausn á vandamálum þessa hv. þm. en að gera hann annaðhvort að viðskrh. og bankamálaráðh. eða hreinlega efnahagsmálaráðh. (Gripið fram í.) Sagði hann það? Ég held að Alþingi væri miklu bættara með því, ef hann fengist inn í þagnartímabil eftir slíka meðferð, eins og síðast þegar hann var gerður að dómsmrh.

Ég vil draga í efa þær ráðstafanir sem Seðlabankinn hefur gert, að hann hafi heimild til að gera þær. Á ég þá sérstaklega við ákvörðun um vaxtatekjur Seðlabankans af innlánsstofnunum. Það var vitnað hér í 29. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Ég skil þá grein þannig, og aðrar greinar í lögum um Seðlabanka Íslands, að hann hafi heimild til þess að ákveða innláns- og útlánsvexti viðskiptabankanna en ekki sína eigin, enda er það hreint siðleysi. Ég vil lesa hér upp úr þeim lögum sem hv. síðasti ræðumaður vitnaði til og ráðherrar hafa vitnað til áður í þessum umr., með leyfi forseta. Í 2. gr. laga um Seðlabanka Íslands segir: „Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans.“ Í 3. gr. segir að það sé hlutverk Seðlabankans „að annast bankaviðskipti ríkissjóðs og vera ríkisstj. til ráðuneytis um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál; að vera banki annarra banka og peningastofnana, hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaskiptum.“ Og í 4. gr. segir: „Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstj. að ræða er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að sú stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum.“

Það var vitnað hér í 13. gr. laganna svo að ég ætla að leyfa mér að lesa hana upp. Þar segir, með leyfi forseta: „Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta sem innlánsstofnanir, er um ræðir í 10. gr., mega reikna af innlánum og úflánum. Nær þetta vald einnig til að ákveða hámarksvexti samkv. lögum nr. 58/1960. Vaxtaákvarðanir skulu birtast í Lögbirtingablaði.“

Ég sé ekki ástæðu til að lesa upp 10. gr. til að telja upp þær stofnanir sem Seðlabankinn á samkv. 13. gr. að lita eftir. Ég sé ekki í þessum lögum að Seðlabankinn hafi heimild til þess að ákvarða hærri vexti, önnur kjör í samskiptum sínum við viðskiptabankana en hann ákvarðar viðskiptabönkum gagnvart sínum viðskiptavinum. Ef viðskiptabankarnir eru í vanda, þá er það einmitt vegna þess að viðskiptabankarnir hafa haft bindiskyldu að gegna, bindiskyldu sem ekki er virk vegna þess að viðskiptabankarnir hafa aðgang að öllu því fé sem þeir þurfa í gegnum Seðlabankann með okurvöxtum. Það vill svo til að sú stofnun, sem hv. Alþingi valdi mig til að gegna störfum í sem bankaráðsformaður, hefur mestallt þetta ár átt meira inni í Seðlabankanum í bundnu fé á lágum vöxtum heldur en yfirdrætti á viðskiptareikningi hjá Seðlabankanum hefur numið. Það er um 50% vaxtamun að ræða. Landsbanki Íslands á við sömu vandamál að glíma. Þetta segir að sjálfsögðu það eitt, að fyrst og fremst ber Seðlabankanum að útfæra stefnu ríkisstj., hvað sem forráðamenn hans kunna sjálfir að hugsa í viðkomandi máli.

Það kom fram hjá hæstv. bankamálaráðh. hér í gær, sem er náttúrlega alveg forkastanlegt, að hann hafi farið fram á við Seðlabankann, hann hafi beðið Seðlabankann um o.s.frv. Það er eins og hæstv. ráðh. hafi allan tímann verið á hnjánum á eftir Seðlabankanum. Síðan koma aðrir ráðh. og staðfesta það, sem áður hafði komið fram, að sérstök nefnd fjögurra ráðh. væri að ræða þær ráðstafanir sem væntanlegar væru og Seðlabankann samkv. lögum ber skylda til að úttæra eftir að ríkisstj. hefur tekið afstöðu, því þá er það stefna ríkisstj. Áður en ráðherrarnir hafa lagt niðurstöður sínar fyrir ríkisstj. og áður en ríkisstj. tilkynnir Seðlabankanum niðurstöðu sína, eftir að hafa athugað tillögur þær sem Seðlabankinn leggur fyrir ríkisstj., þá kemur Seðlabankinn og segir beinum orðum við hæstv. ríkisstj.: „Þið neitið að fara frá. Þið neitið að segja af ykkur. Þið neitið að láta fólkið í landinu staðfesta umboð ykkar af ótta við að fá ekki staðfestingu. Þess vegna ætlum við að taka af ykkur völdin. Við ætlum ekki að bíða eftir að fá að vita hver stefna ykkar er í þessum efnahagsráðstöfunum. Peningamálastefnan, sem við leggjum til að verði farin, hún verður farin hvað sem þið segið. Þið megið sitja í stólunum. Þið megið fá ykkar kaup. Þið megið bara ekki taka ákvarðanir. Við ætlum að hafa völdin.“ Þá er þetta orðið alvarlegt mál.

Síðan kemur formaður Alþb., hæstv. félmrh., og telur að tímabært sé að endurskoða lögin um Seðlabankann og taka af honum þessi völd. Ég er honum alveg sammála því hér hefur átt sér stað valdataka í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: Alþingi ákvað það sjálft.) Virðulegi forseti. Ég er reiðubúinn að gera hlé á máli mínu ef hv. þm. fær að koma með innskot hér. Ef ekki, þá vildi ég gjarnan fá að halda áfram.

Þessi valdataka er náttúrlega svo augljós og svo alvarlegt mál, að ég held að Alþingi verði að gera einhverjar ráðstafanir þegar í stað til þess að — (Gripið fram í: Það var ekkert annað en lög Ég var að vitna í lögin, hv. þm., í þær greinar sem þú vitnaðir til, þannig að ég sé ekki ástæðu til að fara að vitna í þær aftur. En ég lít mjög alvarlegum augum allar þessar ráðstafanir. Síðan ég varð trúnaðarmaður Alþingis í bankaráði Útvegsbanka Íslands — og trúnaðarmaður bankamálaráðh. líka, hann skipaði mig formann — hefur þeirri stofnun verið fjarstýrt á sama hátt af Seðlabankanum og ríkisstj. er fjarstýrt núna. Það þýðir ekkert fyrir ríkisstj. að reyna að hylma yfir það að Seðlabankinn hefur þarna tekið við af henni. En í lögum um Útvegsbanka Íslands segir í 1. gr.: „Útvegsbanki Íslands er sjálfstæð stofnun sem er eign ríkisins og lýtur sérstakri stjórn samkv. lögum.“ Í 12. gr. segir: „Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Útvegsbankans. Það gerir tillögur um reglugerð bankans, sem ráðh. setur, og ákveður verkaskiptingu bankastjóra“ o.s.frv. Það fer því ekkert á milli mála að lögum samkv. er það ekki Seðlabanki Íslands sem á að stjórna ríkisstj. í fjárhags- og efnahagsmálum. Það er ekki heldur Seðlabanki Íslands sem á að stjórna eða fjarstýra viðskiptabönkunum, nema síður sé, en þetta er gert samt. Þetta kalla ég valdatöku.

Ég ætla ekki að tefja þessar umr. mjög lengi. Hæstv. sjútvrh. sagði að þessi vaxtahækkun væri umfram greiðslugetu einstaklinga og fyrirtækja. Ég er honum sammála. Þessi vaxtatekja, sem hæstv. ráðh. sjávarútvegsmála upplýsti í gær að gæti farið upp í 269% — ég skal ekki segja um hvort dæmið er rétt, en ég trúi því að það sé rétt úr því að hæstv. ráðh. gat um það hér úr þessum virðulega ræðustól — er svo gífurleg að hún hlýtur að leiða af sér vandamál sem fólkið í landinu ræður ekki við og fyrirtækin ekki heldur. Því þarf að grípa þarna í taumana og koma Seðlabankanum inn á réttar brautir.

Bæði hæstv. bankamálaráðh. og virðulegur seðlabankastjóri hafa haft orð á því við mig, að sú stofnun sem ég tilheyri hafi farið langt umfram í útlánum á þessu ári og við séum því í þeirri stofnun einn liður í þessu mikla vandamáli. Ég hef ekki heyrt þá færa orðum sínum stað með neinum rökum. Ég bað virðulega seðlabankastjóra, tvo þeirra, að gefa mér ljósrit af þeirri heimild sem Seðlabankinn hefði til að gera þessar ráðstafanir gagnvart viðskiptabönkunum. Eftir að hafa ítrekað það þrisvar sinnum fékk ég þær upplýsingar símleiðis að þær væru ekki til. Þá spurði ég: „Eftir hvaða heimildum farið þið? Þið hljótið að fara eftir einhverjum heimildum.“ „Það eru bara lög um Seðlabanka Íslands.“ „Nú, lög um Seðlabanka Íslands? Og eftir hvaða grein þá helst?“ „Ja, bara þeirri staðreynd að þið eruð svona mikið yfirdrifnir, þið skuldið okkur svona mikið.“ Þá er það komið í ljós, sem við vissum ekki þegar okkur er gert að skyldu að vera viðskiptaaðili í Seðlabankanum, að með því að skipta við seðlabanka þjóðarinnar væri bankinn að afsala sér því sem hann hefur samkv. lögum, sjálfsforræði og sjálfstæði sínu sem stofnun. Álit bendir þetta til þess að valdataka Seðlabankans í bankakerfinu sé ekkert ný. En valdataka í stjórnmálum almennt er nýlega komin upp á yfirborðið. Hún er nú að brjótast fram.

Ég fór nú að athuga þróunina í útlánastefnu, þaklánastefnu viðskiptabankanna allt frá 1977 til þessa dags. Þá kemur í ljós að útlánahækkun Útvegsbankans hefur öll þessi ár verið minni en hinna bankanna. Þegar meðalhækkun er tekin frá 1977 til 1981, þá er útlánshækkunin í þaklánum frá Landsbankanum 552%, útlánahækkun Útvegsbankans 292% og útlánahækkun Búnaðarbankans 618%. Svo kemur Iðnaðarbankinn með 606%, Verslunarbankinn 434%, Samvinnubankinn 613% og Alþýðubankinn 642%. Þetta eru tölur sem hagdeild Útvegsbankans hefur tekið saman. Ef við aftur á móti tökum árið í ár, frá 1. jan. til 31. ágúst, — þá er það rétt að Útvegsbankinn er þó nokkru hærri en hinir. Þá er Landsbankinn með 56% hækkun, Útvegsbankinn 88%, Búnaðarbankinn 37%, Iðnaðarbankinn 44%, Verslunarbankinn 32%, Samvinnubankinn 36% og Alþýðubankinn 49%. En ef við bætum þessum hluta af árinu 1982 við hin árin, sem ég las upp, miðum við tímabilið frá 1977 til 31. ágúst 1982, þá er Landsbankinn með 918% hækkun í þaklánum, Útvegsbankinn 638%, Búnaðarbankinn 883%, Iðnaðarbankinn 917%, Verslunarbankinn 606%, Samvinnubankinn 870% og Alþýðubankinn 1008%. Ég frábið mér því allt tal um óráðsíu í Útvegsbankanum á undanförnum árum. Það hefur allt of mikið verið gert af því að gera þá stofnun tortryggilega.

Ég ætla að hlaupa yfir margt af því sem ég hef punktað niður. Ég sé ekki ástæðu til að svara ýmsu því sem ég hafði þó ætlað mér að svara í málflutningi þeirra sem töluðu hér í gær. Ég geri því þessari virðulegu stofnun greiða með því að stytta mál mitt. En ég ætla að ljúka orðum mínum með því að segja, og er það svar mitt til þeirra mörgu sem hér spurðu um afstöðu mína, að ég tala ekki fyrir Sjálfstfl. Ég tala fyrir minni eigin afstöðu í þessu máli og hún er sú, að ég harma þær ráðstafanir sem Seðlabankinn hefur tilkynnt að taka skyldu gildi í gær og snerta útlánastefnu viðskiptabankanna, og vísa á hendur Seðlabanka Íslands allri ábyrgð og afleiðingum sem þær ráðstafanir koma til með að hafa á afkomu einstaklinga og fyrirtækja. Það er fyrirsjáanlegt að vandi blasir við einstaklingum og fyrirtækjum vegna þessara ráðstafana, og ég vísa allri ábyrgð á hendur Seðlabankanum því það þýðir ekkert að vísa ábyrgð á hendur ríkisstj., þrátt fyrir lög um Seðlabanka Íslands.

Ég tel hvorki ástæðu til að segja hér neitt um álit mitt á brbl. né afstöðu mína til ríkisstj., þau mál eru ekki til umræðu, enda þótt margar óskir hafi komið fram frá ræðumönnum um að Sjálfstfl. geri hér og nú grein fyrir sinni stefnu þar. Sjálfstfl. verður ekki í neinum vanda þegar þau mál koma á dagskrá.

Eitt vil ég segja að lokum. Þessi yfirlýsing, sem kom frá Seðlabankanum til innlánsstofnana og ég fékk í hendur í gær, er alveg furðulegt plagg í sjálfu sér, vegna þess að þær ráðstafanir sem Seðlabankinn er að gera og er skipt niður í þrep eftir vandamálum viðskiptabankanna við Seðlabankann á viðskiptareikningi, bjóða upp á það að bankar eins og t.d. Útvegsbankinn og Landsbankinn, sem þegar eru í hæsta þrepi, geti smeygt sér fram hjá þessum ráðstöfunum þegar í upphafi með því að gera sérstaka samninga við Seðlabankann, um að minnka þessa upphæð með því að færa af viðskiptareikningunum yfir á víxlakvóta, eða um aðra fyrirgreiðslu eftir samkomulagi, og þar með opnað það að fara frekar yfir á viðskiptareikning. Um leið og þessar þrengingarráðstafanir, sem eiga að vera barátta Seðlabankans gegn verðbólgunni, eru settar, opnar hann því leið til að fara á bak við sínar eigin ráðstafanir. Þannig er þetta allt. Ég segi það alveg eins og er að þær ráðstafanir sem Seðlabankinn er nú að gera, eins og margar ráðstafanir sem Seðlabankinn hefur gert í fortíðinni — og ég hef verið ómyrkur í máli um þær, eru gerðar að mínu viti af ráðvilltum mönnum, sem finna hjá sér hvöt — vegna þeirra trúnaðarstarfa sem þeir eru í í viðkomandi stofnun — til að gera eitthvað, í von um að þetta eitthvað sem þeir gera beri einhvern árangur.