02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er afleitt, að þm. sem hafa verið að leggja spurningar fyrir mig skuli hlaupa burtu úr þingsalnum og ekki vera viðstaddir þegar færi gefst á að svara spurningum, eins og hv. þm. Karvel Pálmason. Ég sé hann ekki hér. En hann spurði mig að því, hvort vaxtamál hefðu verið rædd í ríkisstj. í dag og það er best að ég svari því. Þau voru rædd og ég hef ákveðið að kalla saman fund með bankastjórum Seðlabankans og ráðh. atvinnuveganna, þ.e. sjútvrh., iðnrh. og landbrh., til þess að ræða um vaxtakjör afurðalána.

Hv, þm. Sighvatur Björgvinsson spurði mig um stefnuna, hvort mér hafi verið kunnugt um þá stefnu sem felst í þjóðhagsáætlun ríkisstj. Að sjálfsögðu var mér kunnugt um hana. Ég svaraði þessu þannig í gær aðspurður, að stefna ríkisstj. væri að fara varlega í vaxtahækkunum, en gæta þess að ekki skapist of mikið misræmi í vaxta- og verðtryggingarmálum. Þetta er í raun og veru í samræmi við þá stefnu sem kemur fram í þjóðhagsáætlun ríkisstj.

Það er ekkert launungarmál, að mjög margir þm. Framsfl. hafa ekki verið hávaxtamenn. Það er ekkert launungarmál að í Framsfl. hafa verið skiptar skoðanir um þau mál. Í þeirri ályktun sem þingflokkur Framsfl. gerði í gær segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingflokkurinn varar eindregið við þeirri miklu hækkun lánskjaravísitölu og vaxta sem Seðlabankinn hefur nú einhliða ákveðið ásamt stórhertum útlánareglum “o.s.frv. — M.ö.o.: þingflokkurinn lýsti yfir því, að Seðlabankinn hefði hækkað vextina of mikið að hans mati.

Ég skýrði frá því hér í gær hvernig mín afstaða hefði verið í ríkisstj., en hún var þannig, að ég beindi þeim tilmælum til Seðlabankans að fara varlega í vaxtahækkanir og er það alls ekkert óeðlilegt þó að bankamálaráðh. geri það og láti bóka þá afstöðu í ríkisstj. í fyrsta lagi og síðan í öðru lagi að frekari umr. færu fram um afurðalán til atvinnuveganna áður en ákvarðanir væru teknar þar um. En ég skal ekkert um það segja á þessu stigi málsins hver verður niðurstaða þess.

Það hefur margt komið fram í þessum umr. og skal ég ekki víkja nema að fáu einu. Ég vildi þó aðeins minna á það, sem ég tel vera meginatriði í þessari umr. og þessu máli, að hér er um að ræða tvö atriði, tvær ákvarðanir. Önnur ákvörðunin heyrir Seðlabankanum til lögum samkv., eins og ég gerði glögglega grein fyrir í gær í umr. hér, að samkv. lögum um Seðlabanka er það réttur Seðlabankans að ákveða vexti. Þetta er ekki nýtt og það er ekki nýtt að Seðlabankinn hafi ákveðið vexti án þess að ríkisstj. hafi gert um það nokkra samþykkt.

Það var réttilega til þess vitnað hér af hv. þm. Geir Hallgrímssyni, að 1974 gerðist einmitt þetta. Ég hef hér í höndum Alþingistíðindi og umr., þar sem rætt var um þetta mál, og þar segir þáv. bankamálaráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„Það kom skýrt fram á þessum fundi, að það er Seðlabankinn sem tekur ákvörðun um hámark og lágmark vaxta og lýsti forsrh. því yfir á fundinum, að samkv. lögum væri hér um ákvörðun Seðlabankans að ræða, sem ríkisstj. þyrfti ekki að taka afstöðu til“.

Þannig er um að ræða fordæmi í þessum efnum og það er ekki í fyrsta sinn nú, að Seðlabankinn tekur ákvörðun um vaxtahækkun án samþykkis ríkisstj.

Þetta vildi ég taka fram í tilefni af þeim umr. sem hér hafa farið fram. Með tilliti til þess hvað fáir þm. eru hér mættir held ég að ég hafi þetta mál ekki lengra að sinni, en það verða framhaldsumr. um þetta síðar og þá fæst tækifæri til að ræða það nánar.