02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

166. mál, hreppstjórar

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um hreppstjóra. Nefndin kallaði á sinn fund Þorleif Pálsson deildarstjóra í dómsmrn. sem ásamt með öðrum í sérstökum starfshópi eða vinnunefnd hefur samið þetta frv. Í frv. er gert ráð fyrir breytingu á gildandi lögum um hreppstjóra.

Þær breytingar eru ekki stórar í sniðum. Eru þær helstar að í fyrsta lagi er hreppstjórum gert að hlíta almennum reglum um starfsaldurshámark opinberra starfsmanna, þ. e. að miðað verði við að þeir láti af störfum 70 ára að aldri. Það er eðlilegt að sama regla gildi um þá og aðra menn í opinberri þjónustu. Í öðru lagi er breytt reglum um útreikning launa hreppstjóra á þann veg að laun ákveðist sem tiltekinn hundraðshluti af launaflokki er fjmrh. ákveður nánar. Launin miðast að nokkru við íbúatölu í viðkomandi hreppi líkt því sem nú er. Þó er sú breyting gerð að hreppstjórar í hreppum með íbúa yfir 500 talsins fá sömu laun. Breytingin, sem hér er gert ráð fyrir, felur ekki í sér að þessi laun hækki neitt umfram það sem önnur laun hafa hækkað að undanförnu, heldur er aðeins í rauninni um kerfisbreytingu að ræða. Þá er gert ráð fyrir að greiða hreppstjórum, sem hafa umfangsmiklum störfum að gegna, nokkur viðbótarlaun umfram hin föstu, sem ákveðist þá af dómsmrh. að fenginni umsögn sýslumanns eftir áætluðu vinnumagni. Loks er í þriðja og síðasta lagi ákvæði um lífeyrisréttindi sem fjmrh. er heimilað að setja nánari reglur um.

Við 1. umr. þessa máls voru hér í þessari hv. deild gerðar aths. við frv. og því beint til allshn. af hv. 4. þm. Reykn. hvort ekki mætti fækka þessum tilteknu embættismönnum, hreppstjórunum. Það varð niðurstaða í allshn. að á þessu stigi máls og við umfjöllun þessara sérstöku laga væri ekki rétt að gera tillögur um slíkar breytingar, þó svo að nm. hafi að sjálfsögðu sínar skoðanir á því. Fækkun hreppstjóra verður sjálfsagt auðveldast að koma við með sameiningu sveitarfélaga, en um það er ekki fjallað í þessum lögum. Sú hugmynd kom upp hvort ekki mætti fækka hreppstjórum með því að leggja hreppstjóraembættið niður þar sem sýsluskrifstofur væru starfandi. Okkur þótti ekki heldur heppilegt á þessu stigi máls að gera tillögur um það, enda felur þetta frv. ekki í sér kostnaðarauka sem neinu nemur fyrir ríkissjóð. Hér er aðeins verið að setja nánari ramma utan um störf sem þegar eru unnin og meginbreytingin, sem frv. gerir ráð fyrir, er að hreppstjórar láti af störfum við sjötugsaldur eins og aðrir embættismenn ríkisins.

Nefndin leggur til að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.