04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það leikur ekki vafi á því, að það er mikil þörf á að takmarka eða reyna að draga úr innflutningi og sýningum á hvers konar ofbeldiskvikmyndum. Þessu er ég auðvitað algerlega sammála, eins og allir hugsandi menn hljóta að vera. Hins vegar hef ég þá aths. að gera við það frv., sem hér er til umr., að ég tel að það sé betra að láta ógert að setja ákvæði í lög sem er ljóst að ekki er hægt að framfylgja. Ég held til dæmis að það sé ekki nokkur leið að framfylgja banni við innflutningi á ofbeldismyndum. Það er alveg ljóst að þvílíkur hópur manna ferðast til og frá Íslandi á hverju ári að það yrði að æra óstöðugan að leita uppi allar þær kassettur sem þetta fólk óneitanlega hlýtur að flytja með sér inn í landið.

Ég er sannfærður um að ofbeldi leiðir af sér ofbeldi. Sjálfur hef ég orðið vitni að ofbeldisstyrjöld í heilan mánuð og veit nokkuð hvað ég er að tala um.

Ég vil hins vegar benda hæstv. ráðh. þm. á það, að fram hefur verið lagt í Ed. hins háa Alþingis frv. til l. um breyt. á lögum nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna. Þar þykir mér vera farin miklu geðslegri leið í þessu máli. Þetta frv. er flutt af hv. þm. Eiði Guðnasyni og Kjartani Jóhannssyni, þar sem ráð er fyrir því gert að ráðherra tilnefni, að fengnum tillögum barnaverndarráðs, sérstaklega þar til hæfa menn til 5 ára í senn til þess að annast skoðun kvikmynda sem sýndar eru í kvikmyndahúsum og úrskurða um sýningarhæfni kvikmynda sem seldar eru eða leigðar á myndböndum eða myndplötum. Fyrir mínu smekk og mitt geðslag tel ég þetta miklu affarasælli aðferð en þá sem talað er um í frv. hæstv. ráðh.

Ég skal hins vegar alveg játa að þær ofbeldismyndir sem hafa komið hingað til lands eru þess eðlis að auðvitað hefði þurft að vera hægt að stöðva innflutninginn á þeim með öllum ráðum. Vil ég þá nefna t. d. þá kvikmynd, sem sérstakt tillit var tekið til í Noregi og Svíþjóð fyrir nokkrum vikum, þar sem þótti sannað að Indíánakona hefði raunverulega verið myrt svo að kvikmyndagerðarmenn gætu tekið mynd af því og gert um það kvikmynd. Þetta eru þvílíkir skelfingaratburðir að það tekur engu tali og segir okkur í stuttu máli langa sögu um siðferði homo sapiens.

En boð og bönn orka stundum tvímælis. Ég hefði haldið að vegna þeirrar gagnrýni, sem hefur komið fram, sum með réttu, önnur af þeim toga spunnin að ég tek ekki mark á henni, um að þetta jaðri við að tjáningarfrelsinu í landinu sé ógnað, hefði verið hægt að fara betri leið, þ. e. leið eftirlits, en ekki banna. Ég hef yfirleitt ekki trú á bönnum og ég hefði talið miklu æskilegra, eins og í till. hv. þm. Eiðs Guðnasonar kemur fram, að sett hefði verið í þetta nefnd sérfróðra manna, sem hefði haft eftirlit með þessu og gæti þá tekið úr umferð þær myndir, sem óheppilegar þættu á hverjum tíma, ef menn kæmust að því að þær væru sýndar annaðhvort í heimahúsum eða á opinberum stöðum.

Hér er talað um og segir, með leyfi forseta, að „sala, dreifing og sýning mynda af þessu tagi er bönnuð í íslenskri lögsögu frá gildistöku laganna.“ — „Ofbeldiskvikmynd“ merkir í lögum þessum kvikmynd, þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers konar misþyrmingar á mönnum og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir.“ Þá er talað um að brot gegn ákvæðum þessara laga varði sektum eða varðhaldi allt að 12 mánuðum.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé svipað því og menn ætluðu sér að leysa áfengisvandann með því að banna innflutning á áfengi. Við munum hvernig það tókst til hér á landi hér fyrr á árum. Ég er sannfærður um að ef menn vilja skoða ofbeldiskvikmyndir gera þeir það hvort sem það er bannað með lögum eða ekki. Ég held að það sé miklu betra að reyna að koma á ströngu eftirliti, en um leið styð ég auðvitað allar tilraunir í þá átt að draga úr sýningum á þessum kvikmyndum, sem í fyrsta lagi eru mannskemmandi og kalla í öðru lagi fram ofbeldi eins og ofbeldi kallar ævinlega fram ofbeldi.