04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft til meðferðar frv. til I. um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi. Nefndin fjallaði um og sendi frv. til umsagnar og fékk umsagnir frá dómsmrn. og sýslumanni Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu.

Að athuguðu máli komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að leggja til breytingu á 2. gr. frv. þar sem stendur að stofnsett skuli sérstakt fógetaembætti í kaupstaðnum, en leggja til að í stað þessi komi: Sýslumaður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu skal jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins. Þetta er gert með hliðsjón af sams konar breytingum sem gerðar voru í þeim sveitarfélögum sem fengið hafa kaupstaðarréttindi á liðnum árum, og vísað þar til Grindavíkurkaupstaðar, Dalvíkur, Eskifjarðar, Seltjarnarness og Selfoss. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hafa sams konar aðferð við þetta mál, að leggja ekki til að stofnað verði til nýs fógetaembættis, heldur að sýslumaður á viðkomandi svæði yrði jafnframt bæjarfógeti í Ólafsvíkurkaupstað.

Jafnframt er undirstrikað með grg. frv. að öll réttindi, sem þessu fylgja, flytjist til þessa staðar, svo að öll opinber skjöl og veðmálabækur séu á staðnum til daglegrar notkunar og slík þjónusta almennt.

Herra forseti. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessari einu brtt.