04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

216. mál, Landsvirkjun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. til I. um Landsvirkjun. Með því er gert ráð fyrir að lögfesta ýmsar þýðingarmiklar breytingar sem varða skipulag raforkuvinnslu og raforkuflutnings, sem undirbúnar hafa verið m. a. af eignaraðilum Landsvirkjunar, þ. e. ríkinu, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Flutningur þessa frv. er eins konar lokaþáttur í starfi sem unnið hefur verið að um margra ára skeið á vegum iðnrn. Ég tel rétt, áður en vikið er að meginefni frv., að bregða ljósi á nokkra þætti í þróun raforkumála, sem varða þessi efni, og leyfi mér þá að vitna til fyrrv. orkumálastjóra, Jakobs Gíslasonar, sem skipt hefur þróun raforkumála í landi okkar fram að þeim tíma sem Landsvirkjun var stofnuð, á árinu 196~, í tvö 30 ára tímabil.

Fyrra tímabilið, 1904-1934, kallar Jakob Gíslason frumbýlingsárin. Á því tímabili byggðu sveitarfélög hvert fyrir sig litlar rafstöðvar og ráku rafveitur sem takmörkuðust við einstök sveitarfélög. Á þessum árum voru stofnaðar 38 rafveitur. Uppsett afl þeirra var samtals um 5 mw. og langsamlega stærsta rafstöðin var Elliðaárstöðin með 3.2 mw. afli. Orkuvinnsla var við lok þessa tímabils árið 1934 um 10 gwst. á ári. Síðara tímabilið, 1934-1964, kallar Jakob samvirkjunar- eða samveitutímabilið. Það einkenndist af samtengingu einstakra rafveitna og byggingu virkjana fyrir slík samtengd svæði. Stærstu framkvæmdir á þessu tímabili voru Sogsvirkjun fyrir Suðvesturland og Laxárvirkjun fyrir Norðurl. e. Í lok þessa tímabils voru átta samveitusvæði á landinu auk þess sem hvert kauptún hafði sína dísilrafstöð. Uppsett afl rafstöðva landsins var árið 1964 um 150 mw. og árleg orkuvinnsla um 650 gwst.

Þriðja tímabilið í raforkusölu landsins telur Jakob Gíslason hefjast með stofnun Landsvirkjunar árið 1965. Kallar hann það landsvirkjunar- eða landsveitutímabilið. Stofnun Landsvirkjunar var á sínum tíma hugsuð sem sameining Sogsvirkjunar og Laxárvirkjunar í eitt fyrirtæki, sem gert var ráð fyrir að samtengt yrði og hefði það hlutverk með höndum að annast meginraforkuöflun og flutning raforku. Þó fór svo, vegna ólíkra sjónarmiða nyrðra og syðra, að orkuveitusvæði Landsvirkjunar takmarkaðist í reynd af hinu samtengda svæði frá Vík í Mýrdal til Borgarness og eigendur urðu aðeins tveir, ríkið og Reykjavíkurborg. Í lögunum um Landsvirkjun frá 1965 með breytingum samkv. lögum nr. 36/1969 og 37/1971 voru veittar heimildir til þriggja stórvirkjana á Þjórsár-Tungnaársvæðinu, þ. e. Búrfells-, Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana. Jafnframt voru sett ný lög um Laxárvirkjun þar sem ríkið er 35% eigandi á móti Akureyrarbæ og heimild er veitt fyrir 12 mw. viðbótarvirkjun í Laxá við Brúar. Raunar er í þeim lögum heimild fyrir ríkið að gerast helmingseigandi að Laxárvirkjun á móti Akureyrarbæ. Í landsvirkjunarlögunum frá 1965 eru þó ákvæði sem veita Laxárvirkjun einhliða rétt til að ganga í Landsvirkjun, sbr. 17. gr. laga um Landsvirkjun.

Frá því að lögin um Landsvirkjun voru sett hefur fyrirtækið byggt þær þrjár stórvirkjanir, sem heimild var veitt fyrir í lögunum frá 1965, fyrst Búrfellsvirkjun með 240 mw. afl, þá Sigölduvirkjun með 150 mw. afl og loks Hrauneyjafossvirkjun með 210 mw. afl. Til að flytja raforkuna frá þessum virkjunum til notenda hafa verið lagðar öflugar 220 kw háspennulínur. m. a. Búrfellslína I og Búrfellslína 11 og síðast Hrauneyjafossana. sem svo er kölluð, frá Sigöldu um Hrauneyjafoss að Brennimel í Hvalfirði. Á sama tíma hafa verið byggðar eða aukið við eftirtaldar vatnsaflsstöðvar í öðrum landshlutum. Á Vestfjörðum er um að ræða stækkun Mjólkárvirkjunar úr 2.4 mw. í 8. 1 mw., á Norðurlandi stækkun Laxárvirkjunar úr 12.5 mw. í 20.5 mw. og stækkun Skeiðsfossvirkjunar úr 3.2 mw. í 4.9 mw. Á Austurlandi bygging Smyrlabjargaárvirkjunar með 1 mw. afli og Lagarfossvirkjunar með 7.5 mw. afli. Á Vesturlandi stækkun Andakílsárvirkjunar úr 3.5 mw. í 7.9 mw. Þá hefur og verið hafist handa um virkjun gufuafls á þremur stöðum á þessu tímabili: Við Bjarnarflag með um 3 mw. afkastagetu, við Kröflu þar sem afköstin eru nú um 20 mw., en vélaafl fyrir hendi fyrir allt að 60 mw., og við Svartsengi þar sem um er að ræða gufuaflsstöð með 8 mw. afl. Á þeim svæðum þar sem virkjanlegt vatnsafl hefur ekki verið fyrir hendi eða ekki nægt til að fullnægja raforkuþörfinni þurfti að framleiða raforku með olíu. Þetta olli miklum kostnaði við orkuöflun. einkanlega eftir olíuverðshækkunina 1973 og síðar, og ýtti á eftir samtengingu hinna smærri orkuveitusvæða við hin stærri. Þannig tengist Snæfellssvæðið og Búrfellssvæðið landskerfinu og einnig svæðið í Vestur-Skaftafellssýslu við Kirkjubæjarklaustur og grennd.

Kerfið á Norðurlandi vestra tengdist Laxárvirkjunar­ kerfinu og við það tengdust einnig Skeiðsfosskerfið og byggðarlög í Norður-Þingeyjarsýslu. Á Austurlandi voru Borgarfjörður eystri og Vopnafjörður tengdir aðalraforkukerfinu í landshlutanum. Í samtengingu orkuveitusvæða munar þó mest um svokallaðar byggðalínur. Lagning þeirra hófst árið 1974 með byggingu Norðurlínu frá Brennimel í Hvalfirði til Akureyrar. Bráðabirgðatenging Norðurlínu var gerð í des. 1976 og lokið við línuna í nóv. 1977. Síðan hefur að heita má sleitulaust verið unnið að framkvæmdum við aðrar byggðalínur. Kröflulína milli Kröfluvirkjunar og Akureyrar var tengd í apríl 1977. Austurlína frá Kröflu að Hryggstekk í Skriðdal var tengd í des. 1978, Vesturlína frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun var tengd í okt. 1980 og Suðausturlína frá Skriðdal til Hornafjarðar var tengd 1981. Nú er unnið að Suðurlínu frá Hornafirði um Prestsbakka á Síðu að Sigöldu og að þeirri framkvæmd fullgerðri verður orkuveituhringnum lokað.

Hér hefur verið rakið að nokkru það helsta sem gert hefur verið í framkvæmdum við raforkuöflun og raforkuflutning frá stofnun Landsvirkjunar til þessa dags. Nú standa mál þannig, að heita má að allt landið sé samtengt í eitt orkuveitusvæði. Uppsett afl í vatnsaflsstöðvum er nú um 750 mw. auk 25 mw. í jarðgufustöðvum og 125 mw. í olíustöðvum, sem fyrst og fremst eru varastöðvar. Orkuvinnsla er áætluð um 3600 gwst. á þessu ári, en orkuvinnslugeta hins samtengda kerfis með uppsettu afli. sem hér var rakið, er talin vera um 4000 gwst. á ári.

Eftir að lögin um Landsvirkjun og Laxárvirkjun voru sett 1965 voru sett ný orkulög nr. 58/1967, þar sem m. a. var fjallað almennt um raforkuvinnslu, raforkuflutning og raforkudreifingu. Að settum orkulögum 1967 var næsta skref stjórnvalda vegna skipulags raforkumála að Magnús Kjartansson, þáv. iðnrh., setti á fót nefnd um raforkumál í nóv. 1971, eins og það var orðað, til að fjalla um skipulag orkuöflunar og orkudreifingar hérlendis og semja frv. til l. um þessi efni. Í nefndinni áttu sæti sjö menn undir forustu Jakobs Gíslasonar þáv. orkumálastjóra. Nefnd þessi lagði til, eins og orðað var í áliti, að fyrsta skrefið til endurskoðunar á skipulagningu á raforkuöflun og raforkudreifingu hérlendis verði það, að ríkisstj. leggi fyrir Alþingi till. til þál. um raforkumál. Í till. þessari til þál., sem lögð var fyrir Alþingi 19. apríl 1972, segir m. a. um meginraforkuvinnslu og raforkuflutning:

„Stefnt skal að því að öll meginraforkuvinnsla og raforkuflutningur í landinn verði í höndum eins aðila. að því að raforkukerfi einstakra landshluta verði tengd saman og að því að verð á raforku verði sem næst því að vera hið sama um land allt.“

Markmiðum þessum skyldi ná í áföngum með því að raforkuvinnslufyrirtæki í hverjum landshluta sameinuðust í landshlutaveitur, sem hefðu með höndum raforkuvinnslu, raforkuflatning og heildsölu til dreifiveitna. Þessi landshlutafyrirtæki skyldu vera sameign ríkissjóðs og þeirra sýslu- og sveitarfélaga á svæðinu sem þess óskuðu og verðmæti legðu fram. Eignarhluti ríkissjóðs skyldi þó aldrei verða minni en 50% í slíkum fyrirtækjum. Í samræmi við þáltill. þessa var nefndinni í okt. 1972 falið að athuga möguleika á stofnun Norðurlandsvirkjunar, sem þá var talið vera orðið tímabært mál.

Ýmsar leiðir voru kannaðar til að stofna slíkt fyrirtæki sem sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaga, en ógerlegt reyndist að ná samstöðu um það mál. Stofnun landshlutafyrirtækja var til umr. og athugunar í öðrum landshlutum, einkum á árunum 1975–1978, en þau áform hafa hvergi komið til framkvæmda nema á Vestfjörðum, þar sem stofnað var Orkubú Vestfjarða, sem tók til starfa 1. jan. 1978.

Hinn 17. jan. 1977 skipaði þáv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, nefnd átta manna undir forustu Þorv. Garðars Kristjánssonar alþm. til að endurskoða orkulög og gera tillögur um heildarskipulag og yfirstjórn orkumála, eins og það var orðað í skipunarbréfi. Nefnd þessi skilaði áliti í okt. 1978 í formi frv. til orkulaga, til laga um Rafmagnseftirlit ríkisins og til laga um Jarðboranir ríkisins. Að því er varðaði þann þátt er sneri að orkuvinnslu klofnaði nefndin í afstöðu sinni. Meiri hl. hennar stóð að till. um að stefnt skyldi að stofnun eins fyrirtækis, landsorkuveitu, sem hefði með höndum alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku eftir meginorkuflutningskerfi landsins til sölu til almenningsrafveitna og stórnotenda. Fyrirtæki þetta skyldi vera eign ríkisins og þeirra rafveitna sveitarfélaga sem vildu gerast eignaraðilar. Minni hl. nefndarinnar taldi það hlutverk Landsvirkjunar hins vegar að reisa og reka raforkuver, en sérstökum landshlutafyrirtækjum væri það heimilt í viðkomandi landshlutum. Stofna skyldi sérstakt samvirkjunarráð til að vera vettvangur samvinnu milli Landsvirkjunar og landshlutafyrirtækja.

Hinn 6. okt. 1978 skipaði ég sem iðnrh. nefnd átta manna undir forustu Tryggva Sigurbjarnarsonar verkfræðings til að gera tillögur um á hvern hátt vænlegast væri að ná fram því stefnumiði þáv. ríkisstj. að koma á fót einu landsfyrirtæki er annist meginraforkuframleiðslu og raforkuflutning um landið eftir aðalstofnlínum. Nefnd þessi skilaði áliti í febr. 1979 og lagði til að stofnað yrði landsfyrirtæki úr þáverandi Landsvirkjun, Laxárvirkjun og 132 kílóvolta byggðalínum. Í framhaldi þess skipuðu bæjarráð Akureyrar, borgarráð Reykjavíkur og iðnrn. samninganefndir væntanlegra eignaraðila í mars 1978. Samninganefndir þessar náðu samkomulagi um sameignarsamning á grundvelli nál. um útvíkkun á starfssviði og eignaraðild Landsvirkjunar og um frv. til nýrra laga um Landsvirkjun. Samninganefndirnar undirrituðu þennan samning hinn 6. júlí 1979. Hann var síðan staðfestur af ríkisstj. og bæjarstjórn Akureyrar, en náði ekki fram að ganga í borgarstjórn Reykjavíkur.

Þegar þessi niðurstaða lá fyrir í nóv. 1979 samþykktu eigendur Laxárvirkjunar að halda áfram undirbúningi að sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar á grundvelli gildandi laga um Landsvirkjun. Í framhaldi af þeirri samþykkt tilnefndu eignaraðilar Landsvirkjunar, ríkið og Reykjavíkurborg, hvor sína viðræðunefnd til viðræðna við fulltrúa Laxárvirkjunar. Niðurstaða þeirra viðræðna var að hinn 12. des. 1980 var undirritað samkomulag um sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun og skyldi það taka gildi hinn 1. júlí 1983, en frá 1. jan. 1981 skyldi rekstur fyrirtækjanna samræmdur. Hinn 27. febr. 1981 var síðan undirritaður nýr sameignarsamningur um Landsvirkjun af fulltrúum eignaraðilanna þriggja og hann staðfestur.

Í lögum um raforkuver nr. 60 frá 1981 er ríkisstj. heimilað að semja við Landsvirkjun m. a. um að reisa og reka Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Villinganesvirkjun. Í grg. sem lögð var fram með frv. til þeirra laga var ennfremur tekið fram að eðlilegt væri að leitað yrði samninga við Landsvirkjun um að fyrirtækið tæki einnig við meginstofnlínum landsins sem eignar- og rekstraraðili. Í ágúst 1981 skipaði ég sem iðnrh. nefnd fjögurra manna undir forustu Tryggva Sigurbjarnarsonar verkfræðings til viðræðna og samninga við Landsvirkjun, en Landsvirkjun tilnefndi af sinni hálfu fjögurra manna nefnd undir forustu dr. Jóhannesar Nordals stjórnarformanns Landsvirkjunar.

Niðurstaðan af starfi nefndar þessarar var að hinn 1 l . ágúst 1982 var undirritaður og síðan staðfestur samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um virkjunarmál, yfirtöku byggðalína o. fl. Þar er gert ráð fyrir að Landsvirkjun taki að sér að reisa og reka sem sína eign Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Villinganesvirkjun og yfirtaki jafnframt rannsóknir, hönnun og undirbúningsframkvæmdir við þessar virkjanir af Rafmagnsveitum ríkisins og Orkustofnun. Einnig yfirtekur Landsvirkjun 132 kílóvolta byggðalínuna af ríkinu til rekstrar og eignar.

Með gerð samnings þessa hefur orðið grundvallarbreyting á hlutverki og starfssviði Landsvirkjunar. Hlutverk Landsvirkjunar hefur þannig vaxið í að reisa og reka öll meiri háttar raforkuver í landinu og annast raforkuflutning milli landshluta. Starfssvæði fyrirtækisins verður nánast landið allt. Með þessum samningi skuldbindur Landsvirkjun sig til að selja raforku í heildsölu samkv. sömu gjaldskrá til allra landshluta og er þetta atriði eitt hið þýðingarmesta úr þessum samningi.

Hið breytta hlutverk og starfssvið Landsvirkjunar gerir það eðlilegt að sett séu ný og endurskoðuð lög um fyrirtækið. Í sameignarsamningnum um Landsvirkjun frá 27. febr. 1981 var m. a. ákvæði til bráðabirgða, þar sem aðilar lýstu samkomulagi um að vinna á aðlögunartímabilinu fram til 1. júlí 1983 að endurskoðun á fyrirkomulagi á stjórnarkjöri Landsvirkjunar og nauðsynlegri lögfestingu á samkomulagi þeirra þar að lútandi. Með hliðsjón af ofangreindum samningum leitaði iðnrn. eftir því í samhljóða bréfum til Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar, dags. 28. okt. 1982, að sveitarfélögin tilnefndu fulltrúa til viðræðna um endurskoðun laga um Landsvirkjun. Jafnframt tilkynnti iðnrn. að það hefði tilnefnt af hálfu ríkisins til viðræðnanna fjóra menn, Tryggva Sigurbjarnarson verkfræðing, Helga Bergs bankastjóra, Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóra og Halldór J. Kristjánsson lögfræðing sem ritara. Í framhaldi af bréfi þessu voru tilnefndir til viðræðnanna auk ofangreindra: Af hálfu Reykjavíkurborgar Davíð Oddsson borgarstjóri, Birgir Ísl. Gunnarsson alþm., Sigurjón Pétursson borgarfulltrúi og Kristján Benediktsson borgarfulltrúi. Af hálfu Akureyrarbæjar Valur Arnþórsson kaupfélagsstjóri, Jón G. Sólnes fyrrv. alþm. og Helgi Bergs bæjarstjóri.

Nefndirnar komu saman til fyrsta fundar 22. nóv. 1982 og héldu alls níu formlega viðræðufundi. Hinn síðasta þann 28. jan. 1983. Á þeim fundi var undirrituð sameiginleg bókun nefndanna um samkomulag um frv. það til l. um Landsvirkjun sem ég hér mæli fyrir. Ég vík nú að helstu nýmælum samkv. frv. en þau eru:

Lögfest eru ákvæði hins nýja sameignarsamnings um eignarhlut eignaraðila, sem samkv. sameignarsamningnum frá 27. febr. 1981 verður þannig: Ríkissjóður á 50%. Akureyrarbær á 5.475% og Reykjavíkurborg á 44.525% . Eignarhlutdeildin er byggð á sérstöku mati á eignum Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar, sem framkvæmt var í tengslum við samkomulag eignaraðila um sameiningu fyrirtækjanna frá 12. des. 1980 og miðast matið við verðlag 1. nóv. 1980. Samkv. matsgerðinni var eignarhlutur aðila þannig: Ríkissjóður 48.40%, Reykjavíkurborg 45.95% og Akureyrarbær 5.65%. Eignarskipting þessi var lögð til grundvallar sameignarsamningi aðila frá 27. febr. 1981. Í 3. gr. sameignarsamningsins er ákvæði um að ríkissjóði sé heimilt að auka eignarhlut sinn í 50% með því að leggja fram fjármuni eða yfirtaka skuldir að fjárhæð 70 millj. 137 þús. kr. Fjárhæðin miðast við dagsetningu matsgerðarinnar, þ. e. 1. nóv. 1980, og leiðréttist í réttu hlutfalli við breytingar á byggingarvísitölu.

Við gerð samningsins frá 11. ágúst 1982 varð að samkomulagi milli ríkisstj. og Landsvirkjunar að hluti af greiðslu fyrirtækisins fyrir byggðalínur, sem samkv. matsgerð voru seldar á 437.5 millj. kr. miðað við verðlag l. jan. 1982, skyldi greiðast með skuldajöfnun við framlag ríkisins vegna 50% áframhaldandi eignaraðildar ríkissjóðs að Landsvirkjun samkv. 3. gr. sameignarsamningsins. Sú greiðsla studdist ennfremur við 17. gr. laga nr. 59/1965 um Landsvirkjun, sem heimilar ríkisstj. að ákveða að ríkissjóður leggi Landsvirkjun til nýtt fjárframlag, þannig að helmingseign verði tryggð við sameiningu fyrirtækjanna. Fjárhæð skuldajöfnunarinnar var á verðlagi 1. jan. 1981, miðað við byggingarvísitölu 909, 117.8 millj. kr. Skuldajöfnunin kemur til framkvæmda 1. júlí 1983, þ. e. við sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun.

Eftir sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun og yfirtöku Landsvirkjunar á byggðalínum og með því að samið hefur verið um að Landsvirkjun taki að sér að reisa og reka næstu stórvirkjanir hefur orðið grundvallarbreyting á hlutverki og starfssviði Landsvirkjunar. Hlutverk fyrirtækisins verður þannig að reisa og reka öll meiri háttar raforkuver í landinu og annast raforkuflutning milli landshluta. Starfssvæði fyrirtækisins verður nánast landið allt. Ákvæðunum um tilgang fyrirtækisins er því breytt til samræmis við þessa breytingu. Kveðið er á um tilgang fyrirtækisins að hafa með höndum meginhluta orkuöflunar og heildsölu raforku í landinu. Jafnframt er aukin skylda Landsvirkjunar til að hafa með viðunandi öryggi tiltæka nægilega raforku til þess að anna þörfum viðskiptavina sinna á hverjum tíma. Með hliðsjón af hinu þýðingarmikla hlutverki Landsvirkjunar við raforkuöflun er í frv. lagt til að fyrirtækið verði skyldað til að gera samninga við aðra raforkuframleiðendur um samræmingu á rekstri raforkuvera, svonefnda samrekstrarsamninga, en tilgangurinn með gerð slíkra samninga er m. a. sá að tryggja sem best heildarhagkvæmni raforkuvinnslunnar í landinu.

Í núgildandi lögum um Landsvirkjun er starfssvæði fyrirtækisins nefnt orkuveitusvæði. Í frv. er lagt til að starfssvæði fyrirtækisins verði nefnt orkusvæði til aðgreiningar frá hugtakinu orkuveitusvæði, sem mun þá fyrst og fremst eiga við um starfsemi orkufyrirtækja sem dreifa orku til notenda í smásölu. Er með þessu ætlað að auðkenna starfsemi fyrirtækisins, þ. e. að hafa með höndum meginraforkuöflun og raforkuflutninginn í landinu, svo og heildsölu raforku. Orkusvæði Landsvirkjunar er skilgreint sem landið allt, eftir því sem raforkuver fyrirtækisins, stofnlínur og aðveitustöðvar ná til.

Höfuðstólsframlög Landsvirkjunar eru annars vegar stofnframlög, sem eigendur hafa lagt til fyrirtækisins frá upphafi og munu leggja til fyrirtækisins við sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun l. júlí 1983, og hins vegar sérstök eiginfjárframlög eigenda, sem eigendur hafa lagt til fyrirtækjanna til viðbótar við stofnframlögin. Í frv. er lagt til að ef til komi arðgreiðsla til eigenda skuli hún ákveðin sem hundraðshluti af hinum sérstöku eiginfjárframlögum. Til ársloka 1982 námu eiginfjárframlögin til Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar alls 288 924 729 kr. á verðlagi 1. nóv. 1982, sem sundurliðast sem hér segir: Frá Akureyrarbæ 2 484 187 kr., frá Reykjavíkurborg 142 889 465 kr. og frá ríkissjóði kr. 143 551 077. Hér hafa eiginfjárframlögin verið færð til verðlags 1. nóv. 1982 eftir vísitölu byggingarkostnaðar. Eru þar meðtalin framlög ríkisins til Landsvirkjunar að fjárhæð 13 341 686 kr. vegna Hrauneyjafossvirkjunar og sams konar framlag Reykjavíkurborgar að sömu fjárhæð, í báðum tilvikum lögð fram eftir 1. nóv. 1980.

Til samræmis við skuldbindingu Landsvirkjunar samkv. samningum 11. ágúst 1982 og samkv. sameignarsamningnum frá 27. febr. 1981 er lagt til að lögfest verði að sama gjaldskrá skuli gilda um afhendingu rafmagns til almenningsrafveitna frá athendingarstöðum fyrirtækisins sem nú eru í öllum landshlutum. Að öðru leyti eru ákvæði um að stjórn Landsvirkjunar setji gjaldskrá fyrir fyrirtækið, að fengnum tillögum Þjóðhagsstofnunar, óbreytt frá gildandi lögum. Þrátt fyrir óbreytt ákvæði í landsvirkjunarlögum um setningu gjaldskrár er ljóst að Landsvirkjun — eins og önnur fyrirtæki — lýtur almennum lögum um verðlagningu vöru og þjónustu í landinu, sem sett kunna að verða, hvort sem slík löggjöf nær til verðlagningar almennt eða til verðlagningar á orku. Frv. um það efni hefur raunar nýlega verið flutt og er til athugunar nú í hv. iðnn. Ed.

Samkv. 1. gr. frv., sem hér er mælt fyrir, eru óbreytt ákvæði þess efnis að eigendur eru í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins. Sem fyrr er gert ráð fyrir því að Landsvirkjun sé heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og taka ábyrgð á greiðslum og skuldbindingum í sama skyni. Til að tryggja ábyrgð eignaraðila á skuldbindingum vegna Landsvirkjunar þarf eins og áður samþykki þeirra hvers fyrir sig hverju sinni, fari skuldbindingar fram úr vissu marki. Til þessa hefur verið miðað við ákveðna upphæð, sem ákveðin var árið 1965 10 millj. gkr. á ári, að meðaltali á 5 ára tímabili. Fjárhæð þessi er nú úrelt, þar sem í lögum um Landsvirkjun nr. 59 frá 1965 var ekki gert ráð fyrir að hún fylgdi verðlagsbreytingum. auk þess sem hún þarf að hækka að raungildi ef hún á að hafa raunhæft gildi með hliðsjón af auknum umsvifum fyrirtækisins. Hefur því orðið að ráði að leggja til að ákveða umrædda viðmiðun sem 5% af endurmetnum höfuðstól. þ. e. bókfærðu eigin fé í lok næstliðins árs. Endurmetinn höfuðstóll fyrirtækisins var í árslok 1982 3.7 milljarðar kr. og 5% af höfuðstól eru því 185 millj. kr. Þegar samþykki eignaraðila er nauðsynlegt fyrir skuldbindingum samkv. ofangreindu er lagt til að samþykki ríkisins sé háð staðfestingu bæði iðnrh. og fjmrh. Í framkvæmd hefur iðnrh. hingað til veitt umræddar staðfestingar, en eðli málsins samkv. er talið rétt að iðnrh. og fjmrh. eigi hér sameiginlega hlut að máli.

Með sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun og yfirtöku Landsvirkjunar á byggðalínum og nýjum virkjunum samkv. lögum um raforkuver nr. 60 frá 1981 verður starfssvæði Landsvirkjunar nánast landið allt. Landsvirkjun er því og verður meginorkuöflunarfyrirtæki landsmanna og snertir vöxtur þess og rekstur hagsmuni allra landsmanna. Það er því talið rétt að gera ráð fyrir vissum möguleikum fyrir útvíkkun á eignaraðild að Landsvirkjun frá því sem nú er.

Í frv. er því lagt til að sýslufélög, sveitarfélög, samtök þeirra og sameignarfélög þeirra geti gerst eignaraðilar að Landsvirkjun með eftirgreindum skilyrðum:

1. Tilkynna skal það stjórn Landsvirkjunar með 12 mánaða fyrirvara.

2. Sá sem eignaraðildar óskar skal taka á sig þær skuldbindingar sem fylgja eignaraðild að Landsvirkjun. 3. Sá sem eignaraðildar óskar skal leggja fram verðmæti er nema skulu minnst 1% af endurmetnum höfuðstól Landsvirkjunar í upphafi þess árs er eignaraðild kemur til framkvæmda. En 1% af endurmetnum höfuðstól er nú 37 millj. kr.

Verði eignarhlutur ríkisins undir helmingi vegna tilkomu nýs eignaraðila er kveðið svo á að ríkisstj. skuli leggja Landsvirkjun til nýtt fjárframlag eða taka að sér greiðslu skulda, þannig að tryggð verði helmingseign af hálfu ríkisins. Leiði fjölgun eignaraðila til þess að nýr eignaraðili eigi jafnan eða stærri hlut en sá aðili sem minnstan hlut á við gildistöku laga þessara er lagt til að skipan stjórnar verði tekin til endurskoðunar. Er þá gert ráð fyrir því að stjórnarmönnum sé fjölgað án þess þó að stjórnarhlutdeild raskist milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar.

Með tilliti til þess að Landsvirkjun mun starfa í öllum landshlutum er lagt til að komið verði á föstum samráðsvettvangi við samtök sveitarfélaga í hinum einstöku landshlutum um málefni fyrirtækisins. Í frv. er lagt til að haldinn verði ársfundur Landsvirkjunar í aprílmánuði ár hvert með þátttöku fulltrúa landshlutasamtaka sveitarfélaga, þar sem kynntar verði áætlanir og afkoma Landsvirkjunar og þar sem fulltrúar sveitarfélaga geta komið sjónarmiðum um málefni Landsvirkjunar á framfæri. Hér er um mikilvægt nýmæli að ræða, enda verður að telja nauðsynlegt að hafa slíkan samráðsvettvang eigenda og samtaka sveitarfélaga til að ræða málefni Landsvirkjunar, svo sem um afkomu fyrirtækisins, áform varðandi framtíðarverkefni, öryggi í orkuvinnslu og raforkuflutningi og atriði er varða raforkuverð.

Samkv. frv. er lagt til að fjórir menn frá hverjum eiganda sitji ársfundinn og fjórir frá hverjum hinna einstöku landshlutasamtaka sveitarfélaga auk stjórnar og forstjóra Landsvirkjunar. Í frv. er lagt til að stjórnarmönnum verði fjölgað um tvo, úr sjö í níu, og skal stjórnarkjör fara þannig fram: Sameinað Alþingi kýs fjóra stjórnarmenn hlutfallskosningu, borgarstjórn Reykjavíkur kýs þrjá stjórnarmenn og bæjarstjórn Akureyrar kýs einn. Sameiginlega skipa eignaraðilar níunda manninn og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Nái eignaraðilar ekki samkomulagi um skipun formanns skal hann skipaður af Hæstarétti. Þá er lagt til að kjörtímabil stjórnar verði stytt úr 6 árum í 4 ár. Með

það fyrir augum að styrkja tengsl milli yfirstjórnar orkumála og Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að ráðherra orkumála skipi fulltrúa til setu á stjórnarfundum.

Með samþykkt laga nr. 60/1981 um raforkuver og samþykkt þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu frá 6. maí 1982 hefur tekist víðtækt samkomulag um næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjanir, m. a. um virkjanaröð. Í frv. er því lagt til að felld verði inn í lóg um Landsvirkjun ákvæðin í lögum nr. 60 frá 4. júní 1981 um raforkuver, þar sem kveðið er á um að Landsvirkjun reisi og reki Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Villinganesvirkjun, og þá að fengnu leyfi ráðherra orkumála samkv. 7. gr. frv., en í þeirri grein er að finna óbreytt ákvæði frá lögum um Landsvirkjun nr. 59 frá 1965, að því er varðar virkjunarleyfi. Landsvirkjun þarf því sem fyrr leyfi þess ráðherra sem fer með orkumál til byggingar nýrra raforkuvera og meginstofnlína.

Um heimild Landsvirkjunar til að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum raforkuvera sinna sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þeirra á hverjum tíma, m. a. með stíflugerðum og vatnsveitum, og um heimild Landsvirkjunar til að reisa eldsneytisrafstöðvar fer eftir lögum um raforkuver.

Herra forseti. Hér hefur verið reynt að bregða nokkru ljósi á helstu þætti þróunar raforkumála síðustu ára og ræddar helstu framkvæmdir í raforkumálum frá því að lög um Landsvirkjun voru sett árið 1965. Jafnframt hefur verið vikið að skipulagsmálum raforkuiðnaðarins og þeirri vinnu sem átt hefur sér stað á s. l. áratug til að treysta og samræma stjórn raforkumála í landinu. Þá hefur verið gerð grein fyrir þeim samningum sem tekist hafa um Landsvirkjun og starfsemi hennar á s. l. tveimur árum og því frv. til I. um Landsvirkjun sem hér er mælt fyrir og undirbúið var af nefndum á vegum eignaraðila að Landsvirkjun, eins og áður er fram komið. Jafnframt hefur verið gerð grein fyrir helstu nýmælum frv., sem miða að því að lögfesta ýmsar þýðingarmiklar breytingar, er varða skipulag raforkuvinnslu og raforkuflutnings. Með hliðsjón af því að nýr sameignarsamningur um Landsvirkjun tekur gildi 1. júlí 1983 er lögð áhersla á að reynt verði að afgreiða frv. þetta á yfirstandandi þingi. Ég vænti þess að það megi takast, þar sem víðtækt samkomulag hefur verið haft um undirbúning þessa máls og það milli þeirra aðila sem það mest varðar, en eðlilegt er að sjálfsögðu að hv. alþm. vilji kynna sér þetta viðfangsmikla mál, sem lagt var fyrir þingið í byrjun þessarar viku.

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að votta þakkir þeim fjölmörgu sem unnið hafa að undirbúningi þessa máls og þeirra samninga sem eru undirstaða þess frv. sem hér er fram lagt.

Að lokinni 1. umr. legg ég til að frv. þessu verði vísað til hv. iðnn.