04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

22. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem minni hl. þessarar n. hefur lagt hér fram. Ég vil ekki viðurkenna að það sé eðlilegt að lækka fasteignagjöld sem hafa verið lögð á sumarbústaðaeigendur, bæði á sumarbústaði og lóðir. Þetta er, eins og hér hefur komið fram, á misskilningi byggt. Mér sýnist að ýmislegt sem sveitarfélögin þurfa að sjá um sé ekki tekið með í reikninginn þegar lagt er til að þetta gjald, sem sumarbústaðaeigendur eiga að borga, verði lækkað. Ég vil minna á að t. d. fellur í hlut sveitarfélaganna að sjá um brunavörslu. Ef kviknar í sumarbústað eru það fyrst og fremst sveitarfélögin sem eiga að koma til og sjá um að slökkvibíll sé til reiðu. Ég tel líka að það hafi verið sveitarfélaga, a. m. k. þar sem ég þekki til, að sjá um ýmiss konar aðra vörslu og þjónustu svo sem sorpeyðingu. Því hefur verið komið á sveitarfélögin að hirða um það a. m. k. á sumum stöðum. Ég vil benda á það líka, að það hefur komið í ljós að sums staðar er því miður ekki nægilega sinnt um umhirðu á girðingum og öðrum þeim mannvirkjum sem eru í kringum sumarbústaði og það hefur þá gjarnan skapað erfiðleika og vandamál, t. d. hvað varðar fjárgæslu. Það hefur jafnvel farið svo, að kindur hafa fest sig í vír. Hefur auðvitað komið á sveitarfélögin að sjá um að greiða úr þessu.

Það má minna á fleiri þætti í sambandi við þetta mál. En mér finnst óeðlilegt að fasteignagjöldin verði lækkuð. Ég get tekið undir með þeim sem hafa hér bent á að það væri vel til athugunar að fella algerlega niður sýsluvegasjóðsgjaldið. Þetta er ekki það hár tekjuliður fyrir sýslurnar að það er tæplega að það borgi sig að innheimta gjaldið, hvað þá meira. Og ég vil segja að þar sem ég þekki til, og hef verið í sýslunefnd, hefur verið gert töluvert að því að hefla vegi heim að sumarbústöðum og eins líka að bera ofan í vissa vegi, en það hrökkva ekki langt í því skyni þær krónur sem sumarbústaðaeigendur hafa borgað í sýsluvegasjóðinn.

Þess vegna vil ég segja að ég gæti vel fylgt því að sýsluvegasjóðsgjaldið væri lagt niður, en ég er eindregið á móti því að að minnka hlut sveitarfélaga eins og meiri hl. n. leggur til að verði gert með því að ákveða fasteignagjöld á sumarbústaði með lögum.