04.03.1983
Efri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

143. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. minni hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til að gera ýmsar leiðréttingar og breytingar á lögum um húsnæðismál og Húsnæðismálastofnun. Frv. hlaut vandlegan undirbúning af hálfu stjórnar stofnunarinnar og þær breytingar sem þar er lagt til að verði leiddar í lög eru byggðar á þeirri reynslu sem fengist hefur af gildandi lögum. Hér er um að ræða ýmiss konar breytingar í þágu þess fólks, sem fyrst og fremst þarf á ódýrum íbúðum að halda, og ýmsar lagfæringar á rekstri húsnæðismálakerfisins til að breikka grundvöll þess og efla þjónustu þess við fólkið í landinu, sérstaklega yngra fólk og efnaminna fólk.

Það hefur komið rækilega fram í umfjöllun n. um málið að undirbúningurinn hefur verið vandaður. Það kann að vera meginskýringin á því að n. hafa ekki borist umsagnir allra þeirra aðila sem hún ritaði á sínum tíma. Tel ég því að aðra ályktun megi draga af þeirri staðreynd en hv. frsm. meiri hl. n., Þorv. Garðar Kristjánsson, dró hér áðan.

Við erum þeirrar skoðunar, sem stöndum að því nál. sem ég mæli hér fyrir, að það væri mjög óráðlegt að láta þessar nauðsynlegu lagfæringar og breytingar á núgildandi lögum bíða þar til síðar á þessu ári. Reynslan hefur sýnt að verði málið ekki afgreitt nú og þurfi að leggja það fyrir nýtt þing næsta haust, getur fjöldi manna orðið að bíða þess í eitt ár eða svo að fá þau réttindi sem í frv. felast.

Nefndinni hafa borist tilmæli frá samtökum stúdenta, frá leigjendasamtökum og ýmsum öðrum aðilum um að afgreiða frv. og utan þings eru fjölmargir sem bíða eftir því að Alþingi samþykki frv. Þess vegna leggjum við til að frv. verði samþykkt en flytjum brtt. við 1. gr., sem er ekki efnisbreyting en eingöngu formbreyting á þeim efnislið sem þar er rakinn. Brtt. er flutt á sérstöku þskj. Þar er tilgreind sú upphæð sem grunnur hækkunar á að miðast við á næstu árum. en í frv. eins og það liggur fyrir nú var fjallað um þetta almennum orðum án þess að nefna upphæðir.

Herra forseti. Við leggjum til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu.